12.12.1939
Efri deild: 82. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (3615)

145. mál, félagsdómur

*Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Það er alveg rétt hjá hv. flm. þessarar till., að það var merkilegt löggjafaratriði og stefndi til þjóðþrifa, að stofnsetja félagsdóm, sem hefir með höndum þau mál sérstaklega, sem rísa út af kaupdeilum. Fyrir þessari löggjöf hefir verið barizt a. m. k. bæði af hendi Sjálfstfl. og Framsfl. langri og harðri baráttu, og þessi löggjöf var sett með langsamlegum meirihlutavilja hér á Alþ., þegar hún loks komst á.

Eitt frumskilyrði þess, að af þessari löggjöf verði það gagn, sem þeir, er að henni stóðu, vænta, er að sjálfsögðu það, að sýna félagsdómi alla þá virðingu og nærgætni, sem á hverjum tíma er nauðsynleg til þess að almenningur í landinu geti borið virðingu fyrir þessum dómstóli. Ég álít, að það sé tvennt, sem veltur á því til framdráttar, að félagsdómur megi verða að sem mestu gagni: Annað, að dómurinn sæti hæfilegu aðhaldi, — því að það er hollt og hverjum manni nauðsynlegt, — en hitt, sem er engu minna atriði, að gagnrýni á dómstólnum byggist á fullkominni sanngirni og velvild. Mér hefir fundizt þess gæta, að nokkuð andi kalt í garð dómstólsins, jafnvel frá hendi þeirra manna, sem voru löggjöfinni mjög fylgjandi á sínum tíma og alveg vafalaust bera hag félagsdóms fyrir brjósti og vilja vinna að því, að hann öðlist hjá þjóðinni þá virðingu, sem honum ber. Á ég þar m. a. við hv. flm. þessarar till., hv. þm. S.-Þ. Hann hefir, eins og hann sjálfur sagði, skrifað blaðagrein, að gefnu tilefni að því er honum finnst, þar sem hann fjargviðraðist yfir því, að dómararnir hafi tekið sér sumarfri, og hafði á orði, að þetta sumarfrí bæri að framlengja, þ. e. a. s. víkja dómurunum frá störfum. Ég ætla ekki að fara út í stælur um þetta atriði, en aðeins skýra frá því frá mínu sjónarmiði, á hve miklum rökum þessi ummæli og þessi fyrirætlun hv. flm. er reist, og að hve miklu leyti þetta er makleg árás á dómendurna.

Ég hefi hér fyrir mér nokkur gögn í þessu máli. Með bréfi, dags. 29. júlí 1939, til félagsmálaráðuneytisins (sem í þessu tilfelli átti að sjálfsögðu að vera til atvinnumálaráðuneytisins. af því að félagsdómsmálefni heyra undir það) kærir stjórn Alþýðusambandsins yfir félagsdómi og ber á hann nokkrar sakir. Þetta bréf var að mínu fyrirlagi sent félagsdómi til umsagnar, og hann svaraði því með bréfi, dags. 7. sept. Þetta bréf vil ég leyfa mér að lesa hér upp vegna þess. að það skýrir málið eins og bezt verður á kosið. Bréfið hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: “Félagsdómur.

Reykjavík, 7/3 '39.

Atvinnumálaráðuneytið hefir sent félagsdómi til umsagnar erindi Alþýðusambands Íslands, dags. 29. júlí þ. á., varðandi réttarfrí og afgreiðslu mála fyrir dóminum. Út af greindu erindi þykir ástæða til að taka fram eftirfarandi:

Af fimm málum, sem málflutningur hafði ekki farið fram í um mánaðamótin júní-júlí, hafði þremur, samkvæmt samkomulagi málsaðila, verið frestað til 4. sept. Að því er hin tvö snertir, sem sérstaklega eru gerð að umtalsetni í erindi Alþýðusambandsins, þykir ástæða til að upplýsa eftirfarandi atriði:

