09.11.1939
Neðri deild: 56. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

96. mál, verðlag á vörum

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það var fyrst með l. nr. 70 frá 31. des. 1937, sem ríkisstj. var heimilað að skipa verðlagsn. til þess að hafa eftirlit með verðlagi á vörum. 14. október 1938 var þessi heimild notuð til þess að skipa verðlagsn., og hefir hún starfað síðan. Ég ætla ekki að gefa nú neitt nákvæmt yfirlit um starf þessarar n., en ætla að minnast á það með fáum orðum um leið og frv. þetta kemur hér til 1. umr.

Þessi n. hefir einkum starfað eftir að breyt. varð á gengi ísl. krónunnar, og beitti n. þá starfi sínu til þess að reyna að halda niðri verðhækkun þeirri, sem tilhneiging var um, að kæmi fram. N. notaði aðallega tvær aðferðir til þess. Annarsvegar ákvað hún hámarksálagningu á nokkrar tegundir erlendra vara, og þá helzt vörur, sem minna framboð var á en eftirspurn eftir, svo sem búsáhöld og flestar tegundir byggingarvara.

Að öðrum þræði starfaði n. þá í sambandi við iðnfyrirtæki, sem hér starfa, og óskaði eftir, að þau hækkuðu ekki verð á sínum framleiðsluvörum. Hafa þessi fyrirtæki tekið vel till. og óskum n., og hafa ekki verðbreyt. orðið á innlendum iðnaðarvörum síðan n. tók til starfa nema þannig, að n. hafi verið kunnugt um það áður og hún hafi getað skapað sér skoðun um, hvort verðhækkunin væri eðlileg. Ég hygg, að starf þessarar n. hafi átt töluverðan þátt í því, að verðbreyt. á vörum vegna gengisbreyt. krónunnar hefir orðið minni en jafnvel þá bjartsýnustu óraði fyrir. Að vísu kemur það líka til greina, að vörur, sem til voru í landinu, þegar gengisbreyt. varð, — og var það réttmætt –voru flestar seldar með verði, sem eldri gengisskráningin skapaði. Þó munu þær vörur, sem þá voru til, skammt hafa hrokkið, og mundi verðhækkun skjótt hafa komið til greina, ef ekki hefði verið samvinna milli n. og innflytjenda um vöruverðið. Verðlagsbreyt. hafa orðið þær, að sé miðað við, að framfærslukostnaður hafi verið 100 í janúar 1939, þá var hann 1. júní síðastl. 102. En frá því í apríl, þegar gengisbreyt. varð, varð verðlagsbreyt. enn minni, því að þá var framfærslukostnaðurinn, miðað við 100 í jan. síðastl., 101,85. Frá því í apríl og þangað til 1. júní er breyt. því sama sem engin á framfærslukostnaðinum.

Eins og ég gat um, hafði verið samvinna með verðlagsn. og iðnfyrirtækjum, og flest þeirra fyrirtækja höfðu ekkert hækkað verð á sínum vörum.

Ef við tökum 1. sept. 1939, þá kemur í ljós samkv. uppgjöri hagstofunnar, að það magn af matvöru, sem 1. sept. 1938 kostaði 1670.00 kr., kostaði 1. sept. 1939 1676.00 kr., eða m. ö. o. alveg sama og áður. Þá hefir verðhækkun ekki orðið á þessum tíma. Og húsaleiga hefir staðið í stað samkv. gengisl. En síðan hefir orðið verðhækkun. Verðlagsn. hefir reynt að hafa hönd í bagga um, að hún yrði ekki meiri en eðlilegt hefir verið vegna hins hækkaða innkaupsverðs og hækkunar á flutningsgjöldum.

Það hefir verið mjög mikill stuðningur að því í starfi n. nú eftir að verðhækkun hefir orðið óhjákvæmileg, að hún var búin að starfa þetta langan tíma áður en ófriðurinn brauzt út. Bæði gat hún gert ákvæði, sem gátu staðizt um ýmsar vörutegundir, og líka var hún búin að kynnast verkefnunum eins og þau lágu fyrir. Og þess vegna hefir n. orðið miklu meira ágengt í starfi sinu en orðið hefði, ef hún hefði verið sett á laggirnar þá fyrst er ófriðurinn brauzt út.

Mér er óhætt að segja, að samvinnan milli n. og atvinnurekenda hefir verið góð. N. hefir notað þá aðferð, að setja ekki verðlagsákvæði, heldur fá samkomulag um verðið. Í stríðsbyrjun skoraði n. á innflytjendur að breyta ekki vöruverði nema í samráði við hana. Og í sambandi við iðnrekendur hygg ég að hún hafi gert það sama.

Þegar svo er komið, að meginið af vöruverði er borið undir n., þá er starf hennar orðið mjög umfangsmikið. Og það er vitanlega ekki ætlazt til, að það sé svo yfirleitt. En á þessum tímum, þegar verðbreyt. eru miklar og hætta er á, að menn búi ekki við eðlilegt verðlag, þá er ekki hægt hjá þessu að komast. En því er ekki hægt að neita, að þessu fylgir gífurlegur vandi fyrir n.

Þessi breyt., sem hér liggur fyrir á l. um verðlagsn., er bein afleiðing af ófriðarástandinu. Og breyt. er sú, að óheimilt sé að breyta álagningu á vörum, sem eru af gömlum vörubirgðum, nema með sérstöku leyfi n. Þetta er gert til þess að koma í veg fyrir, að eldri vörubirgðir, sem til eru í landinu, hækki í verði í einu vetfangi upp í það verð, sem verður á vörum, sem aðfluttar eru eftir að verðhækkun er skollin á. Frá þessu hefir n. heimild til að gefa undanþágur, þegar sérstaklega stendur á.

Ég vildi mælast til þess, að þessu frv. verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.