10.03.1939
Neðri deild: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

7. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Pétur Ottesen:

Ég var á móti þessu máli, þegar það var borið fram á síðasta Alþ., og er á móti því enn. Þótt það komi nú fram í öðru formi en það var í þá, er samt stefnan hin sama. Og það, að ég greiði nú atkv. með þessu frv., er vegna þess, að mér er kunnugt um, að eitthvað er eftir af þeim félögum, sem gætu notið hlunninda af samþykkt þessara laga, og fá samskonar umbætur og hlunnindi og þau félög hafa fengið, sem búið er að taka til meðferðar, og ég vil ekki standa í vegi fyrir því, að þau fái líka þá réttingu mála sinna, sem hér er um að ræða, þótt ég sé mótfallinn þeirri stefnu í heild sinni. Það er eingöngu af þeirri ástæðu, að ég vil, að þetta gangi jafnt yfir, að ég segi nú já við þessa atkvgr., því að öðrum kosti myndi réttur ýmsra félaga verða fyrir borð borinn.