04.04.1939
Neðri deild: 36. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

50. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Héðinn Valdimarsson:

Viðvíkjandi því, sem forsrh. sagði áðan, vil ég taka fram, að ég mótmæli því algerlega, að ég eða nokkur úr mínum flokki hafi hvatt til lögbrota hér úti í gær. Hann hefir enga ástæðu til að segja, að ég hvetji meira til lögbrota en hann. Forsrh. lýsti því yfir í síma til mín, að hann ætlaði að senda lögreglu suður í Hafnarfjörð til þess að berja þar á verkalýðnum, þegar vinnudeilan stóð yfir. En eins og menn muna, lauk þeirri deilu með sigri verkamanna; þeirra málstaður var dæmdur réttur. Og álít ég því, að eftir yfirlýsingu forsrh. hafi hann ætlað að fyrirskipa lögbrot.

Öll aðferð hjá stjórnarflokkunum gagnvart mínum flokki er fyrir neðan allar hellur hvað snertir útvarpið. Það fyrsta er, að forseti Sþ. er að tilhlutun þessara flokka látinn úrskurða í þingbyrjun, að við séum ekki þingflokkur, til þess að við sem þingflokkur getum ekki krafizt jafnlangs tíma við útvarpsumr. um mál eins og aðrir flokkar. Afleiðingin hefir verið sú, að útvarpinu hefir verið lokað um þingtímann. Því að í máli, sem var til umr. í gærkveldi, var ekki svo mikið haft við að útvarpa umr., sem er hinn rétti vettvangur fyrir umr. um deilumál. En aftur er tekin aðferð, sem hv. 6. þm. Reykv. hefir lýst. En það orðbragð, sem forsrh. viðhafði við mig, mun ég taka fyrir á öðrum vettvangi, eins og ég tók vitni að.