27.02.1939
Neðri deild: 8. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

8. mál, námulög

*Héðinn Valdimarsson:

Ég hefi hugsað mér að bera fram brtt. við þetta frv. við 3. umr. málsins, sem fara í þá átt, að þau skilyrði, sem ráðh. setur fyrir námuvinnslu, skuli vera borin undir báðar d. næsta Alþ. Mér finnst ráðh. vera gefið of mikið vald í þessu efni, eins og frv. gerir ráð fyrir.

Ég vil, úr því ég stend upp, segja það, að mér finnst lítill áhugi vera fyrir hendi hjá ríkisstj. viðvíkjandi þeim tilmælum, sem fram hafa komið um námuréttindi á Vestfjörðum. En það má gera ráð fyrir, eftir upplýsingum, sem fyrir liggja, að þessi námuvinnsla, sem um er að ræða, muni fljótlega skapa atvinnu fyrir 300-400 manns, en það gæti fjórfaldazt á skömmum tíma. En það þýðir útrýming atvinnuleysisins í landinu að miklu leyti. En það hefir hingað til ekki annað frétzt frá ríkisstj. um málið en þetta frv., sem frekar virðist vera til þess fallið að hindra, að námuvinnsla eigi sér stað, en hitt. Ég mun ekki ræða þetta nánar við þessa umr., en kem inn á það við 3. umr.