27.11.1939
Neðri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

98. mál, verkamannabústaðir

*Einar Olgeirsson:

Það var þegar þetta frv. var til 1. umr., rætt mikið um, hvernig það væri til orðið og hvernig þessi bráðabirgðalög væru. Þess var sérstaklega farið á leit við þá nefnd, sem hefði með þetta mál að gera, að hún athugaði vel allar kringumstæður og aðferð þá, sem hæstv. félmrh. hefði beitt. Það var sýnt fram á, að settar hefðu verið fram rangar forsendur og að hæstv. félmrh. hefði gert sig sekan um mjög miklar mótsagnir í sambandi við framkomu sína í þessu máli og beitt röngu. Nú vitum við að eitt af því, sem Alþingi þarf að hafa gætur á, ef það ætlar að halda uppi lýðrétti fólksins í landinu, er það, að ráðh. misbeiti ekki þeim rétti, sem hann hefir til þess að gefa út bráðabirgðalög. Það er enginn réttur, sem eins er hægt að misbeita eins og þessi réttur. Manni virðist því ekki til of mikils mælzt, þótt sú nefnd, sem fengi málið til meðhöndlunar, athugaði dálítið þau gögn, sem fyrir lægju. Það er auðséð á öllu, að þetta hefir ekki verið gert, enda ber allur svipur deildarinnar það með sér, og þeir menn, sem talað hafa með frv., að samvizkan er heldur slæm. Hv. þm. N.-Ísf. flytur málið með eins fáum orðum eins og hann getur, til þess að þurfa ekki að óhreinka sig á því. Hæstv. félmrh. hagar sér á sama hátt og við 1. umr. og allir þingmenn Framsfl. og Sjálfstfl. koma sér hjá því að taka þátt í umræðunum. Það er ekki undarlegt. Ég lái þeim það ekki, þó þeir kæri sig ekki um að standa upp til þess að verja þetta.

Ef maður gæti skyggnzt bak við tjöldin, gæti maður kannske séð samband milli ríkislögreglufrv. í Ed. og þægðar Alþfl. til að samþykkja það og þeirrar borgunar, sem félmrh. fær í þessu máli. En víst er um það, að svívirðingar þjóðstjórnarfyrirkomulagsins hafa komið sérstaklega fram í þessum málum.

Það hefir verið mál manna, að með bráðabirgðalögunum um verkamannabústaði hafi verið beitt því mesta gerræði, sem þekkzt hefir á Íslandi, og að það sé ekki nokkur maður í nokkrum flokki, sem treysti sér til þess að verja þetta. Það verður seinna lagt undir dóm fólksins, hvernig hv. þm. hafa haldið á því, sem átti einu sinni að vera réttur verkamanna til að geta skapað sér betri íbúðir. Þeim rétti er nú verið að svipta þá.

Ég ætla ekki að minnast sérstaklega á brtt., sem fyrir liggur frá allshn. Hv. 3. þm. Reykv. hefir þegar rakið það mál. Ég mun greiða atkv. á móti þessari brtt. og móti frv.