07.11.1939
Neðri deild: 54. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í B-deild Alþingistíðinda. (867)

101. mál, ríkisreikningurinn 1937

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ástæðan til þess, að ég kveð mér hljóðs að þessu sinni, eru þau ummæli í ræðu hv. þm. A.-Húnv., að það væri margt í færslu landsreiknings, sem ekki væri liðið í reikningum neins sveitar- eða bæjarfélags. Ég leyfi mér fyrst, áður en ég fer langt út í umr. um þessi mál, að óska upplýst, hvað í raun, og veru vakir fyrir hv. þm. með þessum ummælum. Hann má nfl. vita það, hv. þm., að landsreikningurinn er töluvert umfangsmeiri og margbrotnari en hreppsreikningurinn í sveitinni hans. Hitt hélt ég að hann vissi, að það er ríkisféhirðir og ríkisbókhaldið, sem gera reikninginn.

Hann var að reyna, hv. þm., að afsaka seinlæti sitt með endurskoðunina með því að bera það fyrir sig, að ekki hefði verið byrjað að prenta reikninginn fyrr en í janúar í ár. Þetta er bókstaflega engin afsökun fyrir hv. þm. Honum var innan handar að byrja endurskoðunina áður en farið var að prenta reikninginn. Það þýðir því ekkert að vera að slá því framan í þá, sem þekkja til um þessa hluti, að það hafi verið eitthvert sérstakt atriði að fá reikninginn prentaðan.

Þá sagði hv. þm., að ekki hefði legið fyrir skýrsla frá endurskoðun ríkisins. Þetta má vel vera rétt, en það var þá skylda hans sem endurskoðanda að óska eftir þeim gögnum, sem eiga að fylgja RR í hendur endurskoðenda Alþingis. Það er engin dyggð að krefjast ekki, að það fylgi, sem fylgja á.

Þá sagði hv. þm., að hann hefði lagt aðaláherzluna á að kynna sér, hvernig umframgreiðslunum væri hagað. Þetta er sannarlega ekki til þess að hæla sér af, þar sem þetta er beinlínis og á að vera aðalstarf hans sem endurskoðanda. Hér hefir hv. þm. aðeins gert skyldu sína, sem sízt er til að hæla sér af.

Það munu nú um 5 ár síðan ég tók að beita mér fyrir því, að fjárlögin væru jafnan sett sem næst því, sem útgjöldin myndu reynast í framkvæmdinni, og að þessu hefi ég unnið af fremstu getu. Ég get nú ekki stillt mig um að minnast á sumar aths. hv. þm. um umframgreiðslurnar. Þar er óneitanlega sumstaðar skotið yfir markið. Hann segir, hv. þm., t. d., að stjórnarráðskostnaðurinn hafi farið mjög fram úr áætlun, og getur þess jafnframt, að ráðherra þurfi í því tilfelli sem öðru samþykki þingsins. Hér er ekki gott í efni, því að í sannleika sagt veit ég ekki, hvernig er hægt að komast hjá því að greiða hinn nauðsynlegasta stjórnarkostnað. Annars vona ég, að þessi hv. þm. vinni nú í fjvn. í fullu samræmi við það, sem hann hefir haldið fram hér.

