28.03.1939
Neðri deild: 28. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

42. mál, útsvör

*Garðar Þorsteinsson:

Ég flyt brtt. á þskj. 105 við frv. um breyt. á l. um útsvör, sem er á þskj. 68. Ég hefi borið þessa brtt. fram í því skyni, að ef hún verður samþ., fáist nokkurt jafnvægi á móti því, sem tekið er frá sumum kaupstöðum landsins með þeirri breyt., sem í þessu frv. felst, þar sem lagt er til, að tími sá, sem viðkomandi gjaldþegn verður að dvelja á tilteknum stað, verði hækkaður úr 4 vikum upp í 3 mánuði, til þess að bæjar- eða hreppsfélagið geti krafizt hluta af útsvari hans. Í 8. gr. útsvarsl. eru talin upp nokkur tilfelli, þar sem heimilt sé að leggja útsvar á gjaldþegn á tveim stöðum á landinu, og einn liður þessarar gr. útsvarsl. er tekinn upp í brtt. mína, sem sé ákvæðið um það, að ef maður hefir heimilisfasta atvinnustofnun, svo sem útibú, víðar en í einni sveit, eða ef telja má, að aðalatvinnugrein hans sé rekin utan heimilissveitar hans, má leggja á hann útsvar á þeim stað, enda má þá ekki leggja útsvar á hann að því leyti í heimilissveit hans.

Á Siglufirði eru allmargir menn, sem reka þar aðalatvinnugrein sína að mestu eða því nær öllu leyti, en eru búsettir á Akureyri eða annarstaðar utan Siglufjarðar. Þessir menn eru ekki taldir útsvarsskyldir á Siglufirði, en það er ekki nema réttmætt, að þeir greiði útsvar á þeim stað, þar sem þeir reka atvinnu sína. Ég hygg, að það séu líka margir menn, sem reka atvinnu sína hér í Reykjavík, en eiga lögheimili utan Reykjavíkurbæjar, og getur bærinn þess vegna ekki lagt útsvar á þá. En í viðbót við þetta set ég grein, er svo hljóðar: „Heimilt er að leggja útsvar á mann utan heimilissveitar hans, ef hann rekur útgerð og skip hans, eitt eða fleiri, leggja heila vertið afla sinn að mestu leyti á land utan heimilissveitar gjaldþegns“. Að sjálfsögðu er í öllum þeim tilfellum, þar sem heimilað er að leggja útsvar á mann utan heimilissveitar hans, gert ráð fyrir því, að ekki sé lagt útsvar á hann að því leyti í heimilissveit hans. Viðkomandi gjaldþegn greiðir alls ekki hærra útsvar, þótt hann sé útsvarsskyldur á tveim stöðum, heldur en þótt hann greiddi allt útsvar sitt á sama stað.

Útsvarið skiptist aðeins milli tveggja staða, heimilissveitarinnar, þar sem hann er á manntali, og annarrar sveitar, þar sem hann rekur atvinnugrein sína. Ég hygg, að þessi heimild muni ekki verða víðtækari en svo, að hinir einstöku kaupstaðir fái með þessari brtt. það fé, sem þeir annars kynnu að missa við það, að dvalartíminn, sem áskilinn er til þess, að menn verði útsvarsskyldir á tilteknum stað, er lengdur úr 4 vikum upp í 3 mánuði.