25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (3571)

91. mál, sala eða leiga Þórs ogHermóðs o. fl.

*Frsm. (Jónas Jónsson) :

Ég ætla að svara fáeinum orðum nokkrum af þeim röksemdum, sem bornar hafa verið fram á móti þessari þáltill., sem hér liggur fyrir.

Ég álít, að í þessu sambandi hafi í raun og veru mesta þýðingu að sjá, í hvaða hug Alþ. er nú í þessum efnum. Og ég verð að segja það, að ég óttast, að eftir þeim ræðum að dæma, sem hér hafa komið fram, muni skattarnir tæplega lækka á haustþinginu. Þótt hér hafi verið færð glögg rök fyrir því, að þessum málum megi koma betur og haganlegar fyrir, veigra menn sér við að gera þar á breyt., af því þá uggir, að það kunni að ganga út yfir hagsmuni þeirra kjósenda. Af þessu leiðir, að ekki mun aðeins sitja við þau fjárl., sem nú liggja fyrir og sumum þykja of há, heldur munu þau vafalaust hækka. Þess vegna er það, að ég álít, að þær umr., sem hér fara fram, séu nokkuð fræðandi um það, hvernig hv. þm. standa í þessum málum yfirleitt.

Hjá flestöllum af þeim hv. þm., sem hér hafa talað, hefir ekki komið fram skilningur á því, að samhliða því, að ný útgjöld hljóta að skapast á ýmsum sviðum, er ekkert vit í að hugsa sér að halda öllum gömlu gjöldunum. Ég get tekið dæmi. Eftir 1–2 ár, ef friður helzt, flytur háskólinn úr neðri hæð þessa húss í afarskemmtilega byggingu. En hvað halda menn, að rekstrarkostnaður háskólans muni hækka mikið við þetta? Það húsrúm, sem hér losnar, fer til afnota Alþ. Og mig grunar, að svona muni fara með fleiri hluti. Ef talið er sjálfsagt að halda við öllum hinum gömlu, einstöku útgjöldum, getur ekki hjá því farið, að byrðarnar aukist stöðugt.

Ég get ekki komizt hjá því að minnast á það, sem kom fram hjá sumum hv. þm., að landhelgisgæzlan væri að spillast. Ég vil geta þess, að þegar sú þál. var samþ., sem hv. þm. Vestm. las hér upp, var það gert með atkv. Sjálfstfl. og Alþfl., móti Framsfl. Þótt ég hefði greitt atkv. á móti till., beygði ég mig fyrir þessari samþykkt, og átti ég þátt í að kaupa það skip, sem hér er rætt um. Get ég verið þakklátur fyrir, að skipið skuli hafa reynzt svo vel sem raun ber vitni um, að menn eftir mörg ár skuli vera ófáanlegir til að selja það. Hygg ég því, að það sé ofmælt, sem sumir hafa haldið fram, að þetta skip væri illa keypt. Þykir mér ólíklegt, að svo hafi verið, þar sem það þykir nú slíkur kjörgripur.

Þegar ég fór úr ríkisstj. árið 1932, átti ríkið 3 gæzluskip, Ægi, Óðin og Þór. Sú stj., sem þá tók við, taldi ómögulegt að halda skipunum öllum úti. Tók hún því upp þann sið, sem að meira eða minna leyti hefir haldizt við síðan, að láta skipin liggja til skiptis. Þetta var að vísu nokkur sparnaður, en ekki þó mikill. Niðurstaðan varð sú, að meiri hl. Alþ. ákvað að selja Óðin, ekki af því, að skipið væri ekki gott, heldur af hinu, að ríkið hafði ekki ráð á að halda því úti. Síðan hefir fyrirkomulagið verið þannig, að Ægir hefir gengið alltaf og Þór 5 mán. ársins og svo viku og viku við fiskirannsóknir á Faxaflóa og annað smávegis. En þetta er ekki nein heildarnotkun á skipinu og Þór hefir yfirleitt alls ekki verið notaður sem landhelgisgæzluskip, heldur sem björgunarskip við Vestmannaeyjar og til fiskirannsókna. Þess vegna eru þær röksemdir, sem hér eru bornar fram, að landhelgisgæzlan myndi versna, ef Þór yrði seldur, ekki byggðar á veruleika. Ástæðan til þess, að Þór hefir ekki gengið allt árið, er vitaskuld sú, að það hefir verið of kostnaðarsamt, og þessa sparnaðarráðstöfun hefir þingið samþ. hvað eftir annað.

