25.04.1939
Efri deild: 50. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

76. mál, verzlun med tilbúinn áburð og kjarnfóður

*Erlendur Þorsteinsson:

Mér finnst harla einkennileg rök hjá hv. 1. þm. N.-M, ef hann viðurkennir, að kannske illmögulegt eða ómögulegt sé að framkvæma þessi l., og það eiga að vera rökin fyrir því, að það eigi að afgr. málið nú fyrir þingfrestun. Mér finnst sú meðferð málsins sérstaklega öfug, ef það liggur fyrir, að framkvæmd þessara l. virðist erfið og að það þurfi samvinnu víð verksmiðjurnar um þetta mál. Þá finnst mér sjálfsagt að fresta afgreiðslu þessa frv., þar sem sú frestun mundi ekki hafa í för með sér neina takmörkun á framkvæmd um slíkt eftirlit, sem l. samkvæmt ber að framkvæma. Mér dettur ekki í hug, að síldarverksmiðjur ríkisins geri í þessu efni upp á milli manna. En mér virðist eðlilegast að vísa þessu máli til athugunar og umsagnar efnafræðings þeirra, af því að síldarverksmiðjur ríkisins eru skyldar til þess að afgr. til bænda svo og svo mikið af síldarmjöli á hverju ári.

Ég get bætt því við, að frá lítilli verksmiðju, sem ég að nokku leyti veitti forstöðu á síðastl. ári, hefir verið selt nokkrum bændum síldarmjöl, og þeir létu prýðilega yfir því.

Af því að mér virðast nokkur tormerki muni vera á að framkvæma þessa efnarannsókn, og þegar það er viðurkennt, tel ég, að sú viðurkenning sé rök fyrir því, að málið eigi ekki að ganga fram á þessum hluta þingsins.