25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í D-deild Alþingistíðinda. (3568)

91. mál, sala eða leiga Þórs ogHermóðs o. fl.

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Þessi till. er þess eðlis, að ég get ekki setið þegjandi hjá. En áður en ég vík að till. sjálfri, vil ég beina orðum mínum til hv. þm. A.-Húnv., sem taldi, að þótt till. yrði samþ., þá bæri ekki að skilja málið svo, sem selja ætti þessi skip, heldur væri hér aðeins um söluheimild að ræða. En ef till. næði samþykki, held ég, að enginn myndi skilja hana öðruvísi en svo, að ríkisstj. yrði að selja skipin. Á þessari till. er sama orðalag og þeirri, sem áður var borin fram um sölu Óðins og stj. notaði sér, eins og kunnugt er. Það er því ekki hægt að blekkja menn með því, að hér sé aðeins um heimild að ræða.

Hér hafa verið færð fram mörg rök fyrir því, hve óheppilegt það væri að selja þessi skip. Ég skal bæta við það nokkru um vitaskipið Hermóð. Hér var því haldið fram, að hægt væri að koma þeim flutningi, sem hann hefir annazt, yfir á strandferðirnar. En ég held ekki, að það sé framkvæmanlegt. Vitaflutningar fara einkum fram á vorin, og stundum einmitt þá, er mest er við strandferðaskipin að gera. En ég vil benda á annað atriði í þessu sambandi. Frá því að tekið var að hafa tvö strandferðaskip gangandi mestan hluta árs, hefir það verið svo, að frá því í maí og þar til í september hefir í rauninni ekki verið nema eitt strandferðaskip gangandi, því að Esja var þá notuð til farþegaflutninga milli landa, og það nýja strandferðaskip, sem á að koma í staðinn fyrir hana, á líka að nota til ferða milli landa, svo að það getur aldrei notazt vel til strandferða.

Ég læt svo útrætt um Hermóð, en vil þó aðeins geta þess til viðbótar, að möguleikarnir til að selja hann eru mjög veikir. Hann er nú orðinn 48 ára og þannig byggður, að illt væri að nota hann til fiskveiða, hefir auk þess gamaldags vél.

Um Þór er það að segja, að nánari athugun sýnir, að við Vestmannaeyjar er ekki hægt að bjóða upp á þá tegund mótorskipa, sem við höfum hugsað okkur að nota. Í mótórbátnum Óðni er 160 hestafla vél, en Þór hefir 450 hestafla vél, svo að dráttarafl þeirra er mjög ólíkt. Mótorbátur gerir lítið betur en bjarga sjálfum sér í óveðri, þar sem Þór getur líka bjargað öðrum til hafnar. Þessir yfirburðir eru tvímælalaust nauðsynlegir. Þessa skoðun hafði ég á sínum tíma, þegar um það var að ræða að selja Óðin, og hún hefir ekki breytzt. Og ég hygg, að þetta muni vera skoðun flestra sjómanna.

Um rekstrarkostnað Þórs er það rétt, að hann er allmikill, þegar skipið er í gangi mestan hluta árs, en það er ekki nema að litlu leyti kostnaður við gæzluna. Þór hefir verið notaður til fiskirannsókna, og hefir miklu fé verið varið til að gera hann hæfan til þess. Og ég hygg, að með þeirri þurrð, sem er að verða á okkar fiskimiðum, sé brýn nauðsyn að eiga slíkt skip, sem hægt er að senda út með vörpu til að leita að fiski. Sé ég ekki, að annað skip sé hentugra til þess en Þór. Og ef ekki þarf að nota hann þann tíma árs, sem hann er ekki við Vestmannaeyjar, er sá möguleiki til að leigja hann, eins og gert hefir verið, t. d. yfir síldveiðitímann. Það var gert síðastl sumar.

Ég er því þeirrar skoðunar, að við eigum ekki að kasta frá okkur slíku skipi, sem er svo vel útbúið sem Þór og ekki eldra en 17 ára og vel við haldið að öllu leyti. Og hvaða líkur eru til þess, að gott verð fengist fyrir Þór? Hann er of lítill togari, en of stór línubátur. Ég hefi því ekki trú á því, að gott verð fengist fyrir hann innanlands.

