09.03.1939
Neðri deild: 16. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

7. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Sigurður Kristjánsson:

Eins og ég í upphafi tók fram, tel ég sjálfsagt að hafa fá orð um þetta mál og láta atkv. skera úr.

Út af þeim samanburði, sem hæstv. atvmrh. gerði á félagsmönnum í útgerðarsamvinnufélögum og öðrum útvegsmönnum, hlýt ég að taka þetta fram: Þeir einstakir útgerðarmenn, sem hafa fengið skuldaskil, hafa áður verið búnir að leggja fram allt það fé, sem þeir hafa átt, og margir þeirra þannig búnir að tapa aleigunni. Hér er öðruvísi ástatt um þá menn, sem hafa verið í samvinnuféllögum. Þeir hafa margir hverjir lagt sáralítið fram. Þeirra fé hefir ekki gengið til þurrðar við töp útvegsins. Þarna kemur fram mikill greinarmunur. Aðrir eigendurnir hafa engu fórnað og engu ætlað að fórna. En mergurinn málsins er annarstaðar. Hann liggur í því, hvort ábyrgðarmenn fyrir atvinnurekstrarfyrirtækjum eigi að vera jafnréttháir. Með þessu er slegið föstu, að þeir skuli ekki vera það. Engir ábyrgðarmenn hafa fengið hjálp til þess að standa undir því, sem á þá hefir fallið, nema þessir ábyrgðarmenn samvinnufélaganna.

Þegar maður er ábyrgur fyrir einstakan mann eða útgerðarfyrirtæki, ræður hann venjulega engu um rekstur viðkomandi fyrirtækis; hann aðeins tryggir með sínum eignum og greiðslumöguleikum skuldbindingar fyrirtækisins, en ræður engu um rekstur þess og hefir engan hagnað af því, hvort sem það gengur betur eða verr. Aftur á móti hafa menn í þessum samábyrgðum algerða stjórn á fyrirtækjunum og velja menn úr sínum hópi til að stjórna þeim, og margir þeirra hafa allmikla hagnaðarvon. Ég ætla, að það sé þekkt, að menn hafi gengizt fyrir stofnun slíkra fyrirtækja til þess að skapa sér arðvæna stöðu og gangi oft freklega eftir kaupi sínu, þó að félagið sé að fara í kaf. Eignir þessara manna eru öruggar, ef þeir eiga ekki að hlíta sömu reglum og aðrir ábyrgðarmenn. Þarna er á tvennan hátt mikill skilsmunur.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði gert allmikið úr því, að það væri verið að smeygja á síðustu stundu inn í fjárl. allverulegum útgjaldalið, en hann vissi ekki betur en bæði ég og aðrir gerðu þetta sama. Þetta stappar nærri því að vera útúrsnúningur. Ég tók það ákveðið fram, að hér væri verið að koma með málið inn á rangan vettvang, þegar setja ætti inn í fjárl. heimild, sem er alveg sjálfstæð lagasetning, eins og það, hvort veita eigi fé til skuldaskila fyrir ábyrgðarmenn fiskveiðasamvinnufélaga eða hvort það eigi að kaupa skip, sem kostar meira en 1½ millj. kr. Það hefir ekki þótt svo lítilfjörlegur hlutur til þessa, að nóg hafi verið að koma með heimild þar að lútandi í fjárl., án þess að nokkuð hafi verið um það talað, hvort skipið skuli kosta 10 þús. eða 10 millj. kr. Það má vel vera, að á annarri eins sukköld og nú er runnin upp hafi þetta ekki mikið að segja. En þetta er ekki aðeins óviðeigandi form fyrir fjáreyðslu, heldur er það einnig afarháskalegt. Það virðast engin takmörk vera fyrir því, hvað stj. getur stofnað til mikilla útgjalda, ef t. d. á að heimila henni að kaupa mótorskip og láta hana svo alveg einráða um, hvort skipið skuli vera nokkrir tugir eða nokkur þús. tonn að stærð. Þessir hlutir eiga ekki heima í fjárl., heldur ættu að vera um þetta sérstök l., og ber vel að athuga, að svona ósiður festist ekki.

Ég hygg, að hæstv. atvmrh. veitist erfitt að sannfæra okkur, sem vorum hér dagleg vitni í fyrra, um það, að honum hafi ekki verið ljóst á síðastl. þingi, að setja þyrfti l. um þetta. Okkur þm. er öllum vitanlegt, að það var lengi tilbúið frv. um þetta, en það kom aldrei fram. Og okkur er líka kunnugt um, að hæstv. ráðh. varð svarafátt, þegar hann á síðasta þingi var spurður að því, hvort hann hefði kynnt sér það, hvort þetta mál gæti gengið fram án lagasetningar. Hæstv. ráðh. skaut sér undan að svara, hvort hann hefði borið þetta undir lögfræðing. En ég veit, að hann er svo vitiborinn maður, að hann hefir að sjálfsögðu skilið þetta þá þegar.