a) Málið: Alþýðusamband Íslands f. h. Nótar, félags netavinnufólks, gegn Vinnuveitendafélagi Íslands f. h. Björns Benediktssonar. Það er rangt, sem stendur í erindi Alþýðusambandsins, að málið hafi verið þingfest 16. maí s. l. Þingfesting þess fór fram 16. júní s. l. En að gefnu tilefni þykir rétt að geta þess, að 10. maí s. l. kom málflm. Alþýðusambandsins, Sigurgeir héraðsdómsmálflutningsmaður Sigurjónsson, með stefnu í máli þessu til forseta dómsins til útgáfu, og var þar aðeins stefnt Birni Benediktssyni. Að gefnu tilefni frá forseta dómsins kom í ljós, að málflm. hafði ekki leitað upplýsinga um það, hvort nefndur Björn væri meðlimur í Vinnuveitendafélagi Íslands, en í samtali, er hann þá samstundis átti við skrifstofu Vinnuveitendafélagsins, fékk hann upplýsingur um, að svo væri. Hvarf hann þá frá því að fá málið höfðað í það sinn, með því að einnig bar að stefna Vinnuveitendafélaginu í máli þessu, sbr. 45. gr. l. nr. 80/1938. Leið síðan fullur mánuður, eða til 14. júní, að málflutningsmaðurinn kom á ný til dómsins með ósk um, að stefna yrði getin út í máli þessu. Í þinghaldi 27. júní óskaði umboðsmaður stefnda ettir fresti til 4. sept. þ. á., með því að hann þyrfti að láta fara fram vitnaleiðslur í málinu á Ísafirði, Akureyri og Siglufirði. Umboðsmaður stefnanda samþykkti, að frestur yrði veittur í einn mánuð, en mót mælti lengri fresti. Gekk málið til úrskurðar dómsins með þeim úrslitum, að stefnda var veittur umbeðinn frestur. Og þykir rétt að geta þess, að samkvæmt því, sem upplýst var í réttarhaldi 4. sept., höfðu endurrit að sumum þessara vitnaleiðslna ekki enn borizt hingað vegna fjarveru vitna frá heimilum sínum og réttarfrís héraðsdómara úti á landi.

b) Málið: Sigmundur Björnsson gegn verkamannafélaginu „Hlíf“.

Mál þetta var þingfest 2. júlí s. l., — ekki 31. maí eins og stendur í erindi Alþýðusambandsins. Í þinghaldi 7. júní fékk umboðsmaður stefnanda frest til 12. júní og þann dag aftur framhaldsfrest til 19. júní, en í því þinghaldi var ákveðið, að málflutningur Sigmundar Björnssonar skyldi fara fram 27. júní s. l. En er málið skyldi flytja, var málflm. stefnanda, hrm. Pétur Magnússon, veikur. Varð það þá að samkomulagi milli umboðsmanna málsaðila, að málinu skyldi frestað fyrst um sinn. Lýsti umboðsmaður stefnanda yfir því, að fullur vinnufriður væri í Hafnarfirði þrátt fyrir ágreining þann, sem mál þetta er risið út af, og lofaði hann að tilkynna dóminum, ef breyting yrði á því ástandi, en kvartanir um slíkt hafa ekki enn borizt dóminum. Var svo frá gengið í réttarhaldi þessu, að dómurinn ákvæði, hvenær málið skyldi flutt, og því lýst yfir af dómsins hálfu, að ef búast mætti við, að til átaka kæmi milli málsaðila, yrði ekki hægt að taka tillit til veikindaforfalla málflm. stefnanda, og myndi málflutningur þá verða ákveðinn þegar í stað. Samkvæmt læknisvottorði, er dóminum hefir borizt, er málflm. ekki enn heill heilsu. Hann býst hinsvegar við því að mega taka til starfa 20. þ. m., og hefir flutningur málsins verið ákveðinn þann dag.

Í tilefni af ummælum í erindi Alþýðusambandsins um meðferð dómsins á málinu: Alþýðusamband Íslands f. h. verkalýðsfél. Baldur gegn Hálfdáni Hálfdánarsyni, þykir ástæða til að geta þess, að mál þetta var þingfest 27. júní s. l. Málflutningur í því fór fram 29. s. m. og dómur var kveðinn upp 3. júlí s. l.

Loks skal þess getið vegna ummæla í oftnefndu erindi Alþýðusambandsins um réttarfrí dómsins, að hvert það mál, sem dóminum hefði borizt yfir sumarmánuðina, hefði verið tekið strax til meðferðar, svo sem á öðrum tímum, og það að sjálfsögðu jafnt fyrir því, þótt einhverjir af aðaldómurum dómsins væru fjarstaddir vegna sumarleyfa, enda hafði forseti dómsins áður en hann fór í sumarleyfi sitt gert ráðstafanir til þess, að dómurinn gæti óhindrað starfað í fjarveru hans. En til þess hefir ekki komið, þar sem ekki hefir verið beiðzt útgáfu á neinni stefnu frá því í júnímánuði og til þessa dags.

Með tilvísun til framanritaðs vísum vér algerlega á bug öllum aðdróttunum í vorn garð um vitaverða meðferð mála í félagsdómi.

Erindi Alþýðusambandsins endursendist hér með.

