25.04.1939
Neðri deild: 52. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

76. mál, verzlun med tilbúinn áburð og kjarnfóður

*Finnur Jónsson:

Ég held, að það væri dálítið óheppilegt, að þetta mál færi frá þinginu eins og það er nú. Það mun tæplega vera hægt að koma því við að láta tryggingarskírteini fylgja hverjum poka, sem seldur er af síldarmjöli, án þess að það hafi allmikinn kostnað í för með sér. Hinsvegar er sjálfsagt rétt, að um þessi efni séu einhver ákvæði í l., og ættu þar jafnvel að vera settar fram hinar mestu kröfur, sem gerðar eru til gæða mjölsins.

Ég sakna þess, að fellt hefir verið niður úr frv. að gera gæðakröfur til fiskimjöls. Álít ég, að um þetta ættu einnig að vera ákvæði. Raunar er ekki hægt að gera sömu kröfur til fiskimjöls og síldarmjöls, vegna mismunandi efnasamsetningar.

Ég tel því, að heppilegast væri að fresta þessu máli um sinn og láta það fara til athugunar í n., sem bæri sig saman bæði við síldar- og fiskimjölsverksmiðjurnar, og vil ég gera það að till. minni, að málinu verði frestað og því vísað til sjútvn.