20.03.1939
Efri deild: 20. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (3607)

32. mál, samgöngur við Austfirði

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég hefi ekki kvatt mér hljóðs til að hefja andmæli gegn rökstuðningi hv. 1. flm., en mér virðist málið þannig vaxið, að það geti orðið æðivíðtækt, ef við förum að ræða samgöngumál okkar yfirleitt í sambandi við það. Ég ætla mér ekki þá dul að andmæla réttmæti rökstuðnings hv. þm., sem bar í sér margt rétt og satt að því er það snertir, að Austfirðir eiga við skarðan hlut að búa í þessu máli. En svo að hægt sé að ræða þetta mál og ráða fram úr því svo, að vel megi við una, álít ég, að það þurfi að rannsakast af þeim mönnum, sem bezt skyn bera á það, og það hefir komið mér til að segja þessi orð.

Eins og till. er vaxin, virðist mér það fljótræðislegt mjög að samþ. hana hér í hv. d. án þess að fram fari slík athugun, og ég álít réttara, að n. hér í hv. d. fái tækifæri. til að kynna sér alla málavexti um það, hvort mögulegt sé að koma á þessum samgöngum við útlönd með viðkomu á Austfjörðum.

Ég skal ekki lengja umr. með því að skýra mitt álit, en ég vil leggja til, að umr. verði frestað, og ég hygg, að réttast væri, að hv. samgmn. fengi málið til athugunar áður en umr. lýkur. Það vill svo vel til, að Austfirðingafjórðungur á að mestu leyti sem fulltrúa alla meðlimi samgmn., svo ég geri ráð fyrir, að málið mæti þar fullum velvilja og að athugað verði þar, hvað hægt er að gera, svo að Austfirðingar megi vel við una.

Ég get sparað mér að fara nánar út í málið þar til það kemur úr n., en till. mín til hæstv. forseta er sú, að málinu verði frestað og vísað til samgmn.