07.11.1939
Neðri deild: 54. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

101. mál, ríkisreikningurinn 1937

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Mér þykir rétt nú við þessa umr. að segja nokkur orð út af því, sem síðasti ræðumaður, hv. þm. A.-Húnv., sagði. En af því að hv. þm. hefir nálega alveg bundið sig við að ræða um fyrirkomulag á reikningi ríkisins og bókhaldinu, mun ég halda mig við það líka að mestu. En að fara að svara hv. þm. í einstökum atriðum, sé ég ekki ástæðu til, vegna þess að við höfum þegar svarað því.

Hv. þm. kvartar yfir, að reikningsskil séu talsvert lakari hjá ríkinu heldur en hjá öðrum stofnunum, en það hygg ég, að byggt sé á ókunnugleika hjá hv. þm., og stafi einnig af því, að hann er ekki vanur að hafa eftirlit með jafnstórum rekstri. Og þegar hann ætlar svo að fá yfirlit yfir þetta á stuttum tíma, lítur ríkisbókhaldið út fyrir honum eins og eitthvert völundarhús, og verður hann svo tortrygginn út af öllu saman. Ég hygg, að frágangur á ríkisbókhaldinu sé allur í bezta lagi. En það væri æskilegt, að reikningar gætu verið lagðir fyrr fram en nú, en ég hygg, að það sé ekki síður að kenna endurskoðendum en þeim, sem hv. þm. kvartar yfir, þ. e. a. s. þeim, sem ríkisbókhaldið hafa með höndum.

Ég ætla, að eitthvað eftir mitt árið 1938 hafi verið byrjað að endurskoða ríkisreikningana, en það hefði átt að vera hægt miklu fyrr, því að það er hægt að byrja það áður en búið er að prenta þá. Og það er ekki búið að kjósa endurskoðendur ríkisreikninganna fyrir árið 1938 ennþá. Það hefði verið hægt að endurskoða mikið af þeim um leið og handritið var gert úr garði, og hefði þá þeirri endurskoðun verið lokið um leið og þeir voru prentaðir. Ef endurskoðendur væru nægilega tilbúnir og samvinna væri hjá þeim við ríkisbókhaldið, mætti lagfæra þetta. En það hefir gengið þannig, að ávísanir hafa gengið nokkuð langt fram á næsta ár, og ég býst við, að færa megi það fram um 2–3 mánuði og loka svo reikningnum. Ég tek undir það atriði hjá endurskoðendum, að æskilegt væri, að þetta yrði lagfært. Aftur á móti fannst mér koma fram hjá hv. þm. einskonar misskilningur á því, hvað endurskoðendum ríkisreikninganna hefði verið ætlað að vinna. Hv. þm. sagði, að þeim væri ætlað að fara gegnum alla reikninga við ríkisreikninginn, og ekki aðeins það, heldur og alla undirreikninga og framkvæma á þeim endurskoðun, en það hygg ég óvinnandi verk fyrir endurskoðendur, og að svo verði alltaf. Það verður alltaf svo, að talsvert mikið af endurskoðun reikninga yfir meðferð ríkisfjárins fer fram í fjármálaráðuneytinu. En óski aðalendurskoðendur ríkisreikningsins eftir upplýsingum, þá álít ég, að þær eigi að fást, ef þeir spyrja fjármálaráðuneytið. Ég hygg, að ekki sé framkvæmanlegt að endurskoða reikninga og þannig að skoða hvert einasta fylgiskjal hjá öllum hinum mörgu starfsgreinum ríkisins. Mér vitanlega er það ekki í nokkru landi, að endurskoðendur ríkisreikningsins færist slíkt í fang, heldur sé það að mestu töluleg endurskoðun, en endurskoðun undirreikninganna sé framkvæmd af starfsmönnum fjármálaráðuneytisins. Svo koma gagnrýnandi endurskoðendur, til þess kosnir af þjóðþingum, og ef þeir eru tortryggnir um, að eitthvað sé við þá að athuga, þá eiga þeir að rannsaka þá eða fá aðra til þess. Það er ekki nema sjálfsagður hlutur að draga fram allar slíkar upplýsingar, sem eftir er óskað. Að hv. þm. kvartar svo mjög yfir þessum upplýsingum, hygg ég stafi af því, að hv. þm. hefir ekki gert sér grein fyrir þeirri verkaskiptingu, sem þarna á að vera.

