27.11.1939
Neðri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

98. mál, verkamannabústaðir

*Garðar Þorsteinsson:

Herra forseti! Ég skal ekki vera langorður um þetta mál. — Það er að gefnu tilefni frá hv. 5. þm. Reykv., að ég stend upp, og þá mest til að minna á fyrri afstöðu Sjálfstfl. til málsins, sem hv. þm. Snæf. rakti að nokkru leyti við l. umr. málsins.

Á haustþinginu 1934 var háð hörð barátta í þessu máli. Það var þegar félag, sem kallaði sig Byggingarfélag sjálfstæðra verkamanna, hafði hugsað sér að sækja um lán úr byggingarsjóði. Þetta félag hafði 300 meðlimi og var stofnað á grundvelli l. um verkamannabústaði frá 1931. Og þá var nú lýðræðið ekki meira en það hér á þingi, að jafnaðarmannafl. og Framsfl. gátu ekki unnað þessu félagi að njóta hlunninda l. þessara, og stóðu þeir að breytingum á l., sem gerðu það að verkum, að þetta byggingarfélag verkamanna gat ekki fengið lán úr byggingarsjóðnum. Þetta var þeim mun harðara sem þessi breyting var látin verka aftur fyrir sig. Það er ákaflega eftirtektarvert, að einmitt sá maður. sem stóð harðast á móti því, að félag sjálfstæðra verkamanna fengi að njóta réttinda l., var hv. 3. þm. Reykv. Og ég man ekki eftir, að eitt einasta orð kæmi frá flokksbræðrum hans í þá átt, að þeir teldu hann hafa ofsagt nokkuð í þessu máli. Þeim þótti þá sjálfsagt að fylgja hv. 3. þm. Reykv. í þessari ofsókn, sem meiri hl. Alþ. gerði sig þá sekan um gegn félagi sjálfstæðra verkamanna. Það þýddi þá ekkert, þótt á það væri bent, að það væri bæði óeðlilegt og ósanngjarnt að láta l. verka aftur fyrir sig. En svo vill svo sorglega til, að þessi sami hv. þm. fyllir ekki lengur hóp þeirra manna, sem þá mynduðu meiri hl. hér á Alþ., og þá er nú það tekið trúanlegt, sem við héldum fram 1934, að þessi hv. þm. — 3. þm. Reykv. — hafi notað sína aðstöðu í Byggingarfélagi alþýðu í pólitískum tilgangi. En nú virðist það vera eina ástæðan fyrir því, að þessi hv. þm. er sviptur formennskunni í félaginu með l., að hann muni nota aðstöðu sína í pólitískum tilgangi. Ég verð að segja, að ég er með frv. og brtt., sem hér liggur fyrir, því að ég tel, að það sé til bóta. Hinsvegar skal ég taka það fram, að ég tel, að ekki hafi verið nokkur ástæða til þess að breyta þessum l. með bráðabirgðalögum.

Viðvíkjandi því, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um störf allshn., þá vil ég segja það, að hv. þm. má ekki blanda því saman, hvort þetta frv. er til bóta, og hinu, hvað kann að vaka pólitískt fyrir flm. þess með því að bera málið fram, Ég álit það ekki mitt hlutverk í allshn. að vera á móti málum af þeim ástæðum, að þau séu fram komin jafnvel á óviðfelldinn hátt. Hv. þm. talaði um pólitískt gerræði í þessu sambandi. Það kemur n. sem slíkri ekkert við, hvort hér hefir verið um pólitískt gerræði að ræða eða ekki. Hennar skylda er að taka bókstafinn, en ekki það, sem á undan er gengið. Hv. 3. þm. Reykv. var að tala um það, að það væri óþarfi að hafa stjórnskipaðan formann í byggingarfélögunum. Ég get bent honum á það í því sambandi, út af því sem hann sagði, að það er veruleg upphæð, sem lögð er fram úr ríkissjóði til þessa félagsskapar, auk þess sem bæjar- og sveitarfélög leggja til þeirra. Það er þess vegna ekkert undarlegt, þó ráðh. skipi einn mann af fimm í stjórn slíks félagsskapar. Hitt er svo allt annað mál, hvort kosning hinna 4 manna í stjórn byggingarfélagsins hefir farið fram á löglegan hátt eða ekki. Það er atriði, sem hv. 3. þm. Reykv. vildi láta n. rannsaka. En það er bara alls ekki verkefni n. að athuga það. Það verður að bíða úrskurðar dómstólanna. Ég vil þess vegna vísa á bug ummælum hv. 3. þm. Reykv. um, að n. hafi vanrækt sitt starf að nokkru leyti í þessu efni.

Ég er ekki sammála hv. þm. Barð. um það, að svo sem l. eru nú, sé það skuldbindandi fyrir byggingarsjóð að lána aðeins einu félagi. Lánveitingar fara fram með nokkrum fresti, kannske annaðhvert ár, og það eru verulegar upphæðir, sem safnast í sjóðina, þar sem lagðar eru í þá 4 kr. fyrir hvern íbúa t. d. í Reykjavík. Nú má skilja 4. gr. svo, að lánveitingum skuli ekki skipt og megi því aðeins lána einu félagi í senn. Segjum nú, að í kaupstað séu t. d. þrjú félög, sem fullnægja skilyrðum 6. gr., og öll sæki um lán úr sjóðnum, þá mætti skilja 4. gr. svo, að sjóðurinn geti ráðið því. hvaða félagi sé veitt lánið. Ég vil líka benda hv. 3. þm. Reykv. á, að í l. er ekki ákveðið, með hvaða hætti félagsmenn fái réttindi til bygginga. Hann segir, að hann hafi haft þetta svo, að menn fengju réttindin eftir þeirri röð, sem er á því, er þeir skrifa sig inn í félagið. En í nýja félaginu var þetta haft svo, að menn voru látnir draga um réttinn hjá lögmanni. Ég tel rétt, að um þetta yrðu sett ákvæði í l. eða þá í reglugerð. Það er augljóst, að árið 1934, þegar hér störfuðu tvö byggingarfélög, sem bæði uppfylltu lögleg skilyrði, þá áttu bæði jafnan rétt til að fá lán úr sjóðnum, en þá komu þessir menn og sögðu, að aðeins annað félagið skyldi hljóta lánið. Var þá verkamönnum í Byggingarfélagi sjálfstæðra verkamanna bent á, að þeir þyrftu ekki annað en skrifa sig inn í hitt félagið til þess að njóta jafnréttis, en með því hefðu þeir orðið að bíða eftir öllum hinum, sem áður voru í því félagi til þess að fá réttindin. Þetta var ofríki gagnvart Byggingarfélagi sjálfstæðra verkamanna, því fremur sem það var látið viðgangast, að annar aðilinn, sem átti fullan rétt til láns. var sviptur þeim rétti, enda þótt hann hefði byggt hann upp að öllu leyti samkvæmt gildandi lögum.