14.11.1939
Neðri deild: 59. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

99. mál, sala og útflutningur á vörum

*Frsm. (Thor Thors) :

Í þessu frv. eru ákvæði tveggja bráðabirgðal., sem ríkisstj. setti á síðasta sumri, eftir að líkindi voru öll til þess, að ófriður mundi skella á, og síðari l. reyndar eftir að ófriður var skollinn á í Norðurálfu.

Það er ákveðið í þessu frv., eins og líka var í bráðabirgðal., að ríkisstj. skuli hafa heimild til þess að hafa íhlutun um sölu á íslenzkum afurðum erlendis og að það þurfi sérstakt útflutningsleyfi til þess að mega senda vörur úr landi. Þessa íhlutun hefir ríkisstjórnin fengið í hendur sérstakri n., sem skipuð var á síðasta hausti. Útflutningsn. hefir samband við alla þá, sem rekið hafa verzlun og óska að reka hana, og þeir annast sjálfir útflutning varanna, en þó eftir sérstöku leyfi frá útflutningsn.

Í öðru lagi hefir starf n. verið að leiðbeina mönnum um verðlag á vörum erlendis, og það starf n. hefir borið verulegan árangur, þannig að fyrir það hafa ýmsir útflytjendur fengið hærra verð fyrir sínar vörur en líkur eru til, að annars hefði orðið.

Þar sem sérstakt ástand ríkir nú í viðskiptamálum vegna ófriðarins og verðsveiflur eru allmiklar og tíðar, telur allshn., að íhlutun ríkisstj. verði framvegis að vera um þetta eins og verið hefir, og leggur því til, að frv. verði samþ.