Hv. þm. bendir á, að ríkisbókunin sé vel færð og störf ríkisféhirðis fari vel úr hendi, og ég álít líka, að svo sé. En hann sagði, að maður skyldi nú halda, að ef farið væri gegnum bækur ríkisbókhaldsins, gæti maður séð allar greiðslur, smáar og stórar í öllum greinum ríkisrekstrarins, en ég hygg, að það séu fáir þm., sem haldi, að svo sé, að allar greiðslur smáar og stórar komi þar fram. Ég veit ekki, hvort hv. þm. A.-Húnv. meinar, að allar greiðslur, smáar og stórar, fari hvergi fram nema uppi í stjórnarráði, og það væri þá einstakt fyrirkomulag í allri veröldinni. Það væri einstakt ríkisbókhald, ef ætti að haga því þannig, og engin trygging, þó að þannig væri til hagað. Nú á það að vera þannig, að stofnanirnar fá ávísað á fé upp í þær greiðslur, sem þær eiga að inna af hendi, og svo á að skila skilagrein fyrir því, sem þær hafa tekið. Hún á að vera sem fylgiskjal með landsreikningnum, til að sanna, hvernig með féð hefir verið farið. Ríkisbókhaldið er fyrst og fremst til að draga það saman, hvernig allt fer fram. Ég fullyrði, að það er óhugsandi að ætla að breyta þessum málum þannig, að allar fjárgreiðslur fari fram beint úr ríkissjóði, en ég legg áherzlu á hitt, að gengið sé hart eftir því, að skilagreinin liggi fyrir í ríkisbókhaldinu, svo að sjá megi, hvernig farið er með féð í einstökum atriðum. Við skulum hugsa okkur, hvernig það yrði, ef ætti að fara eftir því, sem þessi hv. þm. vill, og borga hvern einasta eyri úr ríkisfjárhirzlu. við skulum taka t. d. jafnmargháttað fyrirtæki eins og póstinn. Slíkt er vitanlega með öllu óframkvæmanlegt, og það er alveg sama, þó að við tökum einkasölurnar eða hvaða fyrirtæki sem er. Ég get ekki heldur séð, hvað er athugavert við, að stofnununum sé ávísað þannig eins og gert hefir verið, og ég veit, að þeir hafa komið á þessu fyrirkomulagi, sem eru færari en við hv. þm. til að dæma um þetta.

Hv. þm. A.-Húnv. segir, að ef allir reikningar væru eins glöggir og reikningar Alþingis, væri ekki erfitt að endurskoða landsreikninginn. Ég efast ekki um, að reikningar Alþingis séu afarglöggir, enda eru þeir einfaldir. Þar er tekjuliðurinn aðeins einn og síðan greitt út á þá ýmsu gjaldaliði. En að halda, að jafneinfalt sé að halda bókhald fyrir allan ríkisrekstur, er alveg út í hött.

Viðvíkjandi því, hvort fylgiskjöl séu látin fylgja reikningunum, þá er ég því ekki fullkomlega kunnugur, en það mun vera þannig, að í öllum stærri fyrirtækjum eru færðar dagbækur yfir allar greiðslur og fylgiskjölin lögð með í þeirri röð, sem greiðslan fer fram, og í venjulegu bókhaldi er ekki hægt að koma því öðruvísi fyrir, hvort sem þeim er svo eftir á raðað eftir kostnaðarliðum. Það gæti verið til hægðarauka fyrir endurskoðendurna, en það er ekki hægt að fara að halda hrókaræður um það á Alþingi.

Ég ætla svo, áður en ég lýk við að ræða það, sem snertir bókhaldshliðina, sem hv. þm. kom inn á, að nefna dæmi, sem staðfesta það, sem ég sagði áðan að þessi hv. þm., sem er ekki vanur stórkostlegum rekstri, muni ekki hafa áttað sig á öllu, sem fyrir kom í þessu sambandi. Ég vil t. d. benda á, að ein af aths. er um það fé, sem fiskimálan. fékk til meðferðar. Þar er sagt, að n. hafi fengið úr ríkissjóði 135 000 kr., sem sjáist ekki á reikningum hennar. Ég geri ráð fyrir, að endurskoðendurnir hafi litið svo á, að vanti skilgreiningu fyrir þessu. Þetta stafar af því, að n. hefir tvöfalt fullkomið bókhald og færir ekki á rekstrarreikning nema það fé, sem hún telur eytt; hitt er fært á efnahagsreikning, og er aths. því byggð á misskilningi, því að n. hefir í reikningum sinum gert fulla grein fyrir þessu fé. Sumt er fært á rekstrarreikning, sumt á efnahagsreikning, en það hafa endurskoðendurnir ekki aðgætt, að n. hafði tvöfalt bókhald, en við því er aðeins gott að segja. Endurskoðendurnir segja, að við svo búið megi standa, en sé til athugunar framvegis, en það, sem n. hefir þarna gert, var það eina rétta.

Sama er að segja um aths. við ferðaskrifstofu ríkisins, sem snertir formshlið á reikningi hennar. Þar er að því fundið, að rekstrarhalli ferðaskrifstofunnar sé talinn með eignum hennar. Nú kannast allir við, að fyrst eru taldar fram eignir og svo skuldir. Ef það stenzt ekki á, t. d. að eign er minni, þá er það af því, að tap hefir á orðið, og þá er fært inn rekstrartapið til þess að sýna, að skuldir séu meiri en eignir. Að þessu er svo fundið, en þar hefir ferðaskrifstofan ekki gert annað en að færa reikninginn rétt samkv. reglum tvöfaldrar bókfærslu.