Það hefir verið sagt, að Ægir gæti komið í stað Þórs. Hann er að mörgu leyti gott skip og vel útbúið til björgunarstarfs. En það hefir sýnt sig við Eyjar á vertíðinni, að skipið má ekki fara þar burt af stöðvunum. En nú er Ægir eina skipið, sem alltaf er hægt að gripa til, ef eitthvað ber út af hér við land. Það gæti þó ekki gerzt á sama tíma og hann væri bundinn við Vestmannaeyjar. Ægir er nokkurskonar foringjaskip í gæzlunni og á að hafa yfirlitsgæzlu um allt land, þó að bátar séu líka notaðir. Þá ber þess að gæta, að Ægir þarf líka vélhreinsun, eins og önnur skip, sem dieselvélar hafa, og myndi það tefja hann alllangan tíma í hvert skipti. Að hafa mótorbáta til þessa starfs að vetrarlagi er óráð. Þeir geta gert mikið gagn þar, sem þeir eru staðbundnir. Nágrannaþjóðirnar hafa tekið upp smáskip með dieselvélar til þannig lagaðrar strandgæzlu. En það er galli á okkar bátum, að þeir eru ekki nógu hraðskreiðir, svo mikill sem hraði nýtízku togara er orðinn. Í öðrum löndum hafa verið smíðaðir mótorbátar með svo mikið vélaafl, að þeir geta farið allt að því eins hart og nýtízku togari. Reynslan af bátum þeim, sem við höfum notað, er yfirleitt góð, en þeir eru ekki nógu hraðskreiðir. Þeir komast ekki nema um 8 sjómílur á sléttum sjó og 4–5, ef vindur er á móti.

Hv. frsm. minntist á það, að líkur væru til, að björgunarskipið Sæbjörg væri til kaups fyrir ríkið. Ég er í stj. Slysavarnafélagsins, og er mér kunnugt um, að engin till. liggur fyrir innan félagsins um það að selja skipið. En þó að ríkið keypti það, gæti það ekki komið í staðinn fyrir Þór. Skipið hefir aðeins 180 hestafla vél, og gangur þess í lygnum sjó er nokkru meiri en mótorbátsins Óðins, en það kemur ekki að notum til þess að bjarga jafnstóru skipi sér eða stærra, enda er Sæbjörg ekki smíðuð fyrst og fremst til að bjarga skipum, heldur mönnum. Skipum getur hún ekki bjargað í ofveðrum, og er ekki tímabært að tala um kaup á henni, meðan ekkert liggur fyrir um það, að hún sé til sölu.

Ég skal ekki blanda mér inn í umr. um landhelgigæzluna í sambandi við þessi mál. Hana væri ástæða til að ræða um síðar hér á Alþ. En ég verð að segja það sem mína skoðun, að þó að hv. fjvn. og Alþ. komist að þeirri niðurstöðu, að gera þurfi sparnaðarráðstafanir í sambandi við okkar þjóðarbúskap, tel ég farið aftan að siðunum, ef á að byrja á því að takmarka okkar björgunarstarfsemi kringum land. Ég hygg, að ef menn líta til okkar aðstæðna allra, til þeirra mörgu manna, sem eiga alla afkomu sína undir sjósókn komna, til okkar veðráttu og þeirra slysa, sem orðið hafa hér við land, muni flestir verða mér sammála um, að ekki megi með nokkru móti draga úr framlaginu til björgunarstarfseminnar.

Ég skal ekki draga úr því, að nauðsyn beri til að lækka útgjöld ríkisins. En þessi kostnaður við varðgæzluna og björgunarstarfsemina, þessi einasti herkostnaður okkar, ef svo mætti segja, er svo hverfandi lítill, þótt við séu fámennir, miðað við það, sem aðrar þjóðir leggja á sig vegna herkostnaðar, að mér finnst þar ekkert mega af taka, eins og sakir standa.

Ég vænti því, að þessi till. nái ekki samþykki hv. Alþ., af þeim ástæðum, sem ég hefi greint.