04.01.1940
Sameinað þing: 26. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í D-deild Alþingistíðinda. (3643)

136. mál, fasteignaveðslán veðdeildar Landsbanka Íslands

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Ég vil fyrst leyfa mér að beina athygli hv. þm. að því, að ég tel það mjög óheppilegt, að þær till. til þál., sem lagðar eru fram í Sþ. sæmilega snemma, skuli yfirleitt ekki teknar fyrir fyrr en í lok þings, svo að enginn tími er til að vísa þeim til allshn. Sþ. og láta þær fá þá meðferð, sem þær eiga að fá, eins og önnur mál, samkv. eðli sínu og réttum þingsköpum. Því vildi ég ákveðið mælast til þess, um leið og ég viti meðferð hæstv. forseta á þessari till., að þeir, sem verða forsetar, þegar við komum saman næst, drægju það ekki von úr viti að taka slíkar till. fyrir. heldur sæju til þess, að þær geti fengið meðferð í nefnd eins og skylt er. Nú er kominn síðasti starfsdagur þingsins, og þó að raddir séu um það, að till. þessa megi afgreiða án nefndar, tel ég það rangt, enda þótt ég búist við, að hún geti ekki komið aftur úr nefnd á þessu þingi. Ég vil nú, þótt till. þessi nái ekki afgreiðslu, beina nokkrum orðum til þess ráðh., sem málið snertir, og vonast til þess, að hann athugi, hvað hægt er að gera í málinu til næsta þings.

Það orkar ekki tvímælis, að nú er uppi sú stefna hér á Alþingi að reyna að dreifa fólkinu út á landsbyggðina, í von um meiri atvinnumöguleika þar en hér, sem atvinnuleysið sverfur nú mest að. En um leið og hv. Alþingi vill láta fólkið flytja úr þéttbýlinu, er lánum veðdeildar Landsbankans svo háttað, að mjög reynist mönnum úr dreifbýlinu erfitt að fá lán þar til að byggja yfir sig hús. Sumpart liggur þetta ef til vill í reglugerðinni, sem veðdeildin starfar ettir, en sumpart í óheppilegri framkvæmd á stjórn veðdeildarinnar. Veðdeild Landsbankans er starf-rækt eftir l. nr. 122 27. des. 1935 og nánari ákvæðum í reglugerð nr. 42 15. jan. 1936, og er þar ákveðið, að lána skuli gegn veði í fasteignum — eða svo sem segir í reglugerðinni: „gegn veði í jarðeignum, erfðafestulöndum og húseignum með lóð í kaupstöðum og verzlunarstöðum.“ Nú er þetta túlkað svo í veðdeildinni, að það, sem átt sé við með orðunum „í kaupstöðum og verzlunarstöðum“, sé aðeins sá hluti af lóðum kaupstaðarins eða þorpsins, sem liggur á hinni löggiltu verzlunarlóð. Í mörgum þorpum er það ákaflega lítill blettur, sem þannig er löggiltur, en aðalbyggðin dreifð í kringum hann og veðdeildin lokuð fyrir öllum, sem þar byggja. Ég hefi oft komið í veðdeildina með lánbeiðnir fyrir hús og fengið þau svör, að ekki væri hægt að veita lánið, af því að húsið stæði utan kaupstaðarlóðar. Nú er kaupstaðarlóðin víða fullbyggð, svo að þeir kaupstaðir eru gersamlega útilokaðir frá því, að þangað fáist veðdeildarlán út á hús, sem byggð eru, og þá líka mjög takmarkað af þeirri ástæðu, hvað þeir geta stækkað, því til flestra nýbygginga þarf að taka byggingarlán.

Ef við ætlum að flytja menn út í dreifbýlið til að stunda þar bátaútveg og annað, sem þar má lifa af, þá geta þeir ekki byggt yfir sig nema með öðrum og óhagkvæmari lánsskilyrðum en Reykvíkingar t. d. geta gert. Hvers vegna má ekki rýmka þessar reglur veðdeildarinnar og lána út á hús utan verzlunarlóðar í kaupstöðum?

Þegar um það er að ræða að lána út á hús úti um land, í kaupstöðum og verzlunarstöðum eða sveit, er harðneitað að lána út á timburhús, sem ekki er járnklætt utan. Nú er nokkuð um það deilt, hver þörf sé á járnklæðningu í landshlutum, þar sem úrfelli er minnst. En því hefi ég orðið fyrir, að vera umboðsmaður um lánsútvegun fyrir hús, sem fékk slíka neitun, og þegar búið var að járnklæða, varð lánið svo lítið, að hrökk ekki nema fyrir parti af því, sem járnklæðningin kostaði. Ég vildi biðja hæstv. ráðh. að athuga, hvort ekki mundi mega lána út á hús austanlands og norðan, þótt ekki séu járnklædd, en kannske þættu þá ástæður til að hafa lánstímann styttri en ella, og er ekkert við því að segja.

