08.11.1939
Neðri deild: 55. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

98. mál, verkamannabústaðir

*Einar Olgeirsson:

Ég held, að tæplega sé hægt að gefast öllu rækilegar upp með að verja málstað sinn en hæstv. félmrh. gerði í síðustu ræðu sinni. Það hefði óneitanlega verið karlmannlegra af honum að sýna þingheimi snilld sína í því að rökræða þetta mál, heldur en hrópa bara upp: Þetta eru bara kommúnistar og við þá er ekki talandi, — og flýja svo úr þingsölunum þegar hann er kominn í bobba, svo ekki sé hægt að ræða við hann um hinar óteljandi mótsetningar, sem orðnar eru í orðum hans og gerðum í sambandi við þetta mál. Því að það er vitað, að það er varla nokkur maður utan hans flokks, sem hefir tekið upp málstað hans í sambandi við hin frægu bráðabirgðalög frá í sumar. Það lætur því óneitanlega illa í eyrum, þegar þessi maður er að veita öðrum ákúrur fyrir skort á velsæmi gagnvart þingi og þjóð, — maður, sem svo freklega brýtur þingræðið, að hann ekki aðeins brýtur það með því að gefa út gersamlega óhæf bráðabirgðalög, heldur neitar líka að ræða hér á Alþingi. Þýtur bara burt úr deildinni og lætur engan sjá sig. Annars höfum við þingmenn Sósíalistafl. lagt fram þau gögn í þessu máli, sem eiga að nægja, og það eitt er víst, að með því verður fylgzt af alhuga, svo að vart mun alþýða manna fylgjast betur með öðrum málum.