27.11.1939
Neðri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

98. mál, verkamannabústaðir

*Bergur Jónsson:

Hv. 5. þm. Reykv. taldi, að það stafaði af vondri samvizku, að ekki hefðu fleiri úr allshn. tekið til máls við þessar umr. en Alþfl.-þm. Ég mótmæli þessu og ætla að segja hér nokkur orð um mína afstöðu til málsins.

Mér skilst það vera aðalatriðið, þegar afstaða er tekin til þessa frv., hvort menn álíta rétt að setja byggingarfélögum, sem styrks njóta úr byggingarsjóði, það skilyrði, að þau hafi stjórnskipaðan formann eða ekki. Þetta er í sjálfu sér aðalatriðið sem ætti að ræða um, þegar rætt er um bráðabirgðalögin. Allshn. komst að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki óeðlilegt, að þar sem fyrir opinberan tilverknað fæst lán með góðum kjörum til bygginganna, þá sé stj. veittur íhlutunarréttur um það, hvernig félagið starfi, á þann hátt, að hún skipi formann félagsins. Stjórnin mun hinsvegar vera skipuð 5 mönnum, svo félagið hefir sjálft rétt til að kjósa 4.

Út af brtt. frá allshn. vil ég taka það fram. vegna áberandi misskilnings hjá hv. 3. þm. Reykv., að sú breyt. gengur raunverulega mikið í þá átt, sem þessi hv. þm. hefir alltaf haldið fram, að rétt væri í þessum málum. Á þinginu 1934 barðist þessi hv. þm. ákveðið fyrir því. ásamt núv. hæstv. félmrh., gegn andmælum sjálfstæðismanna, að aðeins einu byggingarfélagi mætti veita lán á hverjum stað. Og með tilliti til þess var 1. málsgr. 4. gr. l. sett, en í 3. málsgr. er gert ráð fyrir, að fleiri en eitt byggingarfélag hafi verið stofnað. Með því að leggja til, að þessi málsgr. sé felld niður, hefir allshn. gengið ennþá lengra í áttina til hv. 3. þm. Reykv. Að hverju leyti finnst hv. þm. óeðlilegt, að þingið skuli ætla sér að ganga sömu braut sem hann er sjálfur upphafsmaður að? Ég get ekki skilið, að sú afstaða hv. þm. byggist á öðru en misskilningi. Ef sá möguleiki væri hinsvegar látinn halda sér, að fleiri en eitt byggingarfélag gæti komið til með að keppa um þetta, hver á þá að úrskurða um það, hvert þeirra skuli fá lánið? Ef l. gera það ekki, þá verður að láta einhverja stofnun gera það. Í þessu tilfelli liggur beinast við að láta stjórn byggingarsjóðsins gera það. Það kom líka mjög greinilega fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv., að hann leit þannig á þetta.

Ég vil svo bara að lokum segja það, að ef hv. þm. ætlar að tala upp úr umr. manna eitthvað, sem komi í bága við þá skoðun, að rétt sé að láta aðeins eitt byggingarfélag eiga kost á láni á hverjum stað, þá ætti hann að taka upp úr ræðum hv. þm. Sjálfstfl., en ekki sjálfs sín og annara alþfl.-manna, sem þá voru.