17.04.1939
Neðri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

40. mál, búfjárrækt

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Ég hygg, að það sé mikill misskilningur hjá hv. þm. A.- Húnv., að það þurfi að eyðileggja félögin í dreifbýlinu, þar sem færri nautgripir eru, þó að þessi breyt. verði. Það er ekki annað en skeytingarleysi hjá félögunum að framkvæma ekki fitumælingu a. m. k. 2 sinnum á ári, svo að þau komist í miðflokkinn, því að það er svo tiltölulega auðvelt að framkvæma þær. Ég tel vafamál, að í lægsta flokkinum eigi að vera nokkur styrkur, því að það er aðeins af áhugaleysi og skilningsleysi, ef fitan er ekki mæld, og það tel ég, að eigi ekki að verðlauna. Þess vegna hefði ég verið fúsastur til að fella niður lægsta flokkinn. Ég held sem sagt, að það sé alveg ástæðulaus ótti hjá hv. þm. A.-Húnv., að þetta geri þessum félögum sérstaklega erfitt fyrir. En það eru fáir í d., og ég vil ekki þreyta þá, sem hér eru, á löngum umræðum, enda geri ég ráð fyrir, að allir séu þegar búnir að taka afstöðu til þessa máls.