07.11.1939
Neðri deild: 54. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

101. mál, ríkisreikningurinn 1937

Jón Pálmason:

Mér þykir rétt nú þegar við þessa umr. að segja nokkur orð almennt um afstöðu okkar endurskoðenda til þessa ríkisreiknings.

Eitt það mikilsverðasta í öllu félagslífi er, að reikningsskil og endurskoðun sé í fullkomnu lagi og allir reikningar og önnur plögg til reiðu og nákvæm. Úti um landið, í kaupfélögum, bæjarfélögum og öðrum félögum, er lögð mikil áherzla á, að reikningarnir séu í góðu lagi og endurskoðun framkvæmd eins og kostur er á. Ég held, að þetta sé talsvert lakara hjá ríkinu heldur en hjá bæjar- og sveitarfélögum o. s. frv., og ef það er þannig, verður slíkt ástand að breytast. Það er örðugt að fella fullnaðardóm um þetta, en það er nokkuð seint í vöfum, að við í nóv. 1939 erum með ríkisreikninginn frá árinu 1937, og þó að einhverjar brtt. ættu að koma fram í sambandi við reikninginn, er mjög örðugt að taka þær til greina. Það hefir verið svo undanfarið, að þótt endurskoðendur, skipaðir af Alþingi, hafi gert athugasemdir við reikninga ríkisins og vísað athugunum og úrskurði um það til Alþingis, hefir það oftast orðið svo, að lítið hefir verið með það gert, jafnvel haldið áfram á sömu braut og undanfarið, eða þá auknar þær misfellur, sem verið hafa á reikningunum.

Þetta mál virðist mér mjög þurfa að taka til athugunar. Menn láta sér kannske í hug koma, að ég vilji með þessu segja, að endurskoðun ríkisreikninga sé sérstaklega fullkomin í þetta sinn, en því er ekki til að dreifa. Því þótt við, sem höfum nú endurskoðað ríkisreikninga, höfum lagt mikla vinnu í það, og sennilega nokkru meiri en áður hefir gerzt, þá er mér það ljóst, að sú endurskoðun er ekki svo fullkomin sem æskilegt væri. Það þarf meiri tíma en okkur er ætlaður til að grafa til botns í því, sem viðkemur reikningum ríkisins. Auk þess vil ég taka það fram hvað mig sjálfan snertir, að ég hefi komið að þessu sem ókunnugur, og er þess vegna hættara við, að manni sjáist yfir ýmsa hluti, sem sérstaklega eru athugunarverðir. Og þótt hér hafi verið tekin aðeins nokkur atriði til athugunar, þá er það ekki af því, að ég búist við, að mörg önnur atriði í þessu sambandi geti ekki verið eins athugunarverð. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi lesið aths. okkar og svör ríkisstj., og ýmsir kannske haldi, að á milli okkar endurskoðenda hafi verið mjög slæm samvinna vegna skoðanaágreinings, en það er ekki tilfellið. því að góð samvinna hefir verið um þetta mál, svo langt, sem sameiginlegar skoðanir hafa náð til, og við höfum leyst okkar störf í bróðerni og án allrar deilu, þótt skoðanir skiptust í ýmsum atriðum. Það leiðir af sjálfu sér, að þegar umframgreiðslur eru nokkuð á 4. millj. kr., eins og hér á sér stað, getur það valdið nokkrum ágreiningi milli flokka og aðila, sem líta mjög misjöfnum augum á hlutina.

Út í einstök atriði skal ég ekki fara nema tilefni gefist til. En þegar um það er að ræða, hvort afgreiðsla fjármála eigi að vera á valdi Alþingis eða ríkisstj. yfirleitt, þá skiptast leiðir, því að um það atriði er mjög mikill ágreiningur.

Þá vildi ég taka til athugunar, hvaða viðhorf hefir blasað við okkur endurskoðendum á þessu sviði, og það er annað en við höfðum gert okkur grein fyrir. Við höfum yfirfarið reikninga í sambandi við ríkisbókhaldið og skjöl ríkisféhirðis, og eru það prýðilegar stofnanir, eftir því sem ég bezt veit, og ég veit ekki annað en að þar sé allt í fínasta lagi.

