19.04.1939
Neðri deild: 44. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 238 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

12. mál, raforkuvirki

*Frsm. (Emil Jónsson):

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta litla mál; það hefir legið áður fyrir þessari hv. d., og þessu frv. fylgir svo ýtarleg grg. að ég vona, að hv. þm. hafi getað gert sér ljóst, hvað þetta frv. fer fram á, en það er tvennt. Í fyrsta lagi miðar það að því að auka rafmagnseftirlit ríkisins frá því, sem það er nú. Þegar l. um rafmagnseftirlit ríkisins voru upphaflega sett, var aðallega farið eftir danskri fyrirmynd, að því er iðnn. hefir verið tjáð. En í þeim l. um rafmagnseftirlit er gert ráð fyrir, að raflagnir séu ekki eftirlitsskyldar, nema að litlu leyti þar, sem hætta getur stafað af þeim. Þetta er heldur óheppilegt fyrirkomulag hér á landi, og rafmagnseftirlit ríkisins hefir þurft að taka að sér eftirlit á miklu fleiri stöðum en l. gerðu ráð fyrir. Þetta frv. er fyrst og fremst breyt. á eldri l. um þetta efni.

Sömuleiðis var í eldri l. gert ráð fyrir, að það gjald, sem rafmagnseftirlit ríkisins tekur fyrir skoðun, yrði greitt af þeim, er verða skoðunarinnar aðnjótandi, og gjald fyrir hverja skoðun yrði innheimt af rafmagnseftirlitinu. En þetta þótti óheppilegt fyrirkomulag, og í þessu frv. er því lagt til, að sett verði fastagjald á öll raforkuvirki og allar rafveitur á landinu, er miðast við þær tekjur, sem rafveiturnar hafa. Frv. gerir ráð fyrir, að þetta gjald nemi 1% af tekjum þeirra. Þar sem þetta gjald kemur að langmestu leyti niður á rafveitum ríkisins og Sogsvirkjuninni, þá hefir iðnn. borið þetta mál undir rafmagnsstjórann í Reykjavík og fengið álit hans um það. Hann hefir tjáð iðnn., að hann telji störf rafmagnseftirlits ríkisins svo nauðsynleg, að hann telji það ekki eftir, þótt þetta gjald verði greitt, sem er, eins og ég hefi áður sagt. 1% af tekjum rafveitunnar, og áætlað er, að það nemi litið eitt hærri upphæð heldur en skattgjald rafveitunnar hefir verið fram að þessu. Skattgjaldið hefir verið um 16 þús. kr. á ári, en ef þetta frv. verður samþ., hækkar það upp í 20 þús. kr., svo að þar munar ekki ýkjamiklu.

Þetta er önnur aðalbreyt., sem farið fram á að gera með þessu frv., sem sé um stöðugra eftirlit með raforkuveitum en áður hefir tíðkazt og breytt fyrirkomulag á innheimtu gjalda. Ef þetta frv. verður að l., er ætlazt til, að rafmagnseftirlit ríkisins taki upp eftirlit með öllum raforkuvirkjum í landinu og hlutum, sem seldir eru til afnota fyrir aðra í sambandi við rafmagn, svo sem ofnum, eldavélum, straujárnum, rafmagnsþráðum og öðru þessháttar, og prófi það í þar til gerðri stöð, sem komið verði upp hér í Reykjavík og stjórnað af rafmagnsettirliti ríkisins. Þetta er sú meðferð, sem notuð er hjá nágrannaþjóðum okkar og þykir þar sjálfsögð. Menn hafa oft tilhneigingu til þess að kaupa það, sem ódýrast virðist í svipinn, en varhugavert er að nota eða fjárhagslegur skaði að kaupa. Hin tækin, sem traustari eru, eru dýrari í fyrstu, en reynast affarasælli í notkun og því ódýrari, er til lengdar lætur. Rafmagnseftirlit ríkisins á að prófa öll rafmagnstæki, sem flutt eru hingað til landsins, og líka að liti eftir þeim rafmagnstækjum, sem smíðuð eru hér á landi. Viðkomandi innflytjendur og framleiðendur gjalda nokkurn skatt fyrir þetta eftirlit. Þau tæki, sem rafmagnseftirlit ríkisins prófar, verða merkt með sérstöku löggildingarmerki, til þess að það sjáist, að skoðun hafi verið framkvæmd samkv. l. Skattur sá, sem innflytjendur og framleiðendur raftækja greiða, átti upphaflega að vera 1% af öllum raforkurekstri, en iðnn. lagði til, að hann yrði færður niður í 3/4% í samráði við rafmagnsettirlit og raftækjasölu ríkisins, sem enginn vill spilla fyrir.

Sömuleiðis hefir verið sett inn í þetta frv. vatill. frá iðnn., til þess að fyrirbyggja misskilning. Hún er á þá leið, að skattinn skuli miða við verksmiðjuverð þar, sem varan er framleidd, en ekki við útsöluverð til almennings. Orðalagið var þannig, að það mátti skilja þetta á þá leið, að miðað væri við útsöluverð. Þær tekjur, sem rafmagnseftirlit ríkisins mun fá fyrir þetta, eru áætlaðar um 7–8 þús. kr. árlega, miðað við 3/4% verksmiðjuverðs, en sú upphæð ætti að nægja til þess að halda uppi nokkurn veginn sæmilegu eftirliti og prófa tryggilega þau taki, sem ætluð eru til sölu hér á landi.

Iðnn. hefir farið gegnum þetta frv. og rætt það bæði við forstjóra raftækjaeinkasölunnar, rafmagnsstjóra Reykjavíkur og forstöðumann rafmagnseftirlits ríkisins, og eftir þessar athuganir leggur iðnn. til, að þetta frv. verði samþ. nálega óbreytt, aðeins með tveim litlum breyt. á þskj. 166, sem ég hefi nú skýrt frá.