06.12.1939
Neðri deild: 76. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (3587)

142. mál, ríkisreikningurinn 1937

*Forseti (JörB) :

Ég hygg heppilegast, að umr. fari fram hver út af fyrir sig, og verði sérstakar umr. um till., því í þeim umr. verður gerð grein fyrir ástæðum fyrir því, að þær eru fram bornar. Það virðast líka allir sammála um, að Alþ. samþ. frv. um samþykkt á ríkisreikningnum, og því geti það gengið sinn gang, en umr. fari svo fram í sambandi við þáltill. Það er varla hægt að koma því við að hafa sameiginlegar umr. um þessi mál, því þáltill. eru sérstök þingmál, og álít ég, að umr. verði að fara fram sérstaklega um þær, og vitanlega snertir það þá frv. um ríkisreikninginn. Getur mér ekki skilizt annað en að menn geti fallizt á þetta. (JPálm: Ég get ekki fallizt á þetta). Hv. þm. A.-Húnv. skaut því nú inn í, að hann geti ekki fallizt á þetta. Þá veit ég ekki, hvernig hann ætlar að ræða málin. Ég ætlast til, að umr. fari fram sérstaklega um þáltill., en ekki í sambandi við frv. um ríkisreikninginn. Hefir fjhn. fullkomlega fallizt á þetta í viðtali við mig.