Þá var hitt atriðið, sem hann taldi sig standa fast á, að það yrði aldrei lag á greiðslum úr ríkissjóði með því að hafa marga gjaldkera, og á hann þar við forstjóra hinna ýmsu ríkisstofnana. Allt ætti að fara gegnum fjármálaráðherra og ríkisféhirði. Þetta er bara óframkvæmanlegt, og mun hvergi tíðkast um víða veröld, og styðst ég þar við álit fróðari manna en við hv. þm. A.-Húnv. erum. Fyrir nokkrum árum var almennt litið svo á, að fjármálaráðuneytið eitt ætti að sjá um, að sparlega væri farið með fé ríkisins. Þetta var allútbreidd skoðun, og skaðleg. Ég vil alls ekki fækka gjaldkerunum, sem hv. þm. var að tala um, því að það er beinlínis ekki hægt. Það, sem hér þarf að vinna að er, að öll ráðuneytin, hvert út af fyrir sig, beri ábyrgð á sínum greiðslum. Í danska ráðuneytinu er það svo, að hvert einstakt ráðuneyti ber ábyrgð á sínum kafla í fjárlögunum. Þessu þarf að keppa að hér, að staðbinda ábyrgðina við hvert ráðuneyti, í stað þess að viðhalda þeirri skoðun, sem ríkt hefir, að fjmrh. einn sé vörður um ríkissjóðinn. Þá er það algerlega óhugsandi, sem hv. þm. A.-Húnv. hélt fram, að engar smágreiðslur fari fram úr ríkissjóði án vitundar fjármálaráðuneytisins. Á slíku byggir ekkert ríki fjármálakerfi sitt. Í Danmörku getur t. d. hvert ráðuneytið út af fyrir sig ávísað á ríkissjóðinn án þess að fara til fjármálaráðuneytisins.

Það er ekki eins auðvelt að eiga við þetta eins og hreppskassann, því að þótt upphæðirnar séu fáar og smáar hjá okkur í samanburði við það, sem er hjá stærri þjóðum, þá verður samt að reyna að staðbinda þetta á þann hátt, sem ég gat um. Menn geta sagt sér sjálfir, hversu ókleift það er fyrir fjmrn. að fylgjast með því, hvar hver stofnun er stödd í að eyða þeim upphæðum, sem henni eru ætlaðar í fjárl. Ef þessu er dreift á fleiri ráðuneyti, þá er það auðveldara að fylgjast með því, á hvaða leið stofnanirnar eru með rekstur sinn. En að ætla fjmrh. þetta, það er alveg út í bláinn. Hver stjórnardeild á að bera ábyrgð á sinni ráðsmennsku gagnvart þinginu.

Ég vil sérstaklega nota tækifærið til þess að taka þetta fram nú, þar sem ég er ekki lengur fjmrh., svo það getur ekki skilizt þannig, að ég sé að skjóta mér undan sérstakri ábyrgð. Ég minntist lauslega á þetta í síðustu fjárlagaræðunni, sem ég hélt, að það þyrfti að hverfa meira að því að staðbinda ábyrgðina.

Hv. þm. vildi gefa í skyn, að það væri ýmislegt skemmtilegt, sem kæmi í ljós, ef skyggnzt væri bak við fortjaldið, eins og sýndi sig t. d. á greiðslunni til Eskifjarðarhrepps. Hann talaði um, að ákveðin upphæð hefði verið greidd til Eskifjarðarhrepps, og hefðu endurskoðunarmennirnir óskað eftir að fá reikninga hreppsins, en fjmrn. hefði ekki haft reikningana, og taldi hann það mikið hneyksli. En hér kemur aftur fram misskilningur hjá hv. þm. á því, að fjmrn. eigi að bera ábyrgð á hverri útborgun. Það er atvmrn., sem hefir með fátækra- og sveitarstjórnarmál að gera, og það umgengst oddvita þeirra hreppa, sem telja sig þurfa á aðstoð að halda. Það er þess vegna atvmrh., sem fær allar upplýsingar um einstök atriði í hreppunum, og hann gerir till. um það, til hvaða hreppa greiðslur skuli fara fram. Atvmrh. talar við fjmrh. og segir: „við erum búnir að rannsaka þetta mál og álitum, að ekki sé hægt að komast hjá því að borga þessa upphæð.“ Hann trúir kollega sínum og borgar upphæðina, en gögnin eru geymd í atvmrn. Það er einkennilegt, að þessi misskilningur skuli koma fram hjá þm., en hann er mjög almennur hjá þjóðinni.

Fjmrh. á að afla teknanna og sjá um innheimtu þeirra. Hann á einnig að sjá um, að ekki séu greiddar upphæðir utan fjárl., nema sérstakar ástæður séu til, og vera nokkurskonar aðhald á hinum ráðuneytunum. Þannig er alstaðar litið á þetta.

