20.02.1939
Neðri deild: 4. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

8. mál, námulög

*Héðinn Valdimarsson:

Eftir þeim upplýsingum, sem fram hafa komið í blöðum og annarstaðar viðvíkjandi þessum málmi á Vestfjörðum, lítur út fyrir, að þar gæti orðið um stórfelldan atvinnurekstur að ræða við málmgröft, ef á annað borð yrði hafizt handa. Nú þegar stærsta böl þjóðarinnar er atvinnuleysið, þá virðist mér það hljóta að vera eitt hið mesta áhugamál hvaða stjórnar, sem væri við völd, að einmitt að þessu máli væri gengið þegar í stað og vitað um, hvort hægt væri að koma á fót þeim atvinnurekstri, sem útlendingar hafa gert ráð fyrir, að hægt væri að reka við málmgröft hér á landi. Það liggur fyrir rannsókn, sem gerð hefir verið hér á landi í þessa átt, en jafnframt með þeim upplýsingum, að útlendingar vilji haga framkvæmdum á þann hátt, að þeir ráði sem mestu um þær sjálfir að ýmsu leyti.

Nú er það fyrirspurn mín til hæstv. forsrh., ekki einungis hvað verði gert í þessum málum yfirleitt, heldur hvað verði gert í þessu sérstaka máli viðvíkjandi Vestfjörðum. Þær sögur ganga hér, án þess því hafi verið mótmælt af hæstv. ríkisstjórn, að þessir útlendu menn, sem áhuga hafa á að koma í framkvæmd málmgrefti á Vestfjörðum, hafi farið af fundi ríkisstj. án þess að fá frá henni nein svör við málaleitun sinni. Heyrzt hefir, að það hafi verið dregið í efa, að það mundi hafa nokkra þýðingu að tala við þá, því að þeir hefðu ekki sín nauðsynlegu sambönd í lagi. Ég vil því spyrja hæstv. forsrh., hvort þessir menn hafi ekki bak við sig fyrirtæki eða banka, sem gefi tryggingu fyrir, að taka megi alvarlega málaleitun þeirra. Það er vitað, að þessir menn hafa gert samninga fyrirfram viðvíkjandi gjöldum til viðkomandi hrepps og aðra samninga viðvíkjandi þessari málmvinnslu, ef til kæmi. Ég sé nú ekki, að með þessu frv., sem hæstv. ríkisstjórn leggur hér fram, sé annað gert en að tryggja ríkisstj. möguleika til að hindra það, að frekari tilraunir um málmvinnslu á þessum stað geti átt sér stað. Má í því sambandi benda á orðanna hljóðan í frv., þar sem stendur, að ríkisstj. geti sett hvaða skilyrði sem vera skal um málmvinnslu í landinu (niðurlag 2. gr.). Þetta er víðtæk heimild og að minn áliti varhugaverð.

Ég vil ekki með þessu segja, að ég sé á móti þeirri fyrirætlun, sem hæstv. forsrh. gat um, að taka upp almenna rannsókn á málmauðæfum í jörðu hér á landi, enda var ég á síðasta þingi með brtt. við fjári. um slíkt efni, sem þá var felld.

En ég endurtek það, að ég álít ekki fullnægjandi gerðir hæstv. ríkisstj. í þessu máli, ef hún skilur svo við þá útlendinga, sem áhuga hafa á að koma í framkvæmd málmgrefti á Vestfjörðum, að hún slíti sambandi við þá án þess að grennslast um, hvort þeir hafi nógu mikið fjármagn til þessara framkvæmda. Verkamenn um landið fylgjast af miklum áhuga með þessu máli og vilja fá að vita, hvort hægt sé fljótlega að koma upp arðvænlegum atvinnuvegi í sambandi við málmgröft í landinu.