04.12.1939
Efri deild: 75. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

98. mál, verkamannabústaðir

Brynjólfur Bjarnason:

Það hefir að líkindum heldur litla þýðingu, því miður, að ræða mál þetta hér meira en þegar hefir verið gert á þingi. Ég vildi þó ekki láta frv. framhjá fara í deildinni án þess að sýna lit á því að mótmæla. Því í stuttu máli er frv. þetta, svo sem hv. deildarmönnum er kunnugt, og enda þótt þeir kunni að greiða því atkv., eitthvert það mesta hneykslismál, sem lagt hefir verið fyrir þingið um langt skeið.

Hæstv. félmrh. setti þessi lög til þess að taka sjálfsákvörðunarréttinn af byggingarfélögum verkamanna. Með þessum bráðabirgðalögum skal lögskipa formann í þessum félögum til þess að draga valdið úr höndum félagsmanna sjálfra. Frá almennu sjónarmiði séð voru þessi bráðabirgðalög þarflaus, því íhlutun hins opinbera var meira en tryggð með yfirráðum yfir stjórn byggingarsjóðsins. Stjórnarskráin mælir svo fyrir, að ekki megi gefa út bráðabirgðalög nema brýna nauðsyn beri til, og það vita allir, að um enga slíka nauðsyn var að ræða hér. Hæstv. félmrh. hefir því framið skýlaust stjórnarskrárbrot, og þó ekki væri annað en þetta, þá væri það nægilegt til þess að fella svona frv. Það kom greinilega í ljós, til hvers refirnir voru skornir með Byggingarfélag alþýðu. Það breytti l. sínum þegar bráðabirgðal. voru gefin út, í samræmi við bráðabirgðalögin. Þegar hæstv. ráðh. sá, að þetta dugði ekki, gerði hann sér hægt um hönd og neitaði að viðurkenna félagið, og bar það fyrir sig sem ástæðu, að félagið hefði sett skilyrði. Sannleikurinn er sá, að það setti engin skilyrði. — Það þýðir víst ekki að ræða mikið meira um þetta; ég sé, að þm. ganga allir út, svo að ekki er lengur hægt að koma við neinum rökum. — Hæstv. ráðh. gerir sér lítið fyrir og brýtur l. félagsins og stofnar annað félag, og því er veitt lán, enda þótt þetta félag, sem fyrir var, uppfyllti öll skilyrði. Af þessu er hægt að sjá, að í fyrsta lagi hefir verið framið hér stjórnarskrárbrot, með útgáfu bráðabirgðalaga, síðan brýtur ráðh. sín eigin lög, þegar hann sér, að þau duga ekki til að koma því fram, sem hann ætlaði sér. Alþingi ætti því að sjá sóma sinn í því að fella þessi l. nú þegar við 1. umr.