20.02.1939
Neðri deild: 4. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

8. mál, námulög

*Einar Olgeirsson:

Það er rétt hjá hæstv. forsrh., að það eru ekki skiptar skoðanir um það meðal þm., að við sjálfir eigum og ráðum yfir okkar auðlindum, og að svo miklu leyti, sem þetta frv. miðar í þá átt að tryggja yfirráðarétt Íslendinga yfir þeim, þá miðar það í rétta átt. Um það eru ekki heldur skiptar skoðanir, að það þurfi að vinda bráðan bug að því að rannsaka auðlindir landsins, og þó þær till., sem um það voru bornar fram á síðasta þingi, hafi verið felldar, þá munu ekki vera skiptar skoðanir um það meðal þm., að þetta þurfi að gera. Það er oft svo, að ef góðar till. koma frá ákveðnum mönnum, þá er sjálfsagt að drepa þær. Um þriðja atriðið eru ef til vill skiptar skoðanir, eða um það, hvort við eigum að hagnýta okkur þessar auðlindir, og hvort við eigum að gera það strax.

Það er skoðun þeirra manna í landinu, sem vilja láta bæta úr atvinnuleysinu, sem fleiri þúsundir manna eiga við að búa, að vinda beri bráðan bug að því að hagnýta þessar auðlindir En það hefir komið fram í aðalmálgagni ríkisstj., Tímanum, sú skoðun, að það væri meira eða minna hættulegt, ef þær væru hagnýttar. Þegar verið var að ræða um þetta mál í ritstjórnargrein í Tímanum fyrir nokkru, þá var um leið vikið að því, að landinu gæti stafað hætta af því, ef hér risi upp stóriðja í sambandi við vinnslu úr Eyrarfjalli á Vestfjörðum. Það er því ekki að ástæðulausu, þó þm. vilji heyra, hver afstaða ríkisstj. er til þessa praktíska máls, þar sem þetta liggur fyrir og ætla mætti þess vegna, að skiptar skoðanir væru um þetta efni og það, hvort sjá ætti um, að hægt væri að byrja á vinnslu þar strax. Eftir því, sem talað hefir verið um þetta mál, þá hefir því verið slegið fram, að í sambandi við hina vaxandi stríðshættu í Evrópu myndu veri meiri möguleikar en ella fyrir því, að hægt væri að vinna járnmálm í Eyrarfjalli. Það hefir hinsvegar heyrzt, að þeir menn, sem eru að grennslast eftir þessu, vildu ekki halda áfram með rannsóknir, nema það sé tryggt, að þeir geti fengið að vinna járnmálminn, svo framarlega sem rannsókn leiðir í ljós, að nægilegt sé til af honum. Það er skiljanlegt, ef rannsóknir og tilraunir kosta svo tugum þúsunda skiptir, að félagið vilji ekki framkvæma þær fyrir okkur, ef við gætum svo sagt, þegar búið væri að rannsaka þetta, að við vildum ekki gera samninga við þá, heldur ætluðum við að vinna járnmálminn sjálfir. Ég er hræddur um, að þau svör, sem hæstv. forsrh. hefir gefið þessum mönnum, þýði að meira eða minna leyti neitun á þessu. Þó þeim sé í sjálfsvald sett að rannsaka þetta nákvæmlega, þá er það vitanlegt, að þeir eru ekki að gera þetta fyrir Íslendinga, heldur til þess að græða á því. Það er auðvitað, að þeir leggja ekki peninga í þetta, nema möguleikar séu á því, að þeir fái aðstöðu til þess að halda viðskiptunum áfram, svo hagur þeirra versni ekki, ef málmauðgi kemur þarna í ljós. Það verður því að taka sérstaka afstöðu viðvíkjandi Eyrarfjalli.

Ég er sammála hæstv. forsrh. um það, að þessi l. eigi að fara í gegn, og þau eigi að færa í hendur ríkisstj. allmikið vald. Hitt vill maður auðvitað fá að vita, á hvern hátt ríkisstj. sú, sem nú situr, mundi nota þetta vald, ef henni væri það gefið. Svo framarlega sem það kæmi í ljós, að í Eyrarfjalli væri mikill málmauðgi, þá væri þar með vitað, að miklu viðar á Íslandi kynni hið sama að eiga sér stað. Það liggur nú ekki fyrir, að ríkisstj. sé til í að eyða tugum þúsunda í að rannsaka þetta, svo það gæti verið gott fyrir okkur, ef þetta væri rannsakað af hálfu útlendinga, því það gæti orðið eins og sýnishorn af málmauðgi landsins. Það gæti orðið mun praktískara heldur en sleppa þessu tækifæri og taka rannsóknina fyrir með þeim seinagangi, sem er á flestu hjá okkur.

Það er rétt að fá að heyra frá hæstv. ríkisstj. nákvæmlega um það, hvort útlendingar eru tilleiðanlegir til að rannsaka þetta með þeim skilmálum, sem í boði eru.

Þá er það annað, sem ég vil gera að umræðuefni. Það er upplýst, að það voru 3 menn, sem sérstaklega áttu tal við þessa menn. Mér finnst satt að segja, að það sé farið að innleiða nýja stefnu í þingræðislífinu hér á Íslandi, þegar farið er að taka úr 3 sérstaka þm. til þess fyrir hönd ríkisstj. að eiga viðtöl við menn, sem koma hingað til þess að leita hófanna viðvíkjandi fjármálum. Ef svo á að vera, þá verða þessir menn að vera ábyrgir gagnvart einhverjum aðilja og gefa einhverstaðar sínar skýrslur. Og þó það sé gert, þá nær vitanlega engri átt sú aðferð, sem hér hefir átt sér stað. Það er því nægileg ástæða til að óska, að gefnar séu í þinginu einhverjar yfirlýsingar um það, hvað farið hafi á milli þessara 3 manna úr utanrmn. og þeirra útlendinga, sem þeir áttu viðtöl við. Það er um það talað í bænum, að ýmislegt fleira hafi borið þar á góma og það kunni að hafa verið gefnar þar ýmsar einkennilegar yfirlýsingar, sem auðvitað væru þá teknar eins og þær væru gefnar af ríkisstj. og þinginu. Mér finnst full ástæða fyrir þingið að fá að vita um þetta.

Ég vil því koma með fyrirspurn um það, hvort þetta hafi átt sér stað, eða mælast til, að þessir menn úr utanrmn. gefi skýrslu um þetta hér á Alþ.