07.12.1939
Neðri deild: 77. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

101. mál, ríkisreikningurinn 1937

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Herra forseti! Ég hefi raunar engu að svara hv. þm. A.-Húnv. fram yfir það, sem hæstv. viðskmrh. hefir gert nú þegar. Megnið af því, sem hv. þm. varði 1½ klst. af tíma þingsins til að segja, var ekki nema upptugga á því, sem hann sagði við 1. umr., og inn á milli kveinstafir yfir því, hve hv. samþm. hans væru bölvaðir að fara svona með hans ágætu siðabótarstarfsemi, sem hann hefði hafið hér í hv. d.

Ýmsir menn hafa sjálfsagt veitt því eftirtekt, að það hefir verið talsverður taugaóstyrkur á hv. þm. A.-Húnv. undanfarna daga. Menn geta sér til, af hverju þetta muni stafa, og hann hefir lýst sínum förum ekki sléttum síðan þingið hófst. Hefir hann aðallega talið upp raunir sínar og ofsóknirnar, sem hann hafi orðið fyrir í þremur liðum. Í fyrsta lagi hefði verið höfðað á sig meiðyrðamál, í öðru lagi væri sú einstaka meðferð, sem hæstv. viðskmrh. hefði veitt sér við 1. umr., og svo sé mér svo sem trúandi til þess að fara að ráðast á sig líka, jafnstilltan og vandaðan mann. Það er ekki að undra, þótt hann geti varla á þessar raunir minnzt án þess að verða grátklökkur. Ég vil benda hv. þm. á, hvort það muni alveg ástæðulaust, að þetta þrennt hendir hann á svo skömmum tíma. Vissulega er það oftast svo, þegar eitthvað er mönnum andstætt, þá er það ekki alveg annara sök, og svo er sagt, að sá valdi miklu, sem upphafinu veldur. Og sá, sem tekur sér dómsvald yfir fjölda manna og útdeilir kinnhestum til hægri og vinstri, skal bæði gæta þess, að þar sé í nokkurt réttlæti og að hann standi þá sjálfur fyrir með hreinan skjöld. Þeim manni þýðir ekki að standa frammi fyrir þeim, sem hann hefir veitt höggin, og kvarta og kveina, ef hann hefir gerzt sekur sjálfur um samskonar framferði og þeir. Þessar hrakfarir stafa allar af því, hvernig þm. hefir rækt, starf sitt, eins og þáltill. okkar meiri hl. fjhn. bendir á í fáum dráttum, og hversu vel honum hæfir að bera fram sínar ádeilur. Mun ég koma að því síðar, því það voru fáein atriði í ræðu hans, sem þarfnast skýringa.

Svo bráðlátur er hv. þm. vegna framkominnar þáltill., að hann getur ekki beðið með að ræða hana þar til hún er komin á dagskrá. Þótt hún komi ekkert við afgreiðslu ríkisreikningsins, ætlar hann nú þegar að reyna að hrekja þáltill. okkar meiri hl. fjhn. Og hvað er það, sem hann ætlar aðallega að hrekja? Jú, það er þessi fjárans prósentureikningur, sem verið er að þvælast með. Það er hann, sem hv. þm. hefir aðallega minnzt á, en hann hefir ekki borið á móti, að dæmin um hlutdrægni hans séu rétt. Hvort réttara er í því máli, verður enginn dómur lagður á annar en dómur almennings, og skil ég vel, að hv. þm. fagni ekki þeim dómi, því að ég er ekkí í vafa um, hver áfelldur verður. Er þess sannarlega ekki að vænta, að dómurinn verði hv. þm. í vil.

