27.11.1939
Neðri deild: 69. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

98. mál, verkamannabústaðir

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Ég vil víkja nokkrum orðum að þeim umr., sem hér hafa farið fram, og byrja þá á síðasta ræðumanni, hv. 4. þm. Reykv. Hann kom inn á það atriði, hvort réttmætt væri að hjálpa mönnum til að fá sér ódýrt húsnæði í bæjum landsins. Hann er nú borgarstjóri í Reykjavík og þekkir þau vandræði, er fólkið á við að stríða á degi hverjum út af húsnæði og öðru, en honum virðist sviða sárt að sjá, að hér og víðar rísa myndarlegar byggingar verkamanna fyrir atbeina þessarar löggjafar. Ég skil ekki þennan hugsunarhátt, sem sér ofsjónum yfir því, að reynt sé að hjálpa þeim mönnum, sem erfiðast eiga uppdráttar, til að fá sér þak yfir höfuðið. Annars skildist mér það vera ein aðalröksemd hv. þm. gegn þessu máli, að þeir einir ættu að njóta þessara hlunninda, sem væru Alþfl.-menn eða andstæðingar Sjálfstfl. En ég verð að segja, að þetta er mikill misskilningur. Ef svo væri, að fyrst og fremst andstæðingar Sjálfstfl. hefðu notið þess að fá slíkar íbúðir sem hér um ræðir, þá væri það ekki fyrst og fremst Alþfl. að kenna eða andstæðingum Sjálfstfl., heldur sjálfstæðismönnum sjálfum. Í stj. hins nýja Byggingarfélags verkamanna eru menn af öllum þrem stjórnmálaflokkunum: Sjálfstfl., Alþfl. og Framsfl. Þeir, sem hafa vilja á að nota sér þennan möguleika og eru nógu snemma á ferli og áhugasamir, geta með tilstyrk félagsins fengið þak yfir höfuðið, án tillits til stjórnmálaskoðana. Ég held því, að aðalástæðan til þess, að hv. þm. er á móti hugmyndinni um verkamannabústaði, liggi í því, að hann geti ekki hugsað sér, að hinu opinbera beri að styrkja þá, sem svo eru staddir, að þeir eiga örðugt með að bjarga sér sjálfir, og telja því, að þeir eigi að vera úti á gaddinum. Þar skilur á milli skoðana hv. 4. þm. Reykv. og okkar Alþfl.-manna.

Annars sagði hv. þm., að ég hefði tekið mér valdið gagnvart Byggingarfélagi alþýðu, sem starfað hafði hér í bæ um nokkur ár, með óréttlátu og ljótu móti. Það er vafalaust, að þeir, sem segja þetta — ef þeir gera það ekki gegn betri vitund, og það veit ég, að hv. 4. þm. Reykv. gerir ekki —, segja það vegna þess, að þeir hafa ekki fylgzt með gangi málsins. Við 1. umr. rakti hv. 3. þm. Reykv. nokkur skjöl um þetta mál. Ég svaraði ekki mörgum orðum, en þó þannig, að fullnægjandi ætti að vera hverjum, sem vili beita sanngirni. Eftir að ég tók sæti í stj., gerði ég ráðstafanir til að tryggja byggingarsjóði verkamanna verulegt fé til að koma upp verkamannabústöðum. Síðan gaf ég út brbl., því að ég taldi, að með því fyrirkomulagi væri betur háttað byggingarmálunum. Ég hefi áður lýst því, hvaða ástæður lágu til þess. Í Osló, þar sem byggt hefir verið mikið á þennan hátt með aðstoð borgarinnar, gilda þau ákvæði, að ef byggingarfélag byggir með stuðningi borgarinnar, þá á bærinn rétt á að tilnefna einn mann í stj. félagsins. Er þar um að ræða sömu hugsun og í frv. því, sem hér liggur fyrir. Þegar svo brbl. höfðu verið gefin út, var haldinn fundur í stj. byggingarsjóðs verkamanna. Byggingarfélagi alþýðu var skrifað og því tilkynnt, að það gæti fengið lán, ef það fyrir tilskilinn tíma fullnægði ákvæðum brbl. Síðan var haldinn fundur í félaginu, og mætti ég á þeim fundi. Var tilefni hans að útnefna mann, sem átti að vera formaður Byggingarfélags verkamanna, er rétt hafði til þess að fá lán úr byggingarsjóði, bæði samkv. þeim l., er áður voru í gildi, og hinum nýju bráðabirgðal. Á þessum fundi byggingarfélagsins var gerð ákvörðun um breyt. á samþykktum félagsins, svo að þær væru í fullu samræmi við l. um verkamannabústaði og bráðabirgðal. um sama efni. En nokkur ákvæði í samþykktum þessum voru sett sem skilyrði til ríkisstj. og byggingarsjóðs, og skyldu þær falla úr gildi, og ef ríkisstj. hefði ekki viðurkennt félagið innan tiltekins tíma, hefði byggingarsjóðsstjórnin ekki gert þetta. Felldar voru niður nokkrar breyt., sem samþ. höfðu verið hjá byggingarfélaginu. Ég lýsti því yfir, áður en gengið var til atkv., að ríkisstj. myndi halda sér við það, sem samþ. hefði verið, og myndi ekki láta stj. byggingarfélagsins setja sér nein skilyrði um að gera þetta eða hitt til þess að félagið vildi breyta samþykktum sínum. Annaðhvort yrði Byggingarfélag alþýðu að breyta samþykktum sínum algerlega skilyrðislaust til samræmis við gildandi landslög, eða það gæti ekki búizt við að njóta þeirra réttinda, sem 1. veittu. Þrátt fyrir þessa velgerð frá minni hálfu. sem kom fram áður en gengið var til atkv., voru samþ. þessar breyt. á ákvæðum Byggingarfélags alþýðu. Stj. Byggingarfélags alþýðu fór að öllu leyti fram með offorsi og vildi á engan hátt hlýða því, sem ég sagði, heldur setti sín skilyrði og gerði sínar samþykktir, án þess að taka neitt tillit til, hvort nokkur möguleiki væri til, að það gæti fengið lán.

