21.04.1939
Efri deild: 45. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

42. mál, útsvör

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég vildi gjarnan leggja orð í belg um þetta mál. Hv. frsm. n. lýsti því fyrir sitt leyti, að hann teldi æskilegt, að sú till., sem hér liggur fyrir skrifleg, fengi athugun í n. Ég verð að játa, að ég get ekki annað en tekið undir óskir hans í því efni, því mér er ekki fyllilega ljóst, hvernig hún verkar á þá gjaldendur, sem hún breytir útsvari á. Ég er þeirrar skoðunar, að þó n. kæmist að þeirri niðurstöðu að fallast á brtt., þá eigi málið samt að ganga fram á þinginu, og er ég þar ósammála hv. 1. þm. Eyf., sem ekki virðist hafa nema eitt sjónarmið í þessu máli, en það er að drepa málið nú.

Eitt er það í þessu máli, sem ekki hefir verið nægilega athugað, og það er, að hve miklu leyti þetta breytta viðhorf um skattskyldu nær til bátanna, ef þessu væri frestað nú og tekin upp breyt. á l. á væntanlegu haustþingi. Ég hefi ekki enn fengið upplýsingar um, hvort hér yrði verulegur munur á. Ég spurði sessunaut minn að því, hvernig þetta myndi verka á Siglufirði, hvort þeir myndu ekki verða eins skattskyldir þar 1938, þó þetta væri gert að 1. Hann bjóst við, að svo yrði, að þeir myndu jafnt falla undir skattskyldu, þó l. væri breytt í haust, eins og þó þeim væri breytt nú. En um þetta skal ég ekkert segja, en þetta myndi n. að sjálfsögðu athuga.

Ég gat þess við 2. umr. málsins, að ég áliti, að hrepparnir eða bæjarfélögin eigi að fá rétt til þess að skattleggja þá menn, sem stunda atvinnu í viðkomandi hreppi eða bæjarfélagi, hvort sem þeir heita síldarsaltendur, farandkaupmenn eða eitthvað annað. Ég hefi eins mikla tilhneigingu til þess að vera með því að skattleggja slíka menn með útsvörum eins og ég er mótfallinn því að leggja skatt á skip, sem verða að fara í kringum allt land eftir árstíðum og eru kannske á mörgum stöðum sama árið.

Ég hygg, að allshn. geti jafnvel á þessum degi tekið málið til athugunar með því að halda um það aukafund, þar sem ég tel nauðsynlegt að fresta umr. um till. Ég vil bæta því við, þar sem verið hefir nokkurt kapp í sókn og vörn í þessu máli, að þó að ég að sjálfsögðu viti, að það er á valdi hæstv. forseta, hvort hann tekur málið af' dagskrá, þá tel ég ekki vafa á því, eftir hans venjulegu réttsýni, að hann taki málið fyrir á morgun. Ég tel sjálfsagt, að málið verði ekki endanlega útkljáð í dag.

Það hefir verið getið um, að fyrir liggi annað frv. um breyt. á sömu l., en ég er þess ekki fullviss, að það mál geti náð afgreiðslu á þessu þingi, því það er miklu flóknara en það mál. sem hér liggur fyrir. Þó hv. 1. þm. N.-M. segi, að það mál eigi að fara í gegnum þingið, þá er það að sjálfsögðu á valdi hv. d., hvort það kemst í gegn eða ekki.

Að síðustu vil ég geta þess, að ég er því feginn, að endurskoðun á útsvarsl. fari fram, en ég er þess ekki fullviss, að henni geti orðið lokið áður en þing kemur saman í haust. Ég geri ráð fyrir, að það þurfi lengri tíma til þess að gera skynsamlegar breyt. á útsvarsl. Ég geri ráð fyrir, að það þurfi að kveðja þá menn til starfa, sem hafa víðtækasta þekkingu á þessum málum. Ég geri ráð fyrir, að það þurfi minnst eitt ár til þess að undirbúa þetta mál, og það er eitt af því, sem gerir þessa breyt. nauðsynlega.

Þetta vildi ég taka fram í sambandi við þetta mál, áður en umr. verður sennilega frestað.