Hákon Guðmundsson,

Gunnl. E. Briem, Sverrir Þorbjörnsson, Sigurjón Á. Ólafsson, Kjartan Thors. Til atvinnumálaráðuneytisins.“

Ég held í sjálfu sér, að þessi skýrsla færi alveg fullnægjandi og óyggjandi rök fyrir því, að sérhver ádeila á dómstólinn í þessu efni er órökstudd. Alþýðusambandið hefir kært yfir meðferð 5 mála. Ég tel ekki, að flm. þessarar till. hafi bætt neinu við rök þess. Af þessum 5 málum er upplýst, að fullkomið samkomulag ríkti um afgreiðslu þriggja, og eru þau því í þessu sambandi úr sögunni. A. m. k. er ekki ástæða fyrir dómstólinn að hlaupa fram fyrir skjöldu í slíkum málum, þegar fullt samkomulag ríkir milli aðila. Ég efast meira að segja um, að dómurinn hafi nokkra heimild til þess að rjúka þannig til og kveða upp úrskurð. — Þá eru eftir tvö mál. Og það eru þá þau, sem eiga að vera stoðir undir ádeilu á dóminn, fyrir það, að hann hafi ekki innt af höndum sín skylduverk. En eftir þeim rökum, sem hér eru færð fram, þá held ég, að ég verði að leyfa mér að staðhæfa, að það séu a. m. k. alveg sérstaklega veigalitlar ástæður, sem þessi mál gefa til árása á dóminn.

Um fyrra málið er upplýst, að í þinghaldi 27. júní óskaði annar aðilinn eftir fresti þangað til í septemberbyrjun, þ. e. a. s. í rúma tvo mánuði. Hinn aðilinn segist ekki vilja verða við þessu, en hinsvegar kveðst hann vilja ganga inn á að gefa mánaðarfrest. Þá stóð mánuður á milli aðila. Dómurinn sá, að athuguðu máli, að meðferð málsins krafðist vitnaleiðslu á Ísafirði, Siglufirði og Akureyri, og áleit því sjálfsagt að veita umbeðinn frest. Svo kemur það atriði, hvort þessi frestur hafi verið nauðsynlegur eða ekki. Þegar dómurinn tók málið til meðferðar á ný 4. sept. — en þangað til hafði frestur verið veittur —, kom í ljós, að nauðsynlegar vitnaleiðslur til að upplýsa málið höfðu enn ekki farið fram. Sumir mennirnir höfðu verið fjarstaddir frá sínu heimili og ekki náðst til þeirra, og auk þess höfðu héraðsdómarar verið í fríi. Mér sýnist þessar staðreyndir tala því máli, að þetta atriði geti alls ekki orðið undirstaða ákæru á félagsdóm.

Þá er loksins síðasta atriðið, sem hv. flm. hefir einnig sérstaklega gert að umtalsefni. Það er upplýst, að málflutningur í því máli átti að fara fram 27. júní, en þegar þar að kemur, þá er málflm. annars aðila veikur, og varð það þá að samkomulagi málsaðila, að málinu skuli frestað fyrst um sinn. — Ég vil fyrst leggja áherzlu á það, að veikindaforföll á náttúrlega — svo framarlega sem nokkur forföll má taka til greina — að taka til greina umfram nokkur önnur. Ég viðurkenni, eins og flm. hélt fram, að það ástand getur verið fyrir hendi, að mál þoli enga bið. En með tilliti til þess, að umboðsmaður stefnanda fellst á frestinn og lýsir yfir því, að fullkominn vinnufriður ríki í Hafnarfirði, þá virðist enginn áfellisdómur verða reistur á þessum fresti málsins. Auk þess tekur félagsdómur það skýrt fram, að ef breyting verði á í Hafnarfirði frá þeim vinnufriði sem ríkti, þá verði engin forföll hægt að taka til greina og muni málið þá tafarlaust verða afgreitt.

Ég verð að segja það, að ég get ekki áfellzt félagsdóm fyrir frest í máli, þegar þessar ástæður eru fyrir hendi: 1) Veikindaforföll málaflm., 2) fyrir liggur yfirlýsing frá umboðsmanni stefnanda um, að fullkominn vinnufriður ríki, 3) dómurinn lýsir yfir því, að málið verði strax tekið fyrir, ef ástandið geri það nauðsynlegt.