Svo sagði hv. 4. þm. Reykv., að þetta hefði verið sérstaklega ljót aðferð og brot gegn Byggingarfélagi alþýðu. Það þykir aldrei sérlega eftirbreytnisvert að fella dóm án þess að kynna sér atvik málsins. Stjórn byggingarsjóðsins var sammála um þetta, þegar rætt var um lánveitingar til Byggingarfélags alþýðu. að það hefði ekki fullnægt skilyrðunum til lánveitingar, og enginn ágreiningur var innan stj. byggingarsjóðsins um það mál. Þegar Byggingarfélag alþýðu hafði gert þetta og sent félagsmálaráðun. samþykktir sínar, þá skrifaði félagsmálaráðun. þó enn á ný til Byggingarfélags alþýðu um, að þessar greinar gæti ráðuneytið ekki sætt sig við og óskaði því, að félagið felldi þær úr gildi, en að hinn nýskipaði formaður tæki þegar í stað við formannsstörfum, og meðstjórnendur þess yrðu kosnir. En í stað þess að taka bendingar ráðun. til greina, skrifaði stj. Byggingarfélags alþýðu félagsmálaráðun. kesknisbréf og lýsti því yfir, að hún færi sínu fram, hvað sem ráðun. segði, og allt væri í lagi hjá þeim. Þetta félag fékk ekki lán, vegna þess að það eða formaður þess vildi ekki hlýða gildandi landsl. og bráðabirgðal félagsmálaráðun. um þetta efni, og var það eina ástæðan til þess, að það fékk ekki lán úr byggingarsjóði. Ef þetta félag hefði hinn 13. eða 14. júlí 1939 samþ. að breyta ákvæðum sínum þannig, að þau yrðu skilyrðislaust í samræmi við l. um byggingu verkamannabústaða og bráðabirgðal., ef félagið hefði orðið við því, að hinn nýskipaði formaður hefði tekið við stjórn og látið fara fram kosningar á meðstjórnendum, þá hefði það fengið full réttindi til að fá lán úr byggingarsjóði, og eflaust einnig fengið lán. En því sýndist ekki að fara þá leið, heldur hefir það undir stj. hv. 3. þm. Reykv. (Hv) beitt offorsi og mótþróa gegn fyrirskipunum ríkisstj. og talið þær vera til óþurftar Byggingarfélagi alþýðu, en stj. þess félags taldi sig hafa réttinn í sínum höndum.

Ég get sagt hv. á. þm. Reykv. (EOl) það, út af því. sem hann sagði, að þetta hefði verið sett í gegn með offorsi, að það, sem hefir verið sagt ósatt við 1. umr., verður ekki sannara fyrir því, þótt það sé endurtekið við 2. umr.

Út af því, sem hv. 7. landsk. (GÞ) sagði, að óþarft hefði verið að gefa út bráðabirgðal. um þetta, því að byggingarfélögin hefðu fengið fullt réttlæti með þeirri skipan, er áður var á þessu, þótt ekki væri ákvæði um, að formaður þeirra yrði skipaður af félagsmálaráðun., verð ég að segja það, að sé efni bráðabirgðal. réttmætt, eins og hann er mér sammála um, er ekkert eðlilegra en að bráðabirgðal. væru gefin út um það atriði, og einmitt sérstaklega þegar byggingar í stórum stíl stóðu fyrir dyrum e. t. v. í mörgum kaupstöðum á landinu, þá var eðlilegt að koma réttmætum og réttlátum breyt. á sem fyrst, enda var það gert.

Ég get endurtekið þakkir mínar til allshn., sem er mér sammála um, að sé breyt. réttlát, er líka réttlátt að framkvæma hana sem fyrst, áður en nýkosnir menn þyrftu að hafa stjórn á framkvæmdum byggingarmála verkamanna yfirleitt í kaupstöðum.