04.04.1939
Neðri deild: 36. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

50. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Sigurður Kristjánsson:

Það var víst hv. 5. þm. Reykv., sem tók hér til máls í gær um frv. á þskj. 81. Ég hélt þá, að hæstv. forsrh. myndi svara máli hans, sökum þess að þetta frv. mun hafa verið flutt fyrir hans tilmæli af Ed.þm. úr fjhn. En þannig stendur á þessu frv., að ráð, sem kallað er rekstrarráð og útvarpið heyrir undir, hefir gert athuganir á þeim stofnunum, sem það hefir með að gera, og kom þá í ljós um þær, eins og sjálfsagt fleiri ríkisstofnanir, að þær færa sig smátt og smátt upp á skaftið og gefa sér sjálfar fjárveitingavald. Okkur sýndist það ekki vel viðeigandi beinlínis að hundsa fyrirmæli fjárl. í landinu, og tókum upp þá reglu, að senda þeim ráðh., sem þessar stofnanir heyra undir, skýrslu, sem við ætluðumst til, að útfærð yrði mánaðarlega, um það, hvað liði eyðslu þessara stofnana samkv. fjárveitingu.

Það kom brátt í ljós, að sumir eyðsluliðir fóru mjög fljótt fram úr fjárveitingu. Af þessari ástæðu mun það hafa verið, að hæstv. ráðh. fór fram á það við ráðið, að það gerði athugun á þessari stofnun um það, hvernig spara mætti fé við starfræksluna, þannig að útgjöldin yrðu minni. Þetta gerðum við, sem í ráðinu erum, og sendum síðan ráðh. álit okkar og rökstudda till. Þar var m. a. lagt til, að breyting yrði gerð á útvarpsráði, sem ég skal þegar viðurkenna, að var ein af minnstu breyt. hvað fjárhagslega þýðingu snertir. En till. okkar um breyt. á útvarpsrekstrinum áttu að geta leitt af sé. minkandi útgjöld um nálega 60 þús. króna á ári, sem má teljast mjög mikill sparnaður á stofnun, sem ekki hefir umsetningu meiri en um 400 þús. kr. Nú veit ég ekki, hvað verður um þær till. okkar. Ég veit, að hæstv. ráðh. lýsti því yfir, að hann myndi fallast á þær og leggja fyrir fjvn. framkvæmd þeirra út í æsar. Að sönnu hefir útvarpsstjóri lagt á móti þessum till., og hefir hann fært sin rök fram fyrir sinni skoðun. En ráðh., sem með þessi mál fer, féllst á okkar till. og tilkynnti það formanni ráðsins, að hann hefði lagt fyrir fjvn. að framkvæma þessar till.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði, að með þessari tilhögun væru útvarpshlustendur sviptir þeim réttindum, sem þeir áður hefðu haft til þess að kjósa 3 af 7 mönnum í útvarpsráð. Þetta er nú alveg rétt, en í því sambandi er rétt að athuga það, að í útvarpsráð á nú að kjósa samkv. þessu frv. af Sþ. Ráðið hefir áður verið kosið 4/7 hlutum af Alþ. og ríkisstj., og það verður náttúrlega engin breyting á kosningu þessara 4 manna. En hinir 3, sem kosnir voru almennri kosningu úti um land, voru kosnir síðast fullkomlega eftir pólitískum skoðunum kjósenda. Það voru pólitísku flokkarnir í þessu landi, sem stilltu upp á lista. Og mér skilst, að það sé litlu minna lýðræði í því, að þjóðkjörnir þm. kjósi í útvarpsráð allt, heldur en að 3 séu kosnir í það á Alþingi, einn skipaður af ríkisstj. og 3 kosnir af pólitískum flokkum úti um land. Ég hygg því, að í framkvæmdinni breyti þetta engu um, hverjir kosnir verða í útvarpsráð. Það verður engu síður kosið eftir lýðræðisreglum eftir en áður. — Ef þm. eru þarna að kjósa í útvarpsráð, vildi ég mælast til, að hæstv. forseti vildi benda þeim á, að það er ekki komið að því. — Hv. 5. þm. Reykv. sagði ennfremur, að sparnaður sá, sem hér væri stofnað til, væri litilfjörlegur og ekki til þess að taka hann nokkuð til greina. Ég skal játa, að ef með öðru fyrirkomulagi á þessum kosningum væri hægt að tryggja útvarpinu betri stjórn heldur en með þessu fyrirkomulagi, myndi ég taka það til greina. (Forseti: Ég vildi biðja menn að hafa hljótt, svo ræðumaður geti notið sín). En ég sé engar líkur til, að svo muni verða. Hinsvegar er kostnaðurinn ekki svo lítilfjörlegur, því útvarpsráð mun hafa kostað undanfarið 12 þús. kr., sjálfir útvarpsráðsmennirnir: formaður 3 þús. kr. í laun og nm. sex 1500 krónur hver. Þannig var það, þegar rekstrarráðið gerði sínar till. Okkar till. voru um það, að 5 menn séu í útvarpsráði og hafi formaður 2 þús. kr. laun og 1 þús. kr. laun hver hinna. Er þetta þá sparnaður, sem nemur um 6 þús. kr. á ári. En útvarpsráðskosningin sjálf hefir kostað allverulegt fé. Mig minnir, að við áætluðum — og við höfum víst áætlað mjög varlega — að hún myndi kosta útvarpið um 12 þús. kr., og ef það yrði fjórða hvert ár, yrði það minnst 3 þús. kr. á ári. Sparnaðurinn í heild er því ekki svo lítilfjörlegur. Og þótt ekki yrði tekið tillit til þess, að þetta yrðu flokkskosningar eins og síðast, þá yrði varið miklu fé til þess af þeim, sem standa að listunum, að auka þeim fylgi, auk þess, sem því fylgir mikill kostnaður fyrir menn úti um land, sem koma til kosninga. Ég hygg því, að sparnaðurinn við þetta bæði fyrir ríkið og landsmenn sé ekki svo lítilfjörlegur.

Ég skal ekki fara hér að ræða um þá tryggingu, sem er fyrir því, að mennirnir séu vel valdir. En ég geri ráð fyrir, að valið á mönnunum verði ákaflega svipað, hvort sem Alþingi kýs þá alla í einu lagi eða flokkar á þingi kjósi fyrst nokkurn hluta útvarpsráðs og síðan þeir sömu flokkar láti velja menn á lista til þess að láta almenning kjósa um þá. Enginn þarf að ætla, að almenningur í landinu verði um spurður, hvernig eigi að raða á þessa lista fyrir þannig pólitískar kosningar. Það myndi fara svo, að útvarpsnotendum yrði aðeins gefinn kostur á að velja um lista, en fengju engu um það ráðið, hverjir á þeim listum stæðu. Ég hygg, að það fyrirkomulag, sem frv. leggur til, tryggi útvarpinu engu að síður góða stjórn, en auk þess sparaði verulegt fé.