12.12.1939
Efri deild: 82. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (3618)

145. mál, félagsdómur

*Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég álít ekki, að ég þurfi að skýra frekar mína afstöðu heldur en ég er búinn að í minni fyrri ræðu. Sérstaklega ekki eftir að hv. þm. Hafnf. hefir gefið þá skýringu, sem hann gaf. Það er ekki nema eðlilegt, að sumt, sem kom fram í ræðu hv. flm., sé þess eðlis, að ég vildi upplýsa það, en af því það kemur ekki málinu svo mikið við, mun ég sleppa því. Það er aðeins eitt atriði, sem ég vildi upplýsa, og það er út af þeim ummælum, sem hv. flm. stefndi að málafærslumanni Alþfl. í sambandi við framkomu hans í þessu máli.

Ég er ekki svo kunnugur réttarvenjum sem æskilegt væri um mann, sem á að koma fram í þessu máli. En það mun vera venjan, að sérhver málafærslumaður geri sitt ýtrasta til þess að taka til greina þær óskir, sem gagnsækjandi ber fram, svo framarlega sem hann skaði ekki sinn umbjóðanda. Pétur Magnússon varð veikur, og það er nú svo, að hver hefir sitt mál með höndum og aðrir eru því ókunnugir. Það er upplýst, að Pétur Magnússon var veikur, og það, sem Guðmundur Ingi gerði, var að ganga inn á að fresta málinu. Ég held ekki, að hv. flm. dæmi þetta réttilega, en ég þekki það svo vel, að ég veit, að þetta er nokkurn veginn ófrávíkjanleg venja, og hún mjög góð að mínu áliti.