17.04.1939
Efri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

42. mál, útsvör

*Frsm. (Ingvar Pálmason) :

Mér skilst, að það muni vera smámunir, sem hér er deilt um. Ég get ekki skilið andstöðu hv. þm. gegn þessu litla frv. Mér finnst ekkert réttlæti í því, að bátur austan af Austfjörðum t. d., sem stundar veiðar hér við Faxaflóa og fiskar ekki meira en það, að enginn ágóði er af veiðunum, sé skyldur til að greiða útsvar bæði austur á Norðfirði og í Keflavík. Í þessu er ekkert réttlæti.

Hvað viðvíkur fyrirspurn hv. 10. landsk. um það, hvort það sé meining allshn. að tryggja það, að þeim ummælum, sem hann vitnaði í í grg. frv., yrði framfylgt, þá vil ég taka það fram, að það, sem stendur í grg. frv., eru ekki orð allshn. Hv. þm. veit, að það er sérstök n., sem hefir samið frv. Allshn. ber því enga ábyrgð á grg. þeirri, sem fylgir frv. Enda sé ég ekki, að þetta komi þessu máli neitt við. Þessi ummæli, sem hv. þm. vitnaði i, sýna bara það, að það eru fleiri atriði í útsvarslögunum, sem þarf að breyta.

Annars sé ég ekki annað en að það sé ástæðulítið að þjarka meira um þetta mál. Það má vel vera, að einhverjum hv. dm. finnist það ekki þess vert á þessum tímum, ef hægt væri að létta ofurlítið af þeim útgerðarmönnum, sem enn baksa við að halda uppi atvinnurekstri frá héruðum, sem eru að komast í kaldakol. En ég álít þetta stórt atriði. Og ég held, að þrátt fyrir það, þótt aðkomusjómenn á Siglufirði kunni að ganga þar eitthvað um göturnar, þá held ég, að það sé ekki svo gífurlegur aukakostnaður fyrir Siglufjörð, að hann þurfi sérstaklega að fá útsvör upp í hann. Ég held satt að segja, að það hrjóti nú það mikið frá þeim skipum, sem leggja upp á Siglufirði, að það sé enginn vafi á því, að Siglufjörður fái sitt uppborið. Ég hefi í fórum mínum tölur yfir það, hvað tekið er af skipum í gjöld á Siglufirði, og ég held, að í hverri ferð sé tekið alveg nóg af hverju skipi til að halda við götunum á Siglufirði. Enda hlýtur það af einhverju að stafa, að það er miklum mun ódýrara að leggja upp síld t. d. á Raufarhöfn, Norðfirði og Seyðisfirði heldur en á Siglufirði. Mér finnst, að þetta væri atriði, sem væri fyllilega athugandi. Annars finnst mér þetta atriði ekki koma þessu máli við. Eins og ég hefi áður tekið fram, er þessu frv. á engan hátt stefnt gegn Siglufirði.

Ég læt svo úttalað um þetta mál. Mér þykir ótrúlegt, ef hv. Ed. er þannig hugsandi, að hún vilji ekki verða við þeirri réttmætu kröfu, sem felst í þessu frv., sem er sú, að sama tímatakmark verði látið gilda fyrir útgerðarskip og einstaklinga.