08.11.1939
Neðri deild: 55. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

98. mál, verkamannabústaðir

*Thor Thors:

Umræður þessar hafa aðallega snúizt um það, að hinir fornu samherjar hafa verið að gera upp gamlar sakir. Það, sem ég vil segja að þessu sinni, er að minna á, hver afstaða okkar sjálfstæðismanna hefir verið til þessa máls á undanförnum þingum, og jafnframt, hver hefir verið afstaða þeirra hæstv. félmrh. og hv. 3. þm. Reykv. Lögin um verkamannabústaði voru sett 1931, og var þá svo frá þeim gengið, að fleiri en eitt byggingarfélag máttu vera í hverjum kaupstað. Nú bar svo til, að hátt á þriðja hundrað verkamanna hér í bænum stofnuðu með sér annað byggingarfélag. Menn skyldu nú ætla, að það hefði verið gleðiefni fyrir Alþfl.-fulltrúana a. m. k., ef þessum mönnum hefði tekizt að koma sér upp bústöðum. En það fór nú dálítið á annan veg. Í stað þess að gleðjast yfir þessu, rís núv. hv. 3. þm. Reykv. upp og beitti sér af alefli gegn þessum félagsskap og fékk því til leiðar komið, að hann var svo gott sem kyrktur í fæðingunni. Þessu og þvílíku ranglæti gat hann komið í gegnum þingið, enda þótt með miklum hörmungum væri. Hann var þá líka einn með valdamestu mönnum þingsins, alveg eins og hann er núna einn sá allra valdaminnsti. Hér í hv. Nd. gátum við Garðar Þorsteinsson fengið það samþ., að félag þetta mætti lifa. Í hv. Ed., var frv. aftur breytt í sitt fyrra form og kom því hingað aftur, og hér var svo till. okkar Garðars felld með 16 atkv. Hv. þm. Mýr. (BÁ) greiddi till. okkar atkv. þrátt fyrir það, þó að núv. hv. 3. þm. Reykv. gengi með krepptan hnefann á móti honum og æddi sem grenjandi ljón um deildina. Till. um að drepa félagið komst samt í gegnum þingið, og réð þar um atkv. eins þm., Magnúsar Torfasonar, sem þá var nýlega búinn að svíkja flokk sinn. Ef hv. 3. þm. Reykv. vildi nú vera sjálfum sér samkvæmur, ætti hann að láta félag sitt ganga inn í félag það, sem samþ. hefir verið af ríkisvaldinu og er nú að hefjast handa um framkvæmdir.

Ég kenni alls ekki í brjóst um hv. 3. þm. Reykv. (Hv) vegna hrellinga hans í þessu máli. — síður en svo. Menn uppskera jafnan eftir því, sem þeir sá. Það má vel vera, að þessi núverandi hrjáði þm. hafi stundum unnið vel, en eitt er víst, að hann hefir jafnan gætt þess að vinna fyrst og fremst fyrir sjálfan sig í pólitískum tilgangi. Hv. núv. Alþfl.-menn hefðu eflaust gott af að minnast þess nú, hversu fast þeir stóðu á því 1934, að ekki ætti að vera nema eitt byggingarfélag í hverjum kaupstað, þar sem þeir játa það nú, að þau megi vera fleiri. Við bentum þegar á það 1934, að Héðinn Valdimarsson myndi jafnan beita pólitískum brögðum í þessum málum, og það hefir komið á daginn. Og yfirleitt hefir allt, sem við héldum fram 1934 í þessum málum, komið fram. Við kváðum skýrt á um það, að við hefðum alla tíð haft megnustu ótrú á núv. 3. þm. Reykv. (HV), bæði hvað snertir þessi mál og önnur. Það hefði því verið betra, ef Alþfl.-mennirnir hefðu viljað taka mark á orðum okkar þá. Þeir þyrftu þá ekki að vera að glíma við þennan draug nú.

Hvað mál þetta snertir almennt, þá finnst mér, að sú stefna ætti að ráða, að sem flestir gætu notfært sér þau hlunnindi, sem hér getur verið um að ræða, hvort sem eitt eða fleiri félög eru á hverjum stað. Sé aðeins eitt félag, þá þyrfti að tryggja það með hlutfallskosningu, að allir flokkar gætu notið sín við stjórnarkosningu o. fl. Og jafnframt þyrfti að tryggja það, að það væru jafnan verkamennirnir sjálfir, sem færu með stjórn þessara mála, en ekki pólitískir snakkar, sem ekkert erindi eiga inn í félögin nema til þess að nota þau sér til pólitísks framdráttar.