17.04.1939
Efri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

73. mál, útflutningur á kjöti

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Ég gat þess við 1. umr. þessa máls, að landbn. mundi á milli umr. athuga, hvort nauðsynlegt væri að gera brtt. við þetta frv., sem miðaði að því að breyta l. um útflutning á kjöti til samræmis við endurnýjun norska samningsins, sem framlengdur var í haust.

Ég hefi rætt við skrifstofustjórann í utanríkismálaráðuneytinu, Stefán Þorvarðsson, um þetta og hefir okkur komið saman um, að rétt væri að leggja til við hæstv. Alþ., að þessum l. frá 1933 verði breytt til samæmis við norsku samningana nú. En breyt. er sú, að áður var leyfið til útflutnings á saltkjöti bundið við 15. október, en nú samkvæmt norska samningnum er þetta tímatakmark, þegar byrja má útflutning á saltkjöti til Noregs, ákveðið 20. október. Í breyt. er því farið fram á, að í stað „15. október“ í 4. gr. l. komi: 20 október.

Þá er 2. liður brtt. um það, að l. öðlist gildi 1. júlí, og miðast það við, að þá byrjar nýtt sölutímabil á kjöti, og megum við þá selja 8000 tunnur í stað 6000 áður.