Ég vil sérstaklega benda Vestfirðingum á að athuga, hvernig hefir veiðzt á grunnmiðum á fjörðum eins og Arnarfirði síðari árin, og munu þeir þá komast að annari niðurstöðu en í ræðum sínum áðan. Eftir öllum gögnum að dæma, sem fyrir liggja, hefir landhelgisgæzlan batnað við það, að bátunum hefir fjölgað. Kemur þetta til af því, að síðan talstöðvarnar voru teknar upp og skeytasendingar milli skipa, veit allur togaraflotinn, hvar okkar stóru gæzluskip eru. Þess vegna er sú skoðun, sem kom fram hjá einum hv. þm. nýlega, að landhelgissjóður fengi svona litlar tekjur vegna þess, hvað gæzlan væri léleg, algerlega röng. Þetta er einmitt af því, hvað gæzlan er góð. Og jafnvel þótt við hefðum efni á því að hafa 3 varðskip eins og Ægi, mundu fáir togarar verða teknir, og því færri, sem gæzlan væri betri, því þá hræðast togararnir skipin. Áður fyrr, þegar gamli Þór annaðist björgunarstarfsemi við Vestmannaeyjar, tók hann einu sinni 8 eða 10 togara á einum mánuði, samhliða gæzlunni. Voru þetta flest þýzkir togarar á veiðum við Portland. Nú er þetta, sem betur fer, úr sögunni. Þýzkir togarar eru næstum alveg hættir að sjást í landhelgi, franskir togarar koma þar varla, enskir togarar lítið eitt, og sama má segja um þá íslenzku.

Af þeim ástæðum, sem ég þegar hefi greint, vil ég því leyfa mér að halda fram, að sannað sé, að það verði ákaflega erfitt fyrir skip eins og Óðinn gamli var eða fyrir Ægi að ná togara í landhelgi, vegna þess hvað þeir eru varir um sig og miklu hægara er að sjá til stórra varðskipa en lítilla báta. Og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að menn séu almennt fallnir frá þeirri skoðun, að við eigum að byggja okkar landhelgisgæzlu á stórum skipum.

Hv. þm. Vestm. hélt því fram í sinni ræðu, sem hann flutti að vísu með hógværð og kurteisi, eins og hans var von, að landið væri bundið samningum um gæzluskip við Vestmannaeyjar, sem ekki mætti breyta. Ég vil benda hv. þm. á — án þess að það séu hnútur til Vestmannaeyinga —, að í þessum samningum frá 1926 var gert ráð fyrir því, að Vestmannaeyingar borguðu talsverða þóknun fyrir þetta gæzluskip, 15000 kr. á ári. Meðan ég var í stj., lentu þeir í vandræðum með þessa greiðslu, ekki af því, að þeir vildu ekki borga, heldur af sömu ástæðu og fjvn. flytur þessa till., að þeir áttu erfitt með að borga. Og þessi greiðsla féll niður. Getur nú ekki Vestmannaeyingum, bæði uppbótarþm. og aðalþm., dottið í hug, að landið í heild hafi ekki nægilega peninga til alls, úr því þeir höfðu ekki fé til þess að standa í skilum með þessa greiðslu?

Ég hefði ekki að fyrra bragði farið að tala um þessa hluti og ég tel það á engan hátt ámælisvert fyrir Vestmannaeyinga, þótt svona færi, en ég álít samt sem áður, að Vestmannaeyingar megi gjarnan muna þetta, ef þeir telja, að ekki eigi að taka tillit til annara en þeirra.

