22.04.1939
Efri deild: 46. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (550)

42. mál, útsvör

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það liggja nú fyrir tvær brtt. við þetta frv. Önnur brtt. er sú, sem var lögð fram hér í Ed. í gær skrifl. og ég óskaði eftir, að allshn. þessarar d. fengi ráðrúm til að athuga og bera saman við l. um þetta efni. Ég drap lítillega á það hér í gær, að þessi lagabálkur um útsvör er allumfangsmikill og nokkuð flókinn. Það er ekki algerlega hættulaust að samþ. hér brtt., sem geta haft töluvert víðtæk áhrif, án þess að bera þær saman við l. í heild sinni. Ég gat ekki vel áttað mig á þessari brtt. við umr. málsins hér í d. í gær. Hún er flutt af hv. þm. Eyf. og hv. 10. landsk. og er við 8. gr. þessara l. En þær brtt., sem liggja fyrir við þetta frv. nú, eru við 9. gr. laganna. Þessur tvær gr. l., 8. og 9. gr., fjalla um tvennskonar álagningu útsvara. 8. gr. l. fjallar um þau tilfelli, þegar heimilt er að leggja útsvar á gjaldþegna á tveim stöðum. 9. gr. l. fjallar aftur á móti um það, þegar atvinnusveit gjaldþegns hefir rétt til að krefjast hluta af útsvari hans. Nú verður að gera nokkurn samanburð milli þessara tveggja greina, þegar annarri hvorri þeirra á að breyta, og gæta þess, að þar sé ekki fært á milli greina, vegna þess að verksvið þeirra er nokkuð óskylt, nema því aðeins, að ekki raskist samræmið í hinni greininni. Brtt. við 8. gr. laganna, sem hér liggur fyrir á þskj. 196, er, eins og mig grunaði strax í gær, eins og smeygt sé toglegri í þau, svo að hætta verður á því, að togstreyta verði um þessi l. viðvíkjandi því, í hvaða tilfellum sé heimilt að leggja útsvar á mann í atvinnusveit hans. Brtt. hljóðar svo. „Ef hann hefir heimilisfasta atvinnustofnun, svo sem útibú, víðar en í einni sveit, eða ef telja má, að aðalatvinnugrein hans sé rekin utan heimilissveitar, enda má þá ekki leggja á hann að því leyti í heimilissveit hans“. Þannig lá brtt. fyrir allshn., en tilsvarandi gr. í útsvarsl. hljóðar svo: „Ef hann hefir heimilisfasta atvinnustofnun, svo sem útibú, víðar en í einni sveit, enda má þá ekki leggja á hann að því leyti í heimilissveit hans“. Með öðrum orðum er smeygt þarna inn í l. ákvæðinu: „ef telja má að aðalatvinnugrein gjaldþegns sé rekin utan heimilissveitar hans“, og er þá alls ekki miðað við tíma, heldur bara ef telja má, að hann hafi atvinnustofnun, svo sem útibú, víðar en á einum stað. Löggjafarnir munu hafa fundið það, þegar þessi l. voru samin, að þarna var atriði, sem var nokkuð óljóst. Samkv. þessum skilningi er heimilt að leggja á hvaða atvinnugrein sem vera skal, ef telja má, að það sé sérstakur atvinnurekstur. Þetta er stórhættulegt ákvæði, því að það getur farið svo, að undir þessa grein megi heimfæra ósanngjörn og óeðlileg tilfelli. Sem dæmi má taka Gunnar Ólafsson & Co. í Vestmannaeyjum, sem gera út báta til síldveiða á Siglufirði, og við skulum segja, að telja mætti þetta fastan atvinnurekstur á Siglufirði. En nú vita allir, að Gunnar Ólafsson & Co. reka mjög umfangsmikla verzlun og útgerð í Vestmannaeyjum, og útgerðin á Siglufirði er alls ekkí aðalatvinnurekstur þess fyrirtækis, og því alls ekki heimilt að leggja á hann útsvar samkv. þessu ákvæði. En svo getum við tekið annað dæmi um bát, sem maður á, sem á heima á Austfjörðum. Báturinn er gerður út á síldveiðar á Siglufirði og einungis gerður út þar, en ekki hreyfður hinn tíma ársins. Þá er enginn vafi á því, að þar er um aðalatvinnurekstur á Siglufirði að ræða. Þetta ákvæði brtt. er svo hált og teygjanlegt, að það má alls ekki setja það í útsvarsl., því að þeir, sem eiga að framfylgja útsvarsl., hafa tilhneigingu til að teygja slík ákvæði sér í hag. Þess vegna álít ég, að þessi brtt. sé stórhættuleg, og að af henni muni leiða umfangsmikla togstreitu um, hvaða atvinnugreinar séu reknar utan heimilissveitar og teygja megi undir þetta ákvæði. Í öðru lagi vil ég benda á það, að þessi brtt. nær alls ekki þeim tilgangi, sem tillögumenn hafa ætlað henni að ná, þ.e. að ná til allra söltunarstöðvanna, sem menn úr fjarlægum héruðum reka á Siglufirði. Í 9. gr. er fram tekið, að ef söltunarstöð er rekin á þennan hátt. þá hafi viðkomandi bæjarstjórn heimild til að krefjast hluta af útsvarinu. en samkv. l. er ekki heimilt að leggja á hana í 2 stöðum. Ef þetta hefði átt að koma að notum, þá hefði þurft að mínu viti að fella niður úr 9. gr. t. d. „söltunarstöðvar“ og bæta inn í 8. gr. „ef hann er heimilisfastur á atvinnustaðnum“, og svo hefði orðið að koma upptalning, sem ekki hefði getað orkað tvímælis, en eins og brtt. er orðuð, sé ég ekki betur en að sjálfsagt sé að fella hana, því að í staðinn fyrir að bæta l.. gerir hún þau stórum verri. Ég held, að ef á annað borð þessi till. er ekki fram komin til þess að koma þessu máli fyrir kattarnef að þessu sinni, þá eigi hún að takast aftur, svo þetta litla frv., sem skiptir ákaflega litlu máli fyrir hlutaðeigandi bæjarfélag, sem aðallega er barizt fyrir, fengi að halda áfram óhindrað.

