17.04.1939
Neðri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

40. mál, búfjárrækt

*Jón Pálmason:

Eins og hv. frsm. tók fram, þá er enginn ágreiningur um síðari gr. þessa frv. Þær eru tvímælalaust til bóta. En ég get ekki fallizt á 1. gr. frv., því að hún stefnir í þá átt, eins og margt annað á síðari árum, að gera þeim, sem eru í dreifbýlinu, erfiðara fyrir, þar sem erfiðleikarnir eru mestir á að fullnægja þeim kröfum, sem í þessu efni eru gerðar. Hinsvegar fer þessi gr. fram á aukin styrk, úr kr. 1.80 upp í 2.50, og er auðséð, að það er fyrst og fremst fyrir þau félög, þar sem kúafjöldinn er mestur. Þetta orsakar stórum aukinn kostnað til þessarar starfsemi, án þess að séð verði, að nokkur þörf sé á að hækka þennan styrk. Því að þar, sem þannig er ástatt, álít ég, að þessi félagsskapur eigi ekki rétt á sér, ef hann er ekki fær um að starfa með 1.80 kr. styrk á hverja kú. Hinsvegar er það að mínu áliti rangt að færa niður styrk til félaga úti um land, þó að þau geti ekki fullnægt ýtrustu kröfum, því að það mundi verða til þess, að mörg félög yrðu lögð niður.

Það, sem gerir það að verkum, að ég er andvígur þessari breyt., er í fyrsta lagi það, að ég tel hana óþarfa, og ennfremur skaðlega, þar sem hún geti orðið til þess, að þessi félagsskapur geti ekki starfað þar, sem örðugleikarnir eru mestir á að fullnægja þeim kröfum, sem þarna eru settar. Ég sé því ekki ástæðu til að gera breyt. á l. frá því, sem nú er, og óska eindregið eftir, að d. samþ. brtt. mína á þskj. 161.