Ég skal ekki fara út í að ræða um þær einstöku ríkisstofnanir, sem hæstv. viðskmrh. minntist á og sýndi greinilega fram á, á hve miklum rökum eru reistar aðfinnslurnar við þær. En ég get ekki stillt mig um að minnast á eitt, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði, að væri mest varhugavert við þetta allt og við rekstur ríkisstofnananna, sem sé að laun fyrir aukastörf hjá fólki væru eins há og föstu launin. Ég hygg, að þetta sé orðum aukið, en ég hygg, að laun fyrir aukastörf þessa hv. þm. séu orðin hærri en föstu launin, og vitað er, að hv. þm. hefir tekið þau laun í algeru leyfisleysi. Ef hv. þm. A.-Húnv. getur bent mér á, hvar heimild sé fyrir þessum launagreiðslum, þá vil ég biðja hann um að gera það. Og ef hv. þm. A.-Húnv. lætur sér sæma að taka laun á alþjóðarkostnað, enda þótt hvergi standi nokkur stafur fyrir því, þá situr ekki á þessum hv. þm. að væna aðra menn um það, að þeir taki laun, sem full heimild er fyrir.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að ég hefði kvartað yfir, að aths. hans við ríkisreikninginn hefðu verið of fáar. Hvar stendur það, og hvenær hefir það verið sagt? En hitt er aftur sönnu nær, að bezt hefði verið fyrir hv. þm., að hann hefði engar aths. gert. Því að það er mín sannfæring, að þessar aths. hans muni verða honum til háðungar. Þessum orðum mínum til staðfestingar vil ég geta þess, að hv. þm. A.-Húnv. virðist alls ekki kunna skil á samanburðar- og prósentureikningi. Við skulum taka svo einfalt dæmi, að hv. þm. A.- Húnv. stjórnaði 10 búum í Húnaþingi. en ég stjórnaði 1 búi, að tekjuhallinn hjá mér yrði 1000 kr. Teldi hv. þm. það jafnvirði, ef hann hefði þurft einnig að bæta upp sinn tekjuhalla af 10 búum með 1000 kr.? Myndi hann telja það rétt að taka eingöngu fram upphæð tekjuhallans án tillits til þess, hve mikið hvor aðila fyrir sig hefði umleikis? Og er það ekki einber barnaskapur að bera fyrirtæki með milljónaveltu og tekjuhalla upp á nokkrar þúsundir saman við miklu minni fyrirtæki? En þetta er þó sú aðferð, sem notuð er, þegar bornir eru saman tveir liðir í ríkisreikningnum, þar sem er talin umframgreiðsla til yfirskattanefndar, skattstofu Reykjavíkur og fyrir skattvirðingar. Umframgreiðslan við þennan lið er kr. 14007.07. Umframgreiðslan til ríkisskattanefndar er kr. 8 240.00. Hér eru umframgreiðslurnar bornar saman, í stað þess að bera saman umframgreiðsluna við hina upphaflegu fjárveitingu. Manni myndi geta dottið í hug, að ef hv. þm. A.-Húnv. fengi því ráðið, tæki hann eingöngu til greina þá liði, þar sem upphæðin er stærst. En þó talar hv. þm. A.Húnv. ekki um það og gerir ekki aths. við það, þótt vegamálastjórnin hafi farið 37% fram úr áætlun, og er slík hækkun þó ekki lítil í samanburði við þau 3–4%, sem eytt var umfram vegna kostnaðar við ráðstafanir gegn fjárpestinni. Í svari vegamálastjóra er gerð nokkur grein fyrir hinum aukna kostnaði, þar sem verkfræðingi einum eru greiddar 2 000 kr. sumpart sem verkalaun og sumpart sem styrkur fyrir að fara ekki utan. Hvort myndi hv. þm. A.-Húnv. ekki hafa breitt sig út yfir þetta, ef þessi útgjaldaliður hefði staðið annarstaðar en. hann gerir? En ef farið er að borga starfsmönnum ríkisins fyrir að sigla ekki, þá held ég að megi fyrirgefa margar aðrar umframgreiðslur á ríkisreikningnum. Raunar gætir hv. þm. A.-Húnv. þess vandlega að minnast ekki á þetta atriði. Er þetta af einskærri sannleiksást og vandvirkni, að hv. þm. A.-Húnv. lætur þessa að engu getið og lætur ekki jafnt yfir alla ganga?

Hv. þm. A.-Húnv. hefir í aths. sínum við ríkisreikninginn sérstaklega veitzt að menntaskólanum í Rvík og stjórn hans fyrir umframgreiðslur við skólahaldið. Ef hann hefði reynt að líta sanngjörnum augum á málið, þá hefði hann auðvitað átt að taka til samanburðar gjöld annara ríkisskóla. Hlutfallslega er menntaskólinn lægstur hvað umframgreiðslur snertir, en þó dettur hv. þm. A.-Húnv. ekki í hug að gera neinar aths. við hina skólana. Umframgreiðslur menntask. í Rvík námu aðeins 7% en í Akureyrarskóla 14%, í kennaraskólanum 32% og stýrimannask. 23%. Hér fer sem oftar, að hv. þm. A.-Húnv. vitir þann, er sízt skyldi. Þetta stafar annaðhvort af því, að hv. þm. A.-Húnv. ber ekki skyn á prósentureikning og hlutfallsreikning, eða þá af hreinni og beinni hlutdrægni. Þessi hlutdrægni kemur fram í því, að hann átelur harðlega það, sem miður fer eða honum finnst ámælisvert hjá pólitískum andstæðingum sínum, en lokar augunum fyrir því, sem hægt er að gagnrýna hjá þeim stofnunum, þar sem pólitískir félagsbræður hans sitja fyrir. Ég geng þess ekki dulinn hvaða tilhneigingar eru hér að baki. En þegar hv. þm. A.-Húnv. segir í sambandi við þetta mál, að hér hafi verið kallað fram vopn, sem verið hafi í slíðrum um stund, en ekki verði slíðrað hér eftir, þá eru það aðeins borginmannleg hreystiyrði. Ef hv. þm. A.- Húnv. er hér með dulbúnar ógnanir, þá er bezt, að hann og flokksmenn hans komi fram með þær hreinlega. Hitt er ekki hafandi, að menn, sem hafa starfað saman og gert með sér samkomulag, séu um leið með rýtinginn að baki sér, áliti sig „stikfrí“ og geri yfirboð eins og sumir flokksmenn hv. þm. A.-Húnv., eða beita vinnubrögðum hans og óþverralegum vopnum. Við í Framsfl. erum ekki hræddir við að eiga í vopnaviðskiptum á opinberum vettvangi. Það er miklu betra en að beita ódrengilegum aðferðum, sem alls ekki eru sæmandi mönnum, er hafa ábyrgðartilfinningu og bera velferð þjóðarinnar fyrir brjósti sér. Hv. þm. A.-Húnv. má því gjarnan draga sverðið úr sliðrum. Hann hefir dregið athygli manna að því, hve hollir sumir eru í samstarfinu og vinna eftir sem áður í skotgröfunum. Þessir menn ættu ekki að kvarta yfir vopnaviðskiptunum, því að þeir eiga sjálfir upptökin. Hv. þm. A.-Húnv. sagðist eiga bágt með að trúa því, að aðrir en ég fyndu að störfum hans. En það er ekki von til þess að honum verði að þeirri trú sinni. Allir flokksmenn hans viðurkenna og tala um það, hve frámunalega heimskulegar og flausturslegar aths. hv. þm. eru. Hann finnur almenningsdóm og fyrirlitningu fyrir frumhlaup sitt. Og það er ekki okkur að kenna. að svo verður, heldur hefir hann með skrifum sinum selt sig sjálfur undir sökina.