17.04.1939
Efri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

42. mál, útsvör

*Bernharð Stefánsson:

Hv. frsm. hefir nú haldið hér snjalla ræðu til þess að sýna, að við. ég og hann, séum sammála um þetta mál. Þarf ég því ekki að segja hér mikið. Við erum sammála um það, að full þörf sé á að taka útsvarslöggjöfina, eins og hún er, til rækilegrar endurskoðunar. En þó honum fyndist okkar skoðanir ákaflega skyldar í málinu, þá verð ég þó að hryggja hann með því, að ég get ekki léð þessu litla frv. fylgi mitt, vegna þess að ég álít, að frumvarpið gangi í þveröfuga átt við það, sem rétt er.

Ég hefi áður minnzt á það og skal ekki fara langt út í það, að sú sveit eða bær, sem atvinna er þannig sérstaklega stunduð í, hefir alltaf af því ýmiskonar kostnað. Og þó segja megi, að slíkur rekstur auki atvinnu á viðkomandi stað, og það komi honum þar af leiðandi til tekna, þá má aftur líka á það líta, að slíkur atvinnurekstur dregur fólk að bænum. Afleiðingin af því hlýtur aftur á móti að vera aukið fátækraframfæri. Auk þess er það vitanlegt, að slíkur atvinnurekstur utanbæjarmanna notar götur og önnur tæki, sem hlutaðeigandi bær hefir komið sér upp.

Ég get þess vegna ómögulega fallist á að fylgja þessu frv. og vil leggja áherzlu á, að höfð verði á því sú meðferð, að því verði vísað til stj. með það fyrir augum, að hún taki öll útsvarslögin til athugunar.

Hv. þm. hélt því fram, að þessu væri ekki beint gegn Siglufirði. Hann sagði, að það væru bátar norðan af Eyjafirði og af Austfjörðum, sem stunduðu veiðar hér við Faxaflóa. Hann sagði, að það kæmi því til með að snerta aðra staði meira en Siglufjörð. En þrátt fyrir þau frómu orð hv. flm. um það, að þessu frv. væri ekki beint gegn Siglufirði, þá hafa nú vaknað ýmsar efasemdir hjá mönnum um, að þetta frv. hafi verið smíðað með það fyrir augum, að svipta Siglufjörð þessum tekjum, sem hann hefir haft af þessum ákvæðum, þrátt fyrir þá skerðingu, sem á þeim var gerð með l. frá 1926.