13.04.1939
Efri deild: 38. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

73. mál, útflutningur á kjöti

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er gamall kunningi, því að á hverju þingi hafa verið framlengd um eitt ár l. þau, sem hér um ræðir að framlengja. Það eru l., sem fyrirskipa, að ekki skuli selja kjöt frá Íslandi til Noregs og Englands, nema með leyfi atvmrh., og þau leyfi eru veitt í hlutfalli við það, hvað einstakur útflytjandi hefir selt til þessara landa árið 1930–1932.

Það kann að vera, að einhverjum virðist, að l. hafi minni þýðingu nú heldur en þau höfðu áður, þar sem aukizt hefir það magn af kjöti, sem nú má selja til Noregs, frá því, sem verið hefir 2 síðustu árin. Í sambandi við þetta vil ég upplýsa, að aðstaða til að geta fryst kjöt til útflutnings er á 16 stöðum kringum landið, þar sem nú er slátrað 220 þús. dilkum. Kjötmagnið á þessum stöðum er kringum 2800 tonn. Við þetta er það að athuga, að í þessu er talin Reykjavík og Borgarnes, en á báðum þeim stöðum er mikið af kjötinu ekki verkað til útflutnings. Ennfremur eru á nokkrum öðrum stöðum, Hvammstanga, Blönduósi, Sauðárkróki og víðar, kaupmenn, sem ekki hafa aðstöðu til að frysta kjöt, enda þótt frystihús séu á þessum stöðum. Þess vegna er ekki hægt að senda allt það kjöt út frosið, sem til fellur á þessum stöðum. Á öðrum 16 stöðum er ekki aðstaða til annars en frysta fyrir innanlandssölu. Á þeim stöðum munu falla til um 500 tonn. En á 34 sláturstöðum, þar sem slátrað er tæpum 100 þús. dilkum, er ekki aðstaða til að verka nema saltkjöt. Þar falla til, ef allt kjötið er stórhöggvið, 11–12 þús. tunnur. Það er 3 þús. tunnum meira en hægt er að selja á norskum markaði. Þess vegna er full. þörf á að framlengja þessi l.

Ég tók eftir, þegar búið var að ganga frá þessu frv., að það hefði kannske verið réttara, vegna þess að lítils háttar breyt. hefir orðið á norsku samningunum, að framlengja l. ekki óbreytt, en ég held, að það sé ekki ástæða til þess. Frá 1. júlí til 15. okt. mátti ekki flytja kjöt til Noregs eftir hinum fyrri samningum, en eftir hinum síðari frá 1. júlí til 20. okt. En hann skiptir ekki verulegu máli þessi dagsetningarmunur. Það hefði kannske verið viðkunnanlegra að taka öll l. upp og færa þetta til samræmis, en ég athugaði þetta ekki, og sá fulltrúi í stjórnarráðinu, sem bað okkur að flytja frv., hefir heldur ekki athugað það. En það skal verða athugað milli umr., hvort ástæða er til að breyta l. vegna þessa.