25.04.1939
Sameinað þing: 10. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (3572)

91. mál, sala eða leiga Þórs ogHermóðs o. fl.

*Emil Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð, sem mig langar til að segja. Ég held, að hv. þm. S.-Þ. hafi alveg misskilið mig. Ég er á móti þeirri till. í þessu máli, er kom frá fjvn., ekki vegna þess, að í henni felist sparnaður fyrir ríkissjóð, heldur vegna þess eins, að verði horfið að því ráði, sem sú till. gerir ráð fyrir, verður það ekki sparnaður, heldur þvert á móti dýrara fyrir ríkissjóð. Hv. þm. S.-Þ. talaði um, að það væri ekki hægt að lækka skatta og tolla, því að við, sem hefðum andmælt þessari till. frá fjvn., gerðum slíkar lækkanir ókleifar með því að vera á móti till. Það var sannarlega ekki meining mín að vera á móti því, að hagnaður ríkissjóðs yrði gerður sem mestur og að sparað yrði sem mest; ég vildi fylgja hverri þeirri leið til lækkunar, sem ég teldi bezta og hagkvæmasta, ekki aðeins fyrir embættismenn, heldur líka fyrir ríkissjóð. En það, sem gerði, að ég var á móti þessari till. fjvn., var, að sala Hermóðs myndi fyrst og fremst verða kostnaðarauki fyrir ríkið. Þeir bátar, sem vitamálastjóri þyrfti að hafa undir höndum, ef Hermóður yrði seldur, myndu verða dýrari en hann. Þetta er það, sem fyrir mér vakir, og ég hefi athugað þetta mál rækilega og mun reyna að sanna það.

Ég mun ekki fara mikið út í það, sem hv. þm. S.-Þ. sagði, aðeins minnast á tvö atriði, sem hann drap á í ræðu sinni. Hann sagðist ekki geta fallizt á rök fyrrv. vitamálastjóra, sem hefði átt þátt í því, að bryggjan var byggð á Húsavík og brimbrjóturinn í Bolungavík, sem ekki hefði staðizt sína raun. Ég hefi ekki heyrt annað en að bryggjan á Húsavík hafi staðizt sína raun, en ég hefi heyrt, að hún hafi orðið of dýr, og ég vil leggja áherzlu á, að það er nokkuð annað að framkvæma byggingu hafnarmannvirkja eða leggja vitakerfi landsins frá rótum, eins og fyrrv. vitamálastjóri gerði. Ég hefi engan mann, hvorki útlendan né innlendan, heyrt vefengja það, að skipulagið, sem hann valdi fyrir vitakerfi landsins, sé rétt fyrir íslenzka staðhætti. Samkv. minni reynslu í þeim efnum held ég, að hann hafi hitt á langheppilegasta fyrirkomulagið á þeim málum, sem okkur verði affarasælast að búa við. Aftur á móti kynni það að orka tvímælis um þau hafnarmannvirki, sem hann hefir verið riðinn við, en það breytir engu um álit á honum sem kunnáttumanni á sviði vitamálanna. Varfærnustu innlendir og erlendir kunnáttumenn á sviði vitamálanna hafa ekki haft neitt verulegt út á vitakerfi Íslands að setja.

Um brimbrjótinn í Bolungavík og bryggjuna á Húsavík gæti ég haldið langa ræðu, því að ég hefi sett mig nokkuð inn í bæði þau mál. Ég tel, að hv. þm. S.-Þ. hafi kallað sök fyrrv. vitamálastjóra meiri í báðum þessum tilfellum en rétt var. Án þess að ég ætli að fara að ræða það mál hér, vil ég benda á, að þær aðgerðir á brimbrjótnum í Bolungavík, sem dýrastar hafa orðið, hafa ekki verið gerðar samkv. ráðum fyrrv. vitamálastjóra, heldur móti þeim. Í öðru lagi er það að segja um bryggjuna, sem gerð var á Húsavík, að í hana mun hafa verið ráðizt án þess að leita tillagna hans, en hann átti að ráða, hvaða leið væri farin.

En þetta kemur ekki vitamálum landsins við, sem enginn, ekki einu sinni hv. þm. S.-Þ., hefir borið brigður á, að væru haganleg fyrir landið. Hv. þm. S.-Þ. spurði, hvað landhelgisbátarnir hefðu annað þarfara að gera en að sinna þessum málum. Ég man ekki, hvort hann var hér inni, þegar ég var að lýsa því, hvert væri hlutverk Hermóðs. Oft er mikið, sem þarf að flytja til vitavarðanna, þar sem þangað verður að flytja bæði kol, málningu, neyzluvörur og fleira, en það eru sumpart vörur, sem ekki er víst, að aðrir vilji taka að sér að flytja. (SÁÓ: Þeir hafa ekki farrými til þess.) Farrýmið er takmarkað, en ef möguleikar eru fyrir Hermóð að hafa meðferðis léttabáta þá, sem þarf til að komast að vitunum, er þó hægt að flytja vörur þangað. En án léttabáta væru flutningar með landhelgisbátunum mjög erfiðir og í sumum tilfellum ókleifir.

Þá sagðist hv. þm. S.-Þ. geta skilið það, að mér þætti gaman að geta ausið út peningum eins og ég vildi, og gaf hann það með því í skyn, að meiru hefði verið eytt til vitamála en þörf er á. En ég leyfi mér að fullyrða, að ég hefi rækt þannig starf mitt, að ég hefi viðhaft alla þá viðleitni, sem frekast var unnt, til að draga úr kostnaðinum við rekstur Hermóðs, og rekstrarkostnaðurinn við vitana heftir verið lækkaður úr 70 þús. kr. niður í 48 þús. kr. á ári. Ég fullyrði það, að eigi er unnt að draga úr þeim kostnaði miklu meira en enn hefir verið gert, en ef það eiga að vera launin, sem embættismenn ríkisins fá fyrir að reyna að draga úr kostnaðinum, að reksturinn er lagður á annan og óhaganlegri grundvöll, verður það ekki uppörvandi fyrir þá að reyna lækkanir á útgjöldum ríkisins. Vitamálakerfið hefir gert það að verkum, að unnt var að draga úr rekstrarkostnaðinum án þess að öryggi vitanna og starfsemi þeirra liði nokkuð við það. Útgjaldakostnaður við þá hefir lækkað um 20 þús. kr. á ári. Ég veit að vísu ekki, hvort hægt verður að halda þeim kostnaði í sama horfi framvegis, því að allt hefir nú hækkað í verði. En það er heppilegt að leitast við að spara á hvern þann hátt, sem hægt er án þess að það hefni sín strax aftur.