Þá er það skoðun sumra manna, sem stjórna veðdeildinni, að sum þorp séu svo illa sett, að alls ekki sé hægt að lána út á nein hús þar. Ég get nefnt sem dæmi, að þegar fokskaðarnir urðu mestir á Austurlandi 1938, fauk hús ofan af manni í einu þorpinu þar. Hann er söðlasmiður og leggur á margt gerva hönd, þó fatlaður sé. Hann steypti sér nýtt hús, sem kostaði á 6. þús. kr., og gat lagt fram 3 þús. sjálfur. Hann sótti um veðdeildarlán. En þegar sú umsókn hafði legið í bankanum á annað ár, fékk hann það svar, að ekki væri hægt að lána út á hús á þessum stað. Ég þarf ekki að telja fleiri dæmi en þetta, en hefi mörg fleiri, en vitanlega er það ekki stjórn veðdeildar, sem á að ákveða það, að ekki sé nein framtíð í þessu eða hinu þorpinu, og með þeim dauðasleggjudómi útiloka lán til bygginga á staði þá, er þeir þannig úrskurða „dauða“. Ég hygg, að ekkert þorp hér á landi sé svo illa sett, að það geti ekki átt framtíð.

Veðdeildin lánar venjulega 2/5 af virðingarverði húsa í kaupstöðum, og fer þá ætíð eftir virðingargerð, sem framkvæmd er vegna lántökunnar, sem hún að vísu lætur endurskoða. Reynsla er fyrir því, að við þessar virðingar, sem húseigendur kosta sjálfir, freistast virðingarmenn, þótt eiðsvarnir séu, til að hafa þær dálítið háar. Og því verður það mat ekki lagað svo með yfirmati, að vel fari að öllu. Ég er viss um, að miklu heppilegra væri, að veðdeildin tæki upp þann sið að miða lán sín við fasteignamat. Nú er framkvæmt millimat á hverju ári, svo að það er litlum vandkvæðum bundið að fá alltaf rétt fasteignamat. Það væri miklu fyrirhafnarminna en framkvæma nýtt mat við hverja lánveitingu, og það mundi útiloka þann sið, að reynt sé að hafa virðingar háar til lántöku, en lágar til skatts. Ég held þess vegna, að eitt af því, sem þarf að athuga í þessu máli, sé, hvort ekki sé hægara eða réttara eða hvorttveggja að leggja til grundvallar fasteignamat en sérstakt mat veðdeildarinnar, þegar hún veitir lán. Breytingin yrði til bóta fyrir lántakendur og aukinnar tryggingar fyrir bankann.

Veðdeildin lánar yfirleitt, eins og ég veik að, 2/5 eða jafnvel meira út á hús í Reykjavík og kaupstöðum og upp undir það í sumum þorpum, en aðeins ¼, ef húsið stendur í sveit. Ég veit ekki, í hverju þessi munur liggur. Það kann að vera, að hús í sveit leigist síður út, eða alls ekki. En ef matið er rétt á húsum í sveitum, er í rauninni engin ástæða til þess að lána minna út á þau en hús í kaupstöðum. Þetta allt, sem ég hefi talið, vildi ég, að ráðh. athugaði og reyndi að hafa áhrif á, að ekki yrði eins þröngur aðgangur að veðdeildinni og er, svo að menn séu ekki af því útilokaðir frá að byggja yfir sig, nema þeir búi í kaupstöðunum. Núna munu t. d. liggja í Landsbankanum þrjár beiðnir úr þorpum landsins, þar sem ég er umboðsmaður lánþega. Einni á að synja af því, að húsið er ekki járnklætt, annari af því, að það er utan kaupstaðarlóðar, þriðju af því, að ekki sé lánað út á hús í því þorpi. En ef þessir menn flytjast til Reykjavíkur, fá þeir strax lán til að byggja sér hús. En mér skilst, að Alþingi óski nú ekki beint eftir því og mundi heldur vilja láta þá hvern einn vera á sinum stað og í sinni atvinnu þar. En þá þurfa þeir líka að hafa hús yfir höfuðið.

Ég legg til, að till. verði vísað til allshn., eins og rétt er, og umr. frestað, enda þó ég viti, að með því verður málið ekki útrætt nú.