17.04.1939
Neðri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

40. mál, búfjárrækt

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Frv. þetta um breyt. á l. um búfjárrækt er komið frá Ed. hingað, og hefir landbn. haft frv. til meðferðar. Leggur n. öll til, að frv. verði samþ. Fjórir nm. vilja samþ. það óbreytt, en einn nm., hv. þm. A.-Húnv., hefir sérstöðu í n. og flytur brtt. um. að 1. gr. frv. falli niður.

Ég tel rétt að fara örfáum orðum um þetta mái. einkum af því að ekki náðist samkomulag um það innan n.

Þetta frv. var sent Alþingi frá búnaðarþingi með ósk um, að þessi breyt. yrði gerð á búfjárræktarl. Í 1. gr. er gert ráð fyrir breyt. á styrk til nautgriparæktarfélaga. Styrkur til þeirra hefir verið kr. 1.50 á ári á hverja fullmjólkandi kú, sem skrásett er í félaginu, bundið því skilyrði, að fóður- og mjólkurskýrslur séu haldnar, en ekki hefir þurft að fara fram rannsókn á feitimagni mjólkur, en 2 kr. til þeirra, sem hafa haft feitirannsóknir a. m. k. 3 sinnum á ári. Nú er það vitað, að feitin er langverðmætasti hluti mjólkurinnar, sá hlutinn, sem skapar verðmæti hennar fyrst og fremst. Því er það, að örlítil hækkun á feitinni getur aukið afurðir kýrinnar mjög mikið. Það, sem hér er lagt til, er að gera meiri mun á styrk en verið hefir, eftir því sem feitirannsóknin er framkvæmd. Er lagt til, að þar, sem engin feitirannsókn fer fram, verði styrkurinn 1 kr. á kú, þar, sem rannsókn fer fram a. m. k. 3 sinnum, sé hann 1.80, en þar, sem feitirannsókn fer fram a. m. k. 6 sinnum á ári, verði styrkurinn kr. 2,50 á kú. Með þessu er reynt að fá félögin til þess að taka upp meiri rannsókn á feitímagni en verið hefir. Er það tvímælalaust, að stefna ber að þessu, og það er vitað, að hægt er að hækka feitimagnið með kynbótum og ýmsum ráðstöfunum, en vitneskjuna um þetta fá menn aðeins með því að rannsaka feitina. Erlendis er talið með öllu ófullnægjandi að rannsaka aðeins þrisvar sinnum. Sex sinnum mundi vera talið lágmark þess, sem gæfi nokkurn veginn fulla tryggingu.

Ég skal geta þess jafnhliða, að þetta mun ekki hafa veruleg áhrif á heildarupphæð styrksins. Hann mun heldur hækka, ef félögin öll taka upp rannsókn, en því þarf varla að gera ráð fyrir. Þess vegna lít ég svo á, og það gerði meiri hl. n., að með þessu sé stefnt að réttu, að fá félögin til að sinna því atriði, sem mesta þýðingu hefir, en það er að auka feitímagnið í mjólkinni.

Þá eru 2 aðrar smábreyt., sem þetta frv. felur í sér. Í 2. gr. er gerð örlítil breyt. viðvíkjandi sauðfjárræktarkynbótabúum, hvað mikinn hluta af hverju búi einstaklingur megi eiga. Um það var enginn ágreiningur.

Síðasta brtt. er um styrk til sauðfjárræktarbúa. — Ég skal geta þess, að í þingskjalinu er prentvilla; þar stendur „sauðfjárrekstrarbú“, en á að vera: sauðfjárræktarbú. En mér er tjáð, að þetta sé þegar leiðrétt í skjalapartinum. — Það mun hafa verið heimilt að styrkja 8 bú með allt að 800 kr. hvert. Hér er lagt til að lækka þennan styrk niður í 600 kr., svo að þar sparast 1600 kr. Síðan er farið fram á, að ríkið leggi fram 2000 kr. til þess að verðlauna þessi bú á einhvern hátt, eftir nánari reglum, sem um það yrðu settar. Hér er ekki um verulega útgjaldaaukningu að ræða, því að lagt er til að spara 1600 kr., en verja í þessu augnamiði 2000 kr. Munurinn er því aðeins 400 kr.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en vænti, að hv. d. fallist á að samþ. frv., sem hefir hlotið samþykki Ed. og hefir einróma meðmæli búnaðarþings.