Ég veit ekki, hvers menn krefjast frekar af dómstólnum í þessu máli. Ég er ekki lögfræðingur og ekki kunnugur þessum málum sem skyldi, þótt ég sem ráðherra hafi yfir þeim að segja, en ég get af mínu leikmannsviti enga sök fundið hjá félagsdómi. — En með sérstöku tilliti til þeirra umr., sem orðið hafa um sumarfrí réttarins, þá gerði dómstóllinn allar ráðstafanir til þess, að unnt væri að afgreiða hvaða mál sem að höndum bæri, þótt einhverjir af aðaldómendunum væru fjarverandi. Þetta sýnir, að rétturinn er fyllilega sammála hv. flm. till. um það, að félagsdómur eigi að vera starfhæfur á hvaða tíma sem er, — enda hefir hann verið það. Hvað stendur þá eftir? Vitanlega getur það ekki verið krafa nokkurs manns, að dómarar í félagsdómi eigi ekki eins og tíðkast um aðra embættis- og starfsmenn að fá sumarfrí, vegna þess að einhverstaðar frá kynni nú að koma kall frá þeim, sem eru að rífast um kaupgjaldsmál. Þessir menn eiga ekki fremur en aðrir að vera rígbundnir við sinn skrifborðsstól allt sumarið. einungis ef vissa er fyrir því, að dómurinn sé starfhæfur á hvaða tíma sem er, og það er hann vitanlega þótt varamenn mæti.

Allt þetta er fyrir hendi í þessu efni. Ég verð því að líta svo á, að að svo miklu leyti sem í þáltill. á að felast ádeila á félagsdóm, þá sé hún ekki á rökum reist. Og að svo miklu leyti sem þáltill. á að verða félagsdómi hvatning um það, að láta aldrei sumarfrí eða þesskonar valda frestun á að kveða upp úrskurði, þá sé ég ekki, að slíkrar hvatningar sé þörf, af þeirri ástæðu, að félagsdómur er sammála hv. flm. þáltill. um það atriði.

Að öllu þessu athuguðu hverf ég aftur að því. sem ég sagði í byrjun þessa máls, að allir, sem bera félagsdóm fyrir brjósti og viðurkenna, að stofnun hans var stórt spor á framfarabraut á sviði kaupgjaldsmála og verkalýðs- og kaupgjaldslöggjafar, öllum þeim ber að hafa það hugfast, að þeir styðja og efla stoðirnar undir félagsdómi í framtíðinni með því að láta hann sæta velvilja og sanngjarnri gagnrýni. En til þessara sömu manna vil ég leyfa mér að beina einnig því, að sérhver órökstudd gagnrýni á gerðum félagsdóms færir með sér þær afleiðingar, að þeir, sem ekki eru nægilega kunnugir málum, sem þessi dómur hefir með höndum, og því, hvernig dómurinn rækir sitt starf, skoða slíkar ádeilur sem rökstuddar ádeilur, en það rýrir að nauðsynjalausu álit manna á dóminum og dregur þar með úr gildi dómsins. Ég mælist því til, að að fengnum þessum upplýsingum taki hv. flm. þessi rök til greina, sem honum voru ekki kunn, þegar hann flutti þáltill. Mér hafði borizt ýmislegt til eyrna, eins og mörgum öðrum, um að félagsdómur hefði vanrækt skyldu sína. Þess vegna fór ég fram á það við dóminn, að hann gæfi mér skýrslu um störf sín. Um sama leyti barst mér svo þessi ádeila frá Alþýðusambandi Íslands, sem ég notaði sem ástæðu til þess að biðja dóminn um gögn í þessu máli. En að fengnum þessum upplýsingum ákvað ég að skrifa Alþýðusambandi Íslands þess efnis, að ég hefði sent félagsdómi ákæru Alþýðusambands Íslands til umsagnar. Mér barst svo bréfleg umsögn félagsdóms. Ég sendi eftirrit af henni Alþýðusambandi Íslands og taldi svo ekki ástæðu til að hafast frekar að í málinu.

Ég vil segja hv. þm. frá því, því þeir vita það kannske ekki, að félagsdómur hefir nú allfyrirferðarmiklum störfum að gegna. Ég skal skýra frá því, að í ár hafa verið höfðuð fyrir félagsdómi 28 mál. Og svo að menn geti betur áttað sig á, hvað þetta þýðir, vil ég segja, að fyrsta árið, sem hæstiréttur starfaði hér á landi, komu fyrir hann 35 mál, eða aðeins 7 málum fleira en fyrir félagsdóm fyrsta árið, og annað árið 31 mál, eða 3 málum fleira. Dómarar í félagsdómi hafa 1200 kr. laun yfir árið, en dómarar í hæstarétti 12 þús. kr. á ári. Dómarar í félagsdómi hafa því vandasamt starf og mikið að vinna, en ákaflega lítil laun. En af þessu, og jafnframt af því, hve starf þeirra er nauðsynlegt fyrir þjóðfélagið, þá má ekki minna vera en að hv. þm. styðji þá eftir því sem auðið er og treysti og efli álit dómsins. Af þessum ástæðum, ef þessari þáltill. verður ekki vísað til n. — sem ég þó geri ráð fyrir, að hv. flm. hennar óski eftir —, en verði það ekki, þá verð ég henni andvígur, af því ég tel hana ástæðulausa.