19.04.1939
Neðri deild: 44. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

40. mál, búfjárrækt

*Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Meiri hl. landbn. hefir ekki borið sig saman um brtt. frá hv. þm. A.-Húnv. Þeir nm., sem staðið hafa að 1. gr. frv., hafa að sjálfsögðu óbundnar hendur um það, hvernig þeir snúast við þessari brtt.

Ég vil aðeins segja það sem mína skoðun, að ég get ekki fylgt henni, vegna þess að eins og tekið var hér fram við 2. umr. málsins, þá eru það í rauninni örfá nautgriparæktarfélög, sem munu verða til þess að taka upp meiri fitumælingar á mjólk en nú er. Þess vegna er styrkur hækkaður til þeirra félaga, sem hafa minnst 6 fitumælingar á ári: En með þessari brtt. er hugmyndin að skera alla niður við sama kambinn, hvort sem þeir gera fleiri eða færri fitumælingar á ári.

Fyrirfarandi hafa öll félög verið styrkt og einnig þau, sem engar fitumælingar hafa gert, og tel ég hæpið að styrkja þau framvegis.

En þó tel ég ekki rétt að taka styrkinn af þeim fyrirvaralaust, en tel rétt að hafa hann fyrst um sinn 1 kr. á kú. Ég tel víst, að þau félög, sem hér koma til greina, muni taka upp fitumælingar.

Ég sé ekki, að með þessu frv. hækki skattur úr ríkissjóði, nema svo að segja öll félög taki upp 6 fitumælingar á ári, þannig að öll félög komist í hæsta flokkinn. En nú er till. í frv. um það, að sá flokkur, sem hefir 2,00 kr. styrk á kú, verði færður niður í 1.80 kr. Þarna getur ekki verið um neinn aukakostnað að ræða, nema ef nautgriparæktarfélögin taka upp almennar fitumælingar, og ef svo færi, teldi ég vel gerandi að offra því, sem hér er um að ræða, en það getur ekki numið nema fáum þús. kr.

Með þeim skýringum, sem ég hefi tekið fram, legg ég til, að frv. verði samþ. óbreytt.