30.03.1939
Efri deild: 29. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (3665)

41. mál, talstöðvar í fiskiskipum o. fl.

*Fyrirspyrjandi (Jóhann Jósefsson) :

Herra forseti! Ég vil að vísu þakka hæstv. atvmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefir hér getið. En það er sýnilegt, að meginkjarninn í þeim er ekki annar en sá, að hæstv. ríkisstj. lítur á þetta mál frá einni hlið einungis, sem sé þeirri, að kröfur eða óskir um lækkun leigu talstöðva hafi tekjurýrnun fyrir landssímann í för með sér. Þar hefir hæstv. ríkisstj. látið staðar numið í athugunum sínum, og af þeim ástæðum ekki viljað skerast í málið að öðru leyti. Ég vil að vísu ekki vefengja þær upplýsingar, sem hæstv. ráðh. hefir frá póst- og símamálastjóra, að þær séu í höfuðatriðum réttar. Að svo komnu máli vil ég ekki gera það. En ég vil benda á það nýstárlega fyrirbrigði, sem einkennilegt er, sé það 100% sannleikur, að smíði á talstöðvum hér á landi sé ódýrari en hjá útlendingum. Það virðist ekki koma heim við það, sem reynslan segir um ýmislegt annað, sem búið er til hér á landi og einnig utanlands.

Þá vil ég vekja athygli á því, að menn álíta það engan veginn fullrannsakað mál, hvort þær talstöðvar, sem landssíminn lætur í té, séu svo hagkvæmt útbúnar, að þar sé fullt tillit tekið til þess við kostnaðinn, að ekki sé sumt óþarft, er þeim fylgir. Ég býst við, að þær séu að mörgu leyti mjög vel útbúnar, en ég hefi fengið þær upplýsingar, að ekki muni allt bráðnauðsynlegt, sem þeim fylgir. Hefir einn maður, sem kunnugur er þessum málum, haft þau ummæli við mig, að mælitækin, sem stöðvunum fylgdu, væru „luxus“. Ég er þessu ekki svo vel kunnugur, að ég geti dæmt um réttmæti þess, en mælitæki það, sem hér um ræðir, gerir 150 kr. mismun á stöðvunum.

Virtist mér í ræðu hæstv. ráðh., sem hann byggði mjög á ummælum póst- og símamálastjóra, að þar kæmi það ljóst fram, að landssíminn væri kominn að þeirri niðurstöðu, að tækin, sem hann hefir krafizt 1200 kr. tryggingar fyrir, væru nægilega tryggð á 8 eða 9 hundruð kr. Ég var búinn að afla mér upplýsinga um, að þessi tryggingarupphæð væri mikils til of há, og það er þegar viðurkennt af hæstv. ráðh. og hans stofnun, landssímanum. Þá er því haldið fram af hálfu landssímans, og það mál flutti hæstv. ráðh., að af leigunni gengju 60–70 kr. árlega til viðhalds. Þetta atriði skal ekki vefengt; ég læt það liggja á milli hluta, þar til ég hefi aflað mér upplýsinga þar um. Það kann að vera rétt um einstaka tæki, en ég hygg, að eftir því, sem þekking sjómanna eykst á að fara með þessi tæki, muni viðhald, sem stafar af klaufalegri meðferð, fara minnkandi. Að öðru leyti vil ég taka það fram, að landssiminn kostar aldrei neinum 60–70 kr. í eftirlit á hverju einasta tæki, því sum tækin koma aldrei allt árið til skoðunar. Hvort eftirlit og viðhald tækja í einstaka bátum kann að kosta þetta, skal ég ekki fullyrða, — ég er því ekki svo kunnugur, að ég geti sagt um það. Þó svo væri, haggar það ekki þeirri staðreynd, að hagur íslenzkra bátaeigenda er ekki svo, að sá aukakostnaður, sem er að því fyrir þá að fá talstöðvar í báta sína, sé þeim vel bærilegur. Ég get upplýst, að stofnkostnaðurinn er um 800 kr., og þar til viðbótar árleg leiga af senditækinu og viðtækinu frá viðtækjaverzlun ríkisins, sem nemur 400–450 kr. á hvert viðtæki árlega. Þess vegna hlýtur hæstv. ráðh. og hv. d. að vera ljóst, að á þessum tímum getur þetta orðið nægileg hindrun fyrir ýmsa bátaeigendur til að leggja út í að koma þessum tækjum í báta sína.

Hæstv. ráðh. minntist á strandargjaldið og þær fyrirætlanir af hálfu landssímans um að gera endurbætur í símatalsambandinu við báta, sem væru í róðri, og hefi ég ekkert við það að athuga. Þær koma ekki beinlínis þessu máli við.

Það er náttúrlega ágætt, að landssíminn kom þessu talsambandi á. En allt þetta verður þó að vera þannig, að ekki sé það óbærilegur kostnaður fyrir þá, sem þetta eiga að nota.

Um afnotagjaldið til útvarpsins sagði hæstv. atvmrh., að hann teldi, að þó að bátaeigendur væru jafnframt útvarpsnotendur á landi og það mætti til sanns vegar færa, sem við flm. héldum fram, að þeir í raun og veru greiddu þar með tvöfalt afnotagjald með því að greiða einnig fyrir tækið í bátnum, þá mundi það valda misrétti, ef ætti að létta af alveg þessu gjaldi. Ég hygg, að a. m. k. meiri hluti bátaeigenda sé viðskiptamenn útvarpsins í landi og sjálfsagt að auki margir þeirra, sem eru á bátunum, aðrir en eigendur þeirra.

