20.02.1939
Neðri deild: 4. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

8. mál, námulög

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það hefir komið fram fyrirspurn um það, hvort gefin verði nokkur almenn skýrsla um tilefni þess, að bráðabirgðal. þessi voru sett. Ég tel ekki þörf á þeirri skýrslu nú, en get upplýst, að það hefir verið gefin nokkur opinber skýrsla um málið, sem hefir verið birt í útvarpinu og var frá þeim hæstaréttarmálaflm., sem hefir með þetta mál að gera hér fyrir hönd þeirra útlendinga, sem hafa tjáð sig hafa áhuga á að athuga möguleikana fyrir og e. t. v. að byrja á málmgrefti hér á landi. Þessi skýrsla var borin undir forsætisráðuneytið, og ég hefi ekkert við hana að athuga. Hún er rétt í öllum atriðum.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er aðeins bráðabirgðaráðstöfun á þessu máli. Ég tel rétt að gera þá ráðstöfun, að ekki sé hægt að selja hér á landi réttindi til málmvinnslu nema með samþykki ríkisstj., af þeirri ástæðu, að hér landi er allt í óvissu um það, hvaða auðæfi eru í jörðu eða hvort þau eru nokkur. Það er því frágangssök að gera nokkra samninga um námuréttindi, nema sá aðili, sem þau lætur af hendi, viti fyrirfram nokkurn veginn, hvers virði réttindin eru, sem hann er að selja. Ég álít, að algerlega beri að fyrirbyggja það, að afsal slíkra réttinda geti átt sér stað án þess að ríkisstj. geti haft þar hönd í bagga með. Það hefir átt sér stað í öðrum löndum, að námuréttindi hafa verið seld án þess vitað hafi verið fyrirfram um, hvers virði þau voru; og það hefir kostað mikla fyrirhöfn, rask og fjármuni að ná þeim réttindum aftur.

Þessi bráðabirgðal., sem frv. liggur fyrir um að hæstv. Alþ. samþ., eru aðeins bráðabirgðaráðstöfun, sem gerð var vegna aðkallandi nauðsynjar. En það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess, að aflað verði upplýsinga um námul. annarra þjóða og reynslu í þessum efnum, sem sumum þeirra hefir orðið alldýrkeypt. Atvinnumálaráðuneytið er að afla þeirra upplýsinga nú, og fyrir hæstv. Alþ. mun verða lagt svo fljótt sem unnt er frv. til fullkominna námul., byggt á þeirri rannsókn. Jafnhliða lýsi ég yfir, að ég geri ráð fyrir, að á þessu þingi verði borin fram þáltill., þar sem farið verði fram á heimild fyrir ríkisstj. til þess að láta hefja rannsókn á því, hver málmauðæfi landsins muni vera. Á undanförnum árum hefir farið fram nokkur rannsókn í þessum efnum, og um það eru til skýrslur, sem ekki eru samstæðar svo sem æskilegt væri, heldur brotasilfur eitt. Ég álít, að rannsóknarstofa atvinnuveganna ætti að vera aðsetur fyrir þessar rannsóknir og að þar ætti að safna öllum skýrslum saman um rannsóknir, sem þegar hafa í þessu efni verið gerðar, og að þar ætti einnig að safna saman öllum skýrslum og bókum, sem varða rannsóknir, er gerðar verða í þessu efni. Gögn þau, sem til eru um þær rannsóknir á þessu sviði, sem gerðar hafa verið, eru ekki nægilega aðgengileg nú fyrir þá, sem á þeim þurfa að byggja. En ríkisstj. hefir gert ráðstafanir til þess, að þessum gögnum verði safnað saman í eitt, svo að aðgengileg verði fyrir þá, sem kunna að verða látnir sjá um þessar rannsóknir í sumar. Og reynt verður að afla heimildar fyrir ríkisstj. til þess að þær rannsóknir geti farið fram þá.

Ég get getið þess í þessu sambandi, þótt ég búist við, að það þurfi að fá útlenda menn til þess að standa fyrir þessum rannsóknum — sem verður vitanlega á valdi þeirrar ríkisstj., sem með þau mál fer — að mjög efnilegir Íslendingar eru nú við nám erlendis í þessari grein. Geri ég ráð fyrir, að þeir hafi mikinn áhuga á að vinna með þeim útlendingum, sem fengnir verða til að standa fyrir þessum rannsóknum fyrst um sinn a. m. k., og að þannig verði hægt að ala upp menn, sem færir verði um að halda áfram þessum rannsóknum á eigin ábyrgð til fullnaðar. En þessar rannsóknir verða vitanlega ekki framkvæmdar á fáum árum, því að þær eru margra ára verk. Því að eins og hv. þm. er kunnugt, er okkar land eitt af minnst rannsökuðu löndum veraldarinnar í þessu efni, þeirra sem byggð eru.