21.04.1939
Sameinað þing: 7. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í D-deild Alþingistíðinda. (3629)

52. mál, rafvirkjunin í Vík í Mýrdal

*Flm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti ! Eins og þessi till. ber með sér, er með henni farið fram á, að niður verði felld innheimta eða gjöld af aðfluttu efni til rafvirkjunarinnar í Vík í Mýrdal. Eins og grg. skýrir frá, hefir þetta mál komið fyrir ríkisstj., en með því að Alþingi er nú saman komið, þótti rétt að bera þessa till. fram, og hefir hún legið frammi til þessa tíma í fórum Alþingis.

Eins og kunnugt er, eru rafvirkjanir, bæði fyrir einstaklinga og heildina, taldar einhver helzti bjargræðisvegur. Sú virkjun, sem hér er um að ræða, kemur að fullum notum fyrir alla íbúa þessa kauptúns, og er raforkan seld með svo vægum kjörum, að allur almenningur sér sér fært að nota hana að fullu, en kostnaðurinn víð þessa virkjun mun ekki fara fram úr 50 þús. kr., og hefir hann verið bundinn við greiðslu heima í héraði. Þar af leiðir, að það opinbera og bankarnir þurfa ekki að óttast neinn skell af þessu fyrirtæki, eins og því miður má segja um ýmislegt, sem ríkið hefir ábyrgzt eða bankarnir hafa lánað til, þó að tilgangurinn hafi þar oftast verið góður. Ég tel því, að hér sé um sérstakt mál að ræða og geti því ekki verið um neitt fordæmi að ræða frekar en það, sem áður hefir gerzt, því að aðflutningsgjöld hafa verið felld niður af innfluttu efni til annara fyrirtækja á öðrum stöðum á landinu. Ég skal geta þess, að þessi aðflutningsgjöld munu vera um 3000 kr., og munu þau koma næsta hart niður á þeim almenningi, sem hefir staðið undir þessari framkvæmd. Þó að ekki sé um nema fáar þúsundir að ræða, má vita, að það kemur illa við tómar pyngjur, þessara manna, en fyrir ríkið munar þetta ekki til líka eins miklu. Hér við bætist. að á þetta fólk koma enn meiri útgjöld, með því að í Landsbankanum hefir nú frá síðasta ári legið krafa, 12–13 þús. kr., sem var veitt gjaldeyrisleyfi fyrir í ágústmánuði síðastl., og peningar lágu til reiðu í Landsbankanum til að greiða þetta frá því um mitt sumar fyrra árs, en þessi upphæð er ein af þeim mörgu, sem nú brenna inni í bankanum, og hækka vegna krónulækkunarinnar um 3–4 þús. kr., og vitanlega lendir þetta á almenningi í Víkurkauptúni, vegna þess að yfirfærsla fékkst ekki á þessari upphæð, þó að loforð hefði verið gefið um það og peningarnir til, og mun þetta nema meiru en því, sem hér er farið fram á, að verði niður fellt.

Þetta mál kom fyrir síðasta þing, en eigi fyrr en seint. Flokkarnir gáfu því yfirlýsingu um málið, bæði Sjálfstfl. og Alþfl., en hæstv. fjmrh. var úr Framsfl. Þar gáfu þeir meðmæli sín með að gefa þennan toll eftir, og vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa upp ummæli flokkanna eða miðstjórna þeirra.

Miðstjórn Sjálfstfl. segir svo 27. júlí síðastl.: Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hefir samþykkt að vinna að því, að látin verði niður falla innheimta á aðflutningsgjöldum af innfluttu efni til rafvirkjunar í Vík í Mýrdal.

Miðstjórn Alþfl. segir svo 20. júlí síðastl.: Stjórn Alþýðusambands Íslands hefir á fundi sínum í gær samþykkt meðmæli með því, að fallið sé frá innheimtu á aðflutningsgjöldum af innfluttu efni til hinnar nýju rafvirkjunar í Vík í Mýrdal.

Hæstv. ráðh. var ekki tilbúinn, áður en þing kom saman, að afgreiða málið, og þótti mér því sjálfsagt, að Alþingi fengi málið til meðferðar. Hvað Framsfl. viðvíkur, þá hefi ég átt tal um málið við formann Framsfl., hv. þm. S.-Þ., og hefir hann tekið málinu liðlega.

Ég sé ekki ástæðu til, að málinu sé vísað til fjvn., en það er eina n., sem um það ætti að fjalla, en hefi þó ekki á móti því, ef einhver þættist ekki nægilega kunnugur málavöxtum, en fer þá fram á, að málinu sé skilað svo tímanlega, að það geti fengið afgreiðslu á þessum hluta þingsins. Það er nauðsynlegt vegna innheimtu þessa gjalds.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Málið liggur einfaldlega fyrir og mun öllum skiljanlegt. Annars mun ég, ef hv. fjvn. fær málið til meðferðar, gefa allar frekari skýringar, sem unnt er að láta í té.