Menn skyldu nú ætla, að hjá þeim stofnunum gæti það legið ljóst fyrir endurskoðendum, hvernig hag ríkisins og rekstrinum væri farið, en svo er ekki, og það er mein, sem þarf að bæta. Því að þótt allt sé þar í lagi upp á punkt og prik, er maður litlu nær fyrir því að því er það snertir, hvernig fénu hefir verið varið í ýmsum greinum. Og þótt í gegnum þessar stofnanir sé hægt að sjá, að stj. hafi fyrirskipað, að þessar og þessar greiðslur skuli fara fram. og þær bókaðar, þá veit maður ekki fyrir því, hvernig því fé hefir verið varið; það fylgir ekki með reikningunum.

Okkur endurskoðendum kom saman um það í febr. eða marz, að gera lista um 80 reikninga og heimta þá frá stjórnarráðinu, til þess að fá séð, hvernig viðkomandi fé væri varið, og mér virtist koma fram undrun yfir því, að við skyldum vera að heimta þessi plögg. Ég fékk það þá inn í mig, hvort sem það er rétt eða ekki, að slíkt hefði ekki tíðkazt hjá endurskoðendum ríkisreikningsins, að fá að sjá viðkomandi reikninga. En án þess að fá yfirlitslista yfir þessa reikninga getur maður ekki séð, hvernig fénu er varið, sem fer í gegnum ríkisbókhaldið.

Það er illvinnandi verk að endurskoða ríkisreikninginn, þegar þetta liggur ekki ljósar fyrir en raun er á. Þessu þarf að breyta; við verðum að hefja samtök um það, að fyrir endurskoðendum Alþingis liggi það ljóst, án þess að þar þurfi margra vikna eða mánaða frest til þess að sjá, hvernig með er farið. Sumir þessara reikninga komu seint og um síðir og sumir aldrei. Þetta þarf að breytast. Sama er að segja um reikningsfyrirkomulagið í ýmsum stofnunum ríkisins. Vorum við allir sammála um það, að ef fyrir lægju eins glöggir reikningar frá þeim stofnunum eins og frá skrifstofustjóra Alþingis, þá væri það aðgengilegt verk að endurskoða og næsta fljótlegt.

Þá vildi ég minnast á eitt atriði enn, sem fram kom í sambandi við okkar endurskoðun sameiginlega, þ. e. skuldaskipti ríkisstofnananna. Þær munu eiga útistandandi nokkuð yfir 2 millj. og skulda nokkuð yfir 3 millj. erlendis, en telja í sjóðum 1 millj. kr. Þetta fyrirkomulag á verzlunarrekstri þessara stofnana álít ég, að undir öllum kringumstæðum þurfi að bæta. Það er ekki heppilegt, að stofnanir, sem stofnaðar eru í gróðaskyni, taki lán erlendis til þess að kaupa nauðsynjar og annað og láni út frá sér. Eitt af því, sem mér þótti eftirtektarvert, er með þær sjóðseignir, sem færðar eru í kassa í árslok hjá ríkisstofnunum. Reikningum er haldið opnum svo og svo lengi eftir áramót, og það talið í sjóði, sem innheimtist á því tímabili.

Þessar almennu aths. vildi ég gjarnan, að kæmu hér fram nú við 1. umr. í þessari hv. d. Ég mun svo við 2. umr. tala frekar um frv. í heild. Ég vænti þess, að hv. fjhn., sem fær málið til athugunar, leitist við að finna þær orsakir, sem liggja til þessa. Og ég vildi leyfa mér að beina því til hæstv. Alþingis, að við afgreiðslu þessa máls verði það gert að höfuðsjónarmiði, að breytt verði algerlega um stefnu þá, sem ríkt hefir í þessum efnum, bæði að því er snertir reikningsskil og eftirlit allt.