Ég geri ráð fyrir. að hreyft muni verða þeirri mótbáru gegn þessu frv., að fyrir Nd. liggi frv. um breyt. á sömu l., og það er rétt; þar er frv. um breyt. á þessum l., en það er um allt annað efni en þetta litla frv., og það orkar miklu meira tvímælis, hvort hægt er að koma þeirri breyt. fram, því að hún er miklu áhrifaríkari en sú breyt., sem þetta frv. felur í sér. Ég vænti því, að þetta litla frv. fái að ganga áfram nú, en fari svo, að það verði fellt hér í d., þá þykir mér sennilegt, að þeir, sem gera það, muni greiða atkv. á móti því af því, að þeir vilji fá fram fleiri breyt. á útsvarsl., og vil því ætlast til þess, að þeir vilji gera eitthvað til þess að flýta fyrir. að þær breyt. verði gerðar. En þótt að því verði horfið, þá á ég von á því, að sú allsherjarbreyt. komist ekki á á síðari hluta þessa þings, og meira að segja ekki á hæstu þingum. Ég veit fyrir víst, að þegar farið verður fyrir alvöru að hrófla við þeim l.. þá sjáist, að þar eru svo óskyld sjónarmið, að það muni taka alllangan tíma að koma því í gegn. En þetta litla frv. á að geta gengið fram nú. Það skiptir litlu máli fyrir viðkomandi sveitarfélög, en er sanngirniskrafa gagnvart þeim, sem eiga að sækja atvinnu sína hringinn í kringum landið.