Þá vil ég út af ræðu hv. þm. Ísaf. benda á, að mér þykir furðulegt, að hann, sá góði maður, skuli vera svo trúaður á, að halda eigi við öllu gamla kerfinu, þar sem hann veit, að samhliða því er ekki hægt að koma björgunar- og gæzlumálum við Vestfirði í það horf, sem hann og þeir þar vestra óska eftir, sem sé að fá þangað bát á stærð við Óðin. Og af hverju er þetta ekki hægt? Það er af þeirri einföldu ástæðu, að það vantar peninga. Ef á að halda úti skipi við Vestmannaeyjar, sem kostar 200 þús. kr. á ári, hefir það óhjákvæmilega þær afleiðingar, að minna verður hægt að leggja til björgunarstarfsemi við Austfirði, Vestfirði og fyrir Norðurlandi. Þeir ágætu þm., sem staðráðnir eru í því að drepa þessa till., mega því teljast ákaflega óeigingjarnir, þar sem vitað er, að af sigri þeirra leiðir, að minna verður gert fyrir þá.

Ég viðurkenni, að sjórinn við Vestmannaeyjar sé verri en við flóana vestanlands og austan og fyrir Norðurlandi, en ég álít, að hann sé ekki það miklu verri, að Vestmannaeyingar eigi að hafa 200 þús. kr. bát hjá sér, en allir aðrir að láta sér nægja litla báta og ófullkomna.

Ég skal geta þess, að á Vestfjörðum er búið að skjóta saman 60 þús. kr. — og ég held álíka miklu á Norðurlandi — í bát eins og Óðinn. Og þar eru menn á eitt sáttir um það, að heppilegast sé, að þessi bátur annist bæði björgunarstörf og landhelgisgæzlu.

Ég þykist vita, að þessi till. muni verða felld. En málið er ekki leyst fyrir því. Það er ettir að ráða fram úr, hvernig séð verður fyrir gæzlunni við Austfirði, Vestfirði og fyrir Norðurlandi. Og ég vil biðja hv. þm. að muna það, að þegar við vorum búnir að kaupa 3 stór skip til landhelgisgæzlunnar, var hætt að nota þau, af því að við höfðum ekki ráð á að halda þeim úti.

Í sambandi við Sæbjörgu vil ég aðeins taka það fram, að það er rétt, að ekki hefir komið til þingsins nein ósk um kaup á henni, enda mundi ekki um nein kaup að ræða, því ég hygg, að ef að því kæmi, að félagið vildi losna við hana, mundi það gefa landinu hana.

Ég vil skjóta því til hv. þm., ekki sízt hv. þm. Vestm., að mér kemur það furðulega fyrir sjónir, að hér við Faxaflóa hefir verið lagt stórfé í Sæbjörgu og unnið við byggingu hennar af lærðum skipstjórum. Og hver er niðurstaðan? Jafnast þetta skip á við Þór, eða er það eins hraðskreitt og Óðinn? Menn vita, að þetta skip er búið allt öðruvísi út en Þór og að það hefir veikari vél en Óðinn. Og þetta á að vera björgunarskip sjómanna á Faxaflóa. Þess vegna held ég, að það sé ofrausn hjá þeim mönnum, sem því halda fram, að við getum tryggt Vestmannaeyinga betur en með Óðni og Ægi, úr því Faxaflói á að láta sér nægja Sæbjörgu.

Þá vil ég víkja fáeinum orðum að vitamálastjóra. Fyrir nokkrum árum kom til orða hér á þingi að selja vitabátinn. En af því að þáv. vitamálastjóri var gamall maður og þetta var viðkvæmt mál fyrir hann, þá var horfið frá þessu ráði. Menn vissu líka, að vitamálastjóri væri að því kominn að hætta störfum og gerðu ráð fyrir, að eftirmaður hans mundi ekki hafa sömu sögulegu viðkvæmnina gagnvart þessu skipi og hægara mundi verða að koma við rökum í þessu máli hvað hann snerti. Þetta hefir þó ekki reynzt þannig að öllu leyti. Þótt núv. vitamálastjóri hafi ekki verið lengi í embætti, virðist hann ætla að halda eins fast í þennan bát og fyrirrennari hans.

Ég vil segja vitamálastjóra það, að þetta bréf, sem hann las hér upp eftir fyrirrennara sinn, hefi ég að litlu, því þótt sá mæti maður hafi margt vel gert, get ég upplýst, að í mínu kjördæmi lét hann byggja 200 m. langa bryggju, beint á móti opnu hafi, þótt hægt væri að koma henni þannig fyrir, að hún gæfi skjól. Og dóm þess sérfróða manns, sem bar ábyrgð á slíku verki, hefi ég að engu um alla þess háttar hluti.

