27.11.1939
Neðri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 294 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

98. mál, verkamannabústaðir

*Bergur Jónsson:

Hv. 3. þm. Reykv. byrjaði ræðu sína á því að segja, að mín ræða hafi verið byggð á misskilningi. En hv. þm. kom ekki með nein rök fyrir þessari staðhæfingu. Það væri þá helzt það, að við erum ekki sammála um verkefni og störf þingnefnda. Hv. þm. segir, að allshn. hafi vanrækt þá skyldu sína að rannsaka framferði félagsmálaráðherra. Allshn. er að mínum dómi til þess sett að rannsaka og athuga þau mál, sem til hennar er vísað, en ekki rannsóknarnefnd um framferði ráðherra eða einstakra þm.

Þessi fáu orð, sem ég sagði áðan, urðu til þess að koma hv. 3. þm. Reykv. inn á rétta braut í umr. Ég kom honum til að ræða um aðalatriði þessa máls, sem er það, hvort gera á að skilyrði fyrir lántöku úr byggingarsjóði, að hlutaðeigandi félag hafi stjórnskipaðan formann. Um þetta talaði hv. þm. í sinni síðustu ræðu. Við erum ekki sammála um þetta. Ég tel rétt að gera það að skilyrði í þessu tilfelli, en hann ekki, og ég býst við að við sannfærum hvorugur annan.