30.03.1939
Efri deild: 29. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í D-deild Alþingistíðinda. (3666)

41. mál, talstöðvar í fiskiskipum o. fl.

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Hv. þm. Vestm. komst að þeirri niðurstöðu í sinni síðari ræðu, að ráðuneytið hefði aðeins litið á fjárhagshlið málsins, en ekki aðrar hliðar þess, og því ekki framkvæmt það, sem þessi hv. d. fór fram á í fyrra. Þar kom að vísu fleira til greina. En þá get ég vel viðurkennt það, að það var fyrst og fremst fjárhagshlið málsins, sem kom þar til greina. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það. sem ég áður hefi sagt, að ég taldi að athuguðu máli ekki fært fyrir ríkisstj. að gera þessar breyt. á gjaldi bátanna til landssímans fyrir þá þjónustu, sem hann hefir látið þeim í té í þessu efni, þegar það upplýstist, að það mundi hafa í för með sér 50–60 þús. kr. tekjurýrnun fyrir landssímann frá því, sem gert var ráð fyrir í fjárl., og málið hafði ekki einu sinni verið athugað í neinni n. hér í þinginu, hafði ekki verið sent fjvn., til þess að hún gæti svo mikið sem látið í ljós sitt álit um málið. Hv. þm. er það fullkunnugt, að þó ekki sé nema um smáupphæðir að ræða, sem miða til útgjaldaaukningar eða tekjuskerðingar fyrir ríkið, þá eru öll slík mál tekin til meðferðar í fjvn., ef Alþ. á annað borð ætlast til þess, að gjöldum sé við bætt eða tekjur skertar. Ég álít því, að þeir hv. þm., sem fluttu þessa þáltill. á síðasta þingi, hefðu átt að fá málið athugað a. m. k. í fjvn. áður en þessi hv. d. gekk frá þessari þáltill. En eins og ég gat um áðan, geri ég ekki ráð fyrir, að þeim hv. þm. hafi verið ljóst, hve mikla fjárhagslega þýðingu þetta mundi hafa.

Hv. þm. Vestm. gat þess, að fyrir mundu liggja frá rekstrarráði útvarpsins till. um sparnað við þá stofnun, sem næmi stórri fjárhæð, og hann áleit, að það mætti vel láta bátaeigendur njóta þess sparnaðar, sem þar mætti við koma, þannig að afnotagjaldi talstöðvanna í fiskiskipum yrði létt af þeim. Ég er hv. þm. Vestm. vitanlega sammála um, að útvegsmenn hér á landi séu alls góðs maklegir. En ég get búizt við, ef hægt væri að koma við sparnaði hjá útvarpinu og öðrum ríkisstofnunum, að fleiri vildu, og það með nokkrum rétti, nota þessa fjárhæð, sem þannig mætti spara.

Ég skil vel nauðsyn þess, að þessi tæki séu í sem flestum og helzt öllum fiskihátum, sem fiska eiga hér við land. En ég vil benda hv. þm. og hv. þd. á það, að fleiri menn hér á landi, sem fást við framleiðslustörf, hafa þörf svipaðra tækja, t. d. afskekktir sveitabæir að hafa útvarp. Og hjá þeim mörgum er rekstrarkostnaður útvarpstækjanna tilfinnanlega mikill, þar sem langt er að sækja til þess að fá hlaðna rafgeyma. Og ýmsir af þeim mönnum hafa ekki of miklu úr að spila frekar en útgerðarmenn bátanna. Það er ekki nema sjálfsagt að hlynna að útgerð og framleiðslustarfsemi yfir höfuð, eftir því sem fært er. En það ætti helzt að koma því þannig fyrir, að þeir, sem þennan atvinnuveg stunda, sjávarútveg, hafi ekki nein sérstök forréttindi, hvorki hjá útvarpinu, landssímanum né öðrum ríkisfyrirtækjum, fram yfir aðra landsmenn. Það teldi ég æskilegast.

Hv. þm. Vestm. telur, að ég hafi lítið of smátt á þetta mál. Ég get náttúrlega ekki gert að því, þó hann hafi þá skoðun. En ég get þó búizt við, að einhverjir aðrir muni ef til vill ekki telja þetta neina smámuni fjárhagslega og mundu mér því sammála um, að viðeigandi og eðlilegast hefði verið, að fjvn. Alþ. hefði fengið tækifæri til þess að fjalla um málið áður en frá því var gengið á Alþ., þar sem það hlaut að raska svo mjög fjárl., eins og ég nú hefi bent á. Ég vil því benda hv. þm. Vestm. og öðrum, sem áhuga kunna að hafa á því að fá á þessu einhverjar breyt. eða að málið verði athugað eitthvað frekar, á það, að ég teldi eðlilegast, að þeir kæmu þessu máli á framfæri til athugunar í fjvn. þingsins. Því að ég tel hæpið fyrir ríkisstj. að framkvæma slíkar ályktanir, sem koma lítt athugaðar frá aðeins annari d. þingsins, þegar þær hafa mikil áhrif á hag ríkisins og stofnana þess, annaðhvort til útgjaldaaukningar eða tekjuskerðingar.