Það, sem sérstaklega átti að krassa hjá hv. þm. A.-Húnv., var það, að þegar hann hafi spurzt fyrir um þetta atriði í fjmrn., þá hafi honum verið svarað, að þetta hafi verið borgað út eftir símskeyti. Þetta á nú að vera blaðamatur, að það skemmtilega hafi komið fram í umr. á Alþ., að upphæð hafi verið borguð eftir símskeyti. Ég veit nú ekki, hver í fjmrn. hefir sagt þetta við hv. þm. Það getur vel verið, að þetta hafi verið borgað út eftir símskeyti, en það hefir þá aðeins verið framhald á langvinnri rannsókn á fjárhag Eskifjarðarhrepps og viðræðum við fulltrúa þá, sem metið hafa það, hvers hreppurinn þarfnaðist.

Það getur auðvitað verið gott fyrir blaðamennina að geta tekið þetta upp, að oddvitinn hafi símað eftir peningum og fengið þá. Hvað eiga t. d. áheyrendur að halda, þegar svona er sagt frá málunum? Þeir halda auðvitað, að það hafi aðeins komið eitt símskeyti og svo hafi verið þotið upp til handa og fóta og þessi upphæð borguð. En ég get ekki kallað þetta annað en óheiðarlegan málflutning.

Hv. þm. A.-Húnv. kom þá að því, sem hann kallar ágreiningsatriði í efnahagsreikningi ferðaskrifstofunnar, þar sem rekstrarhalli 2 ára er talinn eignamegin á efnahagsreikningnum. Ég hefi skýrt það áður, hvernig á þessu stendur. Til þess að sýna, að svona standi efnahagur stofnunarinnar, að skuldir séu umfram eignir svo og svo miklar, þá er tekinn rekstrarhalli 2 síðustu ára, til þess að sýna, að eignirnar séu minni en skuldirnar, þar sem stofnunin hefir tapað þessi 2 ár. Ti1 þess að gera þetta ennþá greinilegra, þá er þetta sundurliðað og sagt, að hann sé þetta mikill frá fyrra árinu og þetta frá hinu síðara. Hv. þm. þarf því ekki að horfa nema á eitt blað til þess að sjá efnahaginn.

Hv. þm. telur það óreiðu, að rekstrarhallinn skuli standa eignamegin. Mér skilst, að það hafi sérstaklega farið í taugarnar á hv. þm., að hann skuli standa eignamegin. En er nokkuð meiri eign í rekstrarhallanum, þó hann standi eignamegin?

Alveg sama er að segja um það, sem hv. þm. segir um fiskimálanefnd, að á ríkisreikningi sé fært til fiskimálanefndar 135 þús. kr., en sú upphæð sé ekki færð til tekna í reikningi nefndarinnar. Hann finnur þessa upphæð hvergi á reikningi nefndarinnar og stendur svo í þeirri hugmynd, að hún hafi horfið. En hann hefir ekki skilið reikning nefndarinnar. Hún semur tvennskonar reikninga, efnahags- og rekstrarreikninga, og af því þessi upphæð kemur ekki fram á rekstrarreikningi, þá heldur hann, að upphæðin komi hvergi fram. Þó þetta sé svo leiðrétt, þá lætur hann það samt ekki falla niður, heldur segir, að þetta sé til athugunar framvegís. Er það til athugunar framvegis, að það megi ekki færa þetta rétt? Hvers vegna ekki að segja, að aths. sé fullnægt, þegar búið er að gera grein fyrir þessu?