Reynsla mín af ýmsum sérfræðingum hefir verið þannig, að ég hefi komizt að þeirri niðurstöðu, að þótt þeir séu nauðsynlegir, megi ekki taka orð þeirra eins og goðsvör, því þeir eru ófullkomnir eins og aðrir menn. Það má segja frá því hér, að fyrir skömmu síðan fengum við í fjvn. tilmæli um að leggja 25 þús. kr. í brimbrjótinn í Bolungavík. Í þennan brimbrjót hefir áður verið lagt of fjár, og hafa margir sérfræðingar gert till. um hann, enda átti hann fyrir mörgum árum síðan að vera orðinn ódrepandi. En svona er reynslan. Þess vegna er það, að sérfræðingar fá aldrei fyrirfram skorið úr því, hvernig bezt er að haga rekstri og öllu fyrirkomulagi þessara skipa, sem hér er deilt um, þótt þeir verði hafðir með í ráðum. Og líklega verður það að lokum pyngja ríkissjóðs, sem segir til um, hvernig eigi að koma þessu fyrir.

Hv. 6. landsk. sagði okkur, hvernig við eigum að koma þessu fyrir, en út í hina ágætu ræðu hv. vitamálastjóra ætla ég ekki að fara að ráði, ræðu, sem myndi vera ómögulegt að flytja nema hér. Ég ætla ekki að þreyta þingheim verulega til viðbótar við þær umr., sem þegar hafa farið fram um þetta mál.

Hv. 6. landsk. sagði, að við yrðum að eiga skip til flutninga. En við eigum eitt stórt varðskip, og við eigum auk þess nokkra varðbáta, sem ekki hafa neitt annað að gera en að lóna kringum strendur landsins. Það er skiljanlegt, að suma menn skorti ímyndunarafl til að geta notað þá til þessa, því það þarf fjör og vilja til að sjá slíkt. Við Íslendingar eigum að laga okkur eftir kringumstæðunum. Ég hefi ekki mikla hugmynd um, hve mikið er hægt að hafa upp úr vitabátnum. En það yrði talsverður munur, hvort við eyddum 60 þús. kr. á ári í það, að hafa þetta vitaskip við strendur Íslands til viðbótar við bátana, er geta gert sama verk, eða spöruðum okkur þau útgjöld. Ég vildi, að hv. vitamálastjóri ynni ekki aðeins þann sigur að fella þessa till., heldur einnig, að kringumstæður okkar yrðu svo góðar, að við gætum leyft okkur að ausa út peningum. Það er náttúrlega skemmtilegt fyrir vitamálastjóra að hafa þetta skip, en ekki þjóðarnauðsyn fyrir því.

Ég ætla nú að segja eitt dæmi um það, hvernig menn komast á löngum tíma að raun um, að það er hægt að laga sig dálítið eftir kringumstæðunum.

Á fyrsta Alþ., sem ég átti sæti á, en það var 1923, bar ég ásamt Sveini í Firði fram till. um, að varðskip yrði byggt, sem bæði annaðist landhelgisgæzlu og hefði líka útbúnað til þess að geta dregið út strönduð skip. Það áttu menn að sjá, að það var ákaflega hentugt að hafa varðskip við strendur Íslands, er gæti leyst þetta tvöfalda hlutverk forsvaranlega af hendi. En þá komu sjávarútvegsmenn og sögðu: Þetta er ekki hægt. Hvernig fer um landhelgisgæzluna, þegar varðskipið er að draga út strönduð skip? En eftir stuttan tíma fór útlenda varðskipið burtu, og við Íslendingar urðum að annast landhelgisgæzluna sjálfir, og varðskipið dró líka út strönduð skip, og þegar till. kom, urðu allir ánægðir með það.

Þessi till. frá fjvn. miðar að því sama, sem till. um byggingu varðskips, sem sé, að við Íslendingar lögum okkur eftir okkar kringumstæðum.

Mér hefir fundizt, að þeim mönnum, sem hafa andmælt þessari till., fari nokkuð líkt og þeirri prýðilegu drottningu, sem sagðist ekkert skilja í fólkinu, að vera að svelta, — það ætti bara að borða smjörið sitt og brauðið.