09.03.1939
Neðri deild: 16. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

8. mál, námulög

*Héðinn Valdimarsson:

Mér virðast ástæður þær, sem hv. frsm. færir fram móti brtt. minni, ekki á sérstaklega styrkum grunni reistar. Þegar um er að ræða leiguréttindi á námum, þá er mikils virði fyrir almenning að fá að vita, hvaða kjör um er að ræða. Þetta er ekki aðeins mikilsvert fyrir umsækjendur, heldur og fyrir almenning yfirleitt. Ég get ekki betur séð en að jafnvel þm. hafi litla aðstöðu til að fylgjast með gerðum ríkisstj., eins og stjórnarfarinu er nú háttað. Er það ekki óalgengt, að ef bornar eru upp fyrirspurnir til stj. utan dagskrár, þá svari hún alls ekki, og ef setja á allt slíkt fram í venjulegu fyrirspurnarformi, þá yrði það allt of viðamikið til þess, að það sé alltaf hægt.

Hér ætti ekki heldur að geta verið um nein viðskiptaleyndarmál að ræða, nema ef tilgangurinn með laununginni skyldi eiga að vera sá, að halda völdunum að öllu leyti í höndum stj.

Með tilliti til þeirrar tilhneigingar, sem hv. frsm. sagði, að hv. n. hefði haft til að fallast á síðari till. mína, fæ ég ekki skilið, hví hún vill þá ekki mæla með henni. Ég get ekki séð, hvaða skaða það geti haft í för með sér að setja þessi ákvæði inn í l., þar sem fyrir liggur að sækja um málmvinnsluréttindi fyrir vestan. Ég verð að segja, að mér virðist sú stefna vera fullofarlega í n., að leggja allt í hendur stj. og svipta þannig Alþingi réttinum til að segja síðasta orðið í þessum málum.