Hv. þm. var að fala um útlendar skuldir einkasalanna og sagði, að það væri ágreiningur okkar á milli um þær. Hann sagði, að það yrði að koma því í kring, að einkasölurnar gætu verzlað kontant. En þetta er alveg óframkvæmanlegt. Það myndi verða til þess, að fjölda margir viðskiptamenn verzlananna yrðu að loka. Það er ómögulegt að vera að endurtaka þetta sí og æ, þegar alltaf er verið að halda þessari fjarstæðu fram. Það getur verið, að útlendu skuldirnar séu óþarflega miklar. Ég hefi auðvitað ekkert á móti því, að reynt sé að bæta úr því. En það er ekki hægt á þeim grundvelli, að þessar stofnanir hætti alveg að lána til einstakra manna. því þeir yrðu þá að loka. Ef maður lítur á skuldatöp áfengisverzlunarinnar og tóbakseinkasölunnar, þá er það hverfandi lítið, sem þessar stofnanir tapa af þeim upphæðum, sem hér er um að ræða. Mikið af skuldunum hjá áfengisverzluninni eru umboðssöluábyrgðir hjá mönnum, sem selja fyrir verzlunina.

Hv. þm. sagði, að það væri gamalt ágreiningsatriði okkar á milli, hvað miklar hinar útlendu skuldir einkasalanna væru. Ég veit ekki til þess, að um þetta hafi verið nein deila. Ég man, að hann hefir haldið því fram á Alþ., að það ætti að telja þessar skuldir með rekstrarlánum. Ég benti á, að það væri ekki rétt, því móti þessum skuldum standa innieignir í bönkum og vörubirgðir. Það er ekki eins og hv. þm. segir, að það séu allt innstæður í banka. Það er sumpart rekstrarfé, sem einkasölurnar hafa fengið sem vörulán, og sumpart er það vegna yfirfærsluvandræða, sem þetta fé er sem innstæða í banka.

Hv. þm. var að dylgja með, að sumt af þeim íslenzku krónum, sem þyrfti að borga þessar erlendu skuldir með, væru komnar inn í ríkissjóðinn. En það er rangt. Hann hefir aldrei tekið meira en það, sem svarar til sjálfs ágóðans. Það væri líka röng mynd af viðskiptunum, ef í ríkissjóðinn kæmu peningar, sem svo ættu að liggja til staðar, ef rættist úr gjaldeyrisvandræðunum og yfirfærslurnar ættu að fara fram. En að vísu verður ríkissjóður þarna fyrir vaxtatapi. Hann fær ekki nema 4% af því, sem stendur í bankanum, en borgar 6% af yfirfærslunum. — Það er dálítið leiðinlegt að þurfa að vera að þvæla um þetta sjálfsagða atriði. En það er ekki hægt að komast hjá því, þegar sí og æ er verið að impra á þessu.

Að síðustu þetta með sjóðina, sem hv. þm. sagði, að væri alveg óhæfilegt. Ég hefi upplýst áður, að þetta stafar af reikningsfærsluaðferð, og engu öðru, enda þarf ekki að segja okkur, sem alvanir erum svona viðskiptum, að þetta sé annað. Hv. þm. sagði, að þetta gæti orðið til þess, að menn ættu hægara með að leyna sjóðþurrð. En það er alveg út í bláinn. Hver einasti peningur í stofnunum er bókfærður jafnóðum. En það, að svona mikið fé er í sjóði um áramót, stafar af því, að gömlu bókunum er haldið opnum, þó búið sé að opna nýjar fyrir árið, sem er að byrja. Mér skilst, að það sé þetta, sem hv. þm. álítur, að gæti orðið til þess að dylja sjóðþurrð. En það er misskilningur hjá hv. þm. Hann segir, að það sé full ástæða til að halda, að svarið sé ekki rétt. En hvers vegna fer hann ekki sjálfur og athugar, hvort svarið er rétt. Því er hann að dylgja um þetta hér? Hv. þm. treystir sér kannske ekki til þess að sjá af bókunum, hvort svarið er rétt? Hann gæti þá fengið sér aðstoð. Það gæti kannske verið, að það þyrfti að dómkveðja menn til þess að ganga úr skugga um, hvort svörin væru rétt.

Ég sé svo ekki ástæðu til að vera langorðari um þetta.