Svo vil ég ennfremur leyfa mér að geta þess hvað snertir útvarpið og þessar 30 kr., sem það krefst af hverjum bát, að það liggja nú fyrir till., líklega hjá hæstv. atvmrh., frá rekstrarráði útvarpsins um sparnað, sem nemi um 60 þús. kr. á rekstri útvarpsins, og að mér er hermt án þess að rekstur útvarpsins ætti að líða nokkurn raunverulegan halla eða tálmun við það, þó að þessar 60 þús. kr. væru sparaðar. Það væri að mínu viti ekki nema réttmæt ráðstöfun, að hæstv. ráðh. gengi inn á, að þessar 60 þús. kr. væru sparaðar í rekstri útvarpsins og um leið væri létt afnotagjaldinu af fiskibátunum. Um sjálft viðtækið, sem viðtækjaverzlunin selur til bátanna, sem kostar kannske um 500 kr., er það að segja, að það mætti sjálfsagt með góðum vilja lækka þann kostnað, ef stjórnin vildi til dæmis fallast á það, að viðtækjaverzlunin léti viðtækin til bátanna án sérstaklega mikils söluhagnaðar; og ég tala nú ekki um, ef létt væri að einhverju leyti tollum af tækjum til bátanna.

Í stuttu máli sagt er hér um það að ræða, hvort hæstv. Alþ. og ríkisstj. yfirleitt hafa vilja á því að létta undir með bátaútveginum í þessu efni og gera útgerðarmönnum bátanna yfir höfuð mögulegt að hafa talstöðvar í bátunum, en ekki það, hvort atvmrh. fær einhverjar upplýsingar hjá landssímanum, þar sem landssíminn segir: „Það kostar mig 60 þús. kr. að hjálpa bátaútveginum í þessu efni.“ Nei, það er ekki höfuðatriði málsins. En ég vil beina því til hæstv. atvmrh. og hv. d., að teknar séu til greina þær till., sem síðasta fiskiþing samþ. og gengu í þá átt, að Alþ. veiti fjárstyrk á einn eða annan hátt til kaupa á þessum tækjum til bátanna, annaðhvort með beinum fjárframlögum sem styrkveitingum til þessara hluta, eða þá, og jafnvel meðfram, með því að láta þessar stofnanir, útvarpið og landssímann, gefa ívilnanir í þessu sérstaka skyni, sem gerðu mönnum færari leið að því að hafa talstöðvar í bátum sínum.

Hæstv. atvmrh. sagði, að meðferð þessa máls hér á síðasta þingi hefði kannske ekki verið sú æskilegasta; það hefðu, að mér skildist, ekki verið heyrðir allir þeir aðilar, sem þar komu til greina, og mér skildist hann þar með sérstaklega eiga við landssímann. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að málið fór þá ekki í n., og það var að vísu ekki nema ein umr. um það, og það var ekki beint snúið sér til landssímans viðvíkjandi upplýsingum um þetta mál. En þess var heldur ekki þörf, vegna þess að í þingtíðindum fiskiþingsins lá fyrir allt, sem landssíminn hafði um þetta mál að segja. Hann var ekki þá kominn að þeirri niðurstöðu, að hann hefði heimtað allt of háar tryggingarupphæðir fyrir taltækin, en hefir á eftir ef til vill komizt að þeirri niðurstöðu, að hægt væri án stórtjóns fyrir landssímann að gera dálitla tilslökun á leigu fyrir taltækin o. þ. l.

Þau félög í landinu, sem starfa að björgunarmálum, geta ekki leitt þetta mál hjá sér. Það má ekki viðgangast áfram, að leigu og öðrum kostnaði við að hafa þessar talstöðvar í bátunum sé haldið svo hátt, að óhjákvæmilega verði stór hluti fiskiflotans að vera án þessara gæða. Og þá kemur að aðalkjarna málsins: Hvað vill Alþ. og ríkisstj. hafa í þessu efni? Hitt er algert aukaatriði, hvað einstakar ríkisstofnanir segja um sína sérstöku buddu gagnvart þessu máli. Ég verð að láta í ljós það álit mitt, að hæstv. atvmrh. hafi litið of smátt á þetta atriði,. hann hafi stungið í vasa sinn þeim upplýsingum, sem landssíminn lét hann fá í þessu sambandi, gagnrýnislaust og án þess að hafa vilja á að aðhafast meira í þessu máli. En Alþ. getur ekki gagnvart sjómannastéttinni tekið eins á þessu máli. Það er svo dýrmætur og þýðingarmikill liður í slysavörnum að hafa taltækin í bátunum, að á þessum tíma, þegar mikið er talað um það, bæði af hæstv. atvmrh. og öðrum góðum mönnum, að auka þurfi slysavarnir, verður að taka tillit til þess.

Beztu heilar landsins hafa nú mánuðum saman legið yfir því að finna út, hvað við getum gert til þess að létta undir með sjávarútveginum. Þá má ekki á sama tíma, bara vegna þess að ein ríkisstofnun segir nei, skella skolleyrunum við því, sem er eins réttmætt og sjálfsagt og það að létta undir með því, að öryggi þeirra manna sé sæmilega tryggt í þessu efni, sem standa fyrir og starfa að þeirri framleiðslu, sem aflar þeirra verðmæta, sem við þurfum að hafa, ef við eigum að lifa áfram í landinu.