23.03.1939
Efri deild: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

50. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að deila mikið út af þessu frv. nú á þessu stigi málsins. En ég get ekki verið sammála hv. 1. landsk. í ýmsu, sem hann sagði. Ég ímynda mér, að hann hafi óviljandi farið rangt með eitt atriði í grg. frv. Ég held. að þar standi ekki „kosnir eingöngu eftir pólitískum línum“, heldur „kosnir að mestu samkv. pólitískum línum“. Síðustu kosningar í útvarpsráð voru ekki heldur alveg samkv. pólitískum línum, því að þá kom fram listi, sem skipaður var utanflokkamönnum. En hitt, sem hv. 1. landsk. var að drótta að okkur flm. þessa frv., að það væri eingöngu ætlun okkar að útiloka hina frjálslyndu frá því að koma manni í útvarpsráð, er rangt, og ég vísa því algerlega á bug. Fyrir mér hefir alls ekki vakað neinn slíkur tilgangur með flutningi þessa frv., heldur aðeins hitt, að spara útgjöld til útvarpsins eftir því, sem ég teldi vera unnt og sjálfsagt. Ég vil segja það, að þó að kosning um þrjá menn í útvarpsráð færi fram meðal útvarpsnotenda, þá held ég saft að segja, að þessi hv. þm. sjái a. m. k. tvöfalt, þar sem flokkur hans fer, ef hann heldur, að þeir frjálslyndu (þ. e. a. s. Sósíalistafl.) gætu komið að manni í útvarpsráð. Slíkt nær engri átt. Ég tel afarvafasamt, að sá flokkur kæmi að nokkrum manni í ráðið, þótt útvarpsnotendur kysu 7 fulltrúa í það, ég held, að þeir gætu ekki gert sér nema mjög veika von um það.

En svo talaði hv. 1. landsk. um það, að full ástæða væri til að viðhafa sparnað á útgjöldum ríkisins á öðrum sviðum en þessu, t. d. fækka ráðh. úr þrem niður í einn. En hvílík fjarstæða að bera saman slíka hluti sem þessa. Ég get raunar vel skilið það, að þótt Alþ. kæmi aðeins saman „áttunda hvert ár“, þá væri þessum hv. þm. nokkuð sama, en ég gæti trúað, að einhverjum þætti þá skarð fyrir skildi t. d. þingmönnunum að missa kaup sitt. Ég get sagt það alveg hreinskilnislega, að það verður nýtt ljós að renna upp fyrir mér, ef ég á að geta skilið, að það myndi hafa nokkur minnstu áhrif á kosningu kommúnista í útvarpsráð, þó að það fyrirkomulag, sem nú er, yrði látið haldast.