19.04.1939
Neðri deild: 44. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

40. mál, búfjárrækt

*Jón Pálmason:

Við 2. umr. þessa máls flutti ég brtt. um það að fella niður 1. gr. frv., með tilliti til þess, að ég sé ekki, að í henni felist neinar umbætur frá því, sem nú er í gildandi l.

En brtt. náði ekki samþykki, og hefi ég því leyft mér að bera fram brtt. svo hljóðandi: „Við 1. gr. Í stað orðanna „sem hér segir“ í 3. efnismálsgr. og út að síðustu málsgr. kemur: 1.811 kr. á hverja kú, sem mjólkur- og fituskýrslur eru haldnar um, enda sé fitumagn mjólkurinnar úr hverri fullmjólka kú rannsakað minnst þrisvar á ári“.

Um þetta er það í fyrsta lagi að segja, að í frv. þessu er farið fram á talsvert mikla hækkun á útgjöldum til þeirra hluta, sem ekki koma niður á ríkissjóði, heldur fyrst og fremst á öðrum greinum búfjárræktarinnar, vegna þess að hámarksframlag úr ríkissjóði til búfjárræktarinnar er 62 þús. kr. samkv. l. Ég tel þess vegna ekki ráðlegt að hækka þetta framlag til nautgriparæktarfélaga, og tel það mjög óheppilegt að lækka að sama skapi framlagið til sauðfjárræktarinnar. Mér virðist þessari gr. frv. auk þess mjög áfátt að orðalagi, og hefði sannarlega ekki mátt minna vera en að þeir, sem flytja hana, hefðu samið hana á frambærilegu máli, ef á endilega að fá hana samþ.

Ég fjölyrði svo ekki um þetta frekar. Ég vil aðeins endurtaka það, að ég er alveg á móti því að taka þarna fé til nautgriparæktarfélaga frá öðrum greinum landbúnaðarins, sem ég tel ekki síður nauðsynlegar.