Ennfremur er ein aths., sem snertir líka bókhaldsfyrirkomulag, sem mér finnst sýna þetta sama. Hún er um það, að hvergi sjáist á landsreikningnum, að hluti af ágóða bifreiða- og raftækjaeinkasölu standi inni í ríkissjóði. Þessu er svarað þannig, að þetta er innifalið í einum lið, sem heitir „innstæða“. Hitt væri ómögulegt, að hafa landsreikninginn þannig, að þar væri rolla yfir alla þá, sem skulduðu þar eða ættu inni. Þetta finnst mér benda á, að þessi aths. sé að verulegu leyti byggð á misskilningi.

Það verður að gera reikningana þannig úr garði, að þeir gefi sem bezt heildaryfirlit, og síðan verða að vera undirreikningar, sem sýna einstök atriði. Það er ómögulegt að hafa ríkisbókhaldið öðruvísi en þannig, að það smádragi saman í toppinn, ef svo mætti að orði kveða, en ef menn vilja vita nánar um sérstök atriði, þá sé farið í þau plögg, sem fylgja.

Ég vil svo að lokum minnast á það, sem hv. þm. sagði um „stofnanir ríkisins“, eins og hann orðaði það, og mun hann þar hafa átt við einkasölurnar. Hann gagnrýndi þær sterklega fyrir, hversu þær ættu miklar útistandandi skuldir. Ég hefi nú ekki rannsakað þetta nákvæmlega, og hann víst ekki heldur. Hann álítur, að hægt sé að reka einkasölu án þess að nokkrar skuldir séu útistandandi. Nú er það svo, að flestar einkasölurnar hafa tekið við af kaupmönnum, sem hafa lánað viðskiptamönnum sínum til ákveðins tíma, 3–6 mánaða, og fá svo aftur vörurnar að láni frá útlöndum. En þegar einkasalan tekur við, þá er ómögulegt að taka fyrir þetta fyrirkomulag í einu vetfangi, heldur verður að reyna að draga úr því smátt og smátt eftir ákveðnum reglum. Það mætti líka taka fyrir skuldirnar við útlönd með því að ríkið léti einkasölurnar fá margar milljónir króna í rekstrarfé, en það höfum við ekki getað, og þess vegna hljóta að verða skuldir við útlönd. Útistandandi skuldir viðtækjaverzlunarinnar munu t. d. vera um 350 þús. kr., en það stafar af því, að viðtækin eru seld með afborgunum, og svo einnig af því, að þegar útsölumenn fá vörusendingar, þá er það „debiterað“ hjá þeim og kemur því fram á reikningum viðtækjaverzlunarinnar, en er að meira eða minna leyti vörubirgðir.

Sama er að segja um raftækjaeinkasöluna. Þegar hún var stofnuð, var venjan hjá heildsölum að veita 2–3 mán. gjaldfrest, en við breyttum þessari venju og drógum seglin saman smátt og smátt, eftir því sem hægt var, annars hefðu þeir orðið gjaldþrota, sem verzluðu með þetta áður. Þetta er upplýst í svarinu, en endurskoðendurnir hafa ekki tekið þetta til greina, en vísa til aðgerða Alþingis. Hinsvegar er mér ekki svo kunnugt um skuldir stofnananna, að ég geti rætt um það, enda liggur hér ekkert sérstakt fyrir um þær.

Þá eru skuldirnar við útlönd. Þær eru annarsvegar til orðnar vegna þess, að það er venja hjá þessum stofnunum að fá vörulán, en hinsvegar vegna yfirfærsluvandræða, en því er ekki hægt að breyta nema smátt og smátt, eftir því sem gjaldeyrisástandið leyfir, og í flestum tilfellum þar sem um þetta er að ræða, er samið um það í samráði við hlutaðeigendur, en við reynum að lækka skuldirnar eftir því, sem unnt er.

Þá minntist hv. þm. á, að miklar skuldir væru um áramót hjá stofnununum. Þetta stafar af því, að útgjöldin falla fyrr til útborgunar en tekjurnar koma inn frá ýmsum umboðsmönnum, sem fara með mál stofnananna, en það er föst venja ríkisverzlananna, sem má deila um, hvort eigi að vera, að láta reikninga, sem tilheyra árinu, sem leið, koma inn á reikninga þess ár. Þetta er aðeins færsluatriði, en ef vildi mætti láta þetta koma sem sérliði á efnahagsreikningi, sem mundi þá heita „óinnkomnar tekjur frá fyrra ári“. En þetta er sem sagt algert reikningsatriði, og getur verið til athugunar, hvort eigi að breyta því.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að svara